Sigríður Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 12. maí 1936. Hún lést 7. desember 2024.

Foreldrar Sigríðar voru Ólöf Ingimundardóttir frá Bæ í Króksfirði, f. 1909, d. 1987, og Ólafur Helgason frá Gautsdal í Geiradal, f. 1903, d. 1998. Systur Sigríðar voru: Hildigunnur Ólafsdóttir, f. 1945, d. 2024, Ingibjörg Ó. Nielsen, f. 1940, d. 2015, og Martha María Kalman Aðalsteinsdóttir, f. 1935, d. 2010.

Eiginmaður Sigríðar var Valur Arnþórsson kaupfélagsstjóri KEA og síðar bankastjóri Landsbankans, f. 1935, d. 1990. Börn Sigríðar og Vals eru sex: 1) Brynja Dís, f. 1955, gift Guðmundi Viðari Karlssyni, f. 1950. Börn þeirra eru: Valur Kristinsson, f. 1985, d. 2022. Eftirlifandi eiginkona hans er Alesia Fralova, f. 1981. Synir þeirra eru Anthony Dagur og Alex Máni. Helga, f. 1998, sambýlismaður Runólfur Þorláksson. 2) Drengur, f. og d. 1958. 3) Ólafur, f. 1959, giftur Sif Konráðsdóttur, f. 1960. Börn Ólafs af fyrra hjónabandi eru: Baldvin, f. 1985, giftur Jónínu Ásgrímsdóttur, f. 1986. Börn þeirra eru: Andri Bjartur, Jóhanna Björt og Áróra Björt. Sigríður, f. 1992. Róshildur Arna, f. 1994, sambýlismaður Sigurbjörn Bjarnason, f. 1995. Börn þeirra eru: Bjarni Heiðar og Sólbjört Sigríður. Dóttir Sifjar er Helga Østerby Þórðardóttir, f. 1997. 4) Arna Guðný, f. 1963, samferðamaður Aðalsteinn Þórsson, f. 1964. Börn Örnu frá fyrri sambúð eru: Ólafur Valur Mikumpeti, f. 1990, sambýliskona Ellen Nadia Gylfadóttir, f. 1989. Sonur þeirra er Viktor Bliki. Viktor Mikumpeti, f. 1992, sambýliskona Kara Marín Bjarnadóttir, f. 1998. 5) Ólöf Sigríður, f. 1969. Sonur hennar er Guðmundur Tómas Guðmundsson, f. 1995. Faðir hans og sambýlismaður Ólafar Guðmundur Tómas Árnason, f. 1969, d. 1994. 6) Arnbjörg Hlíf, f. 1976. Dætur hennar eru Vala Frostadóttir, f. 2007, og Myrra Guðný Arnbjargardóttir, f. 2017.

Sigríður lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Eftir það stundaði hún nám við Samvinnuskólann og lauk þaðan prófi 1953. Sigríður vann í vélritunardeild SÍS 1953-54 og starfaði sem féhirðir Samvinnusparisjóðsins frá 1.9. 1954 til hausts 1955. Eftir það stundaði hún húsmóðurstörf í Reykjavík, Garðabæ og á Akureyri. Um tíma vann hún einnig á skrifstofu Sjúkrahússins á Akureyri og var í umönnunarstörfum í Garðabæ. Sigríður vann alla tíð að góðgerðarmálum og lagði mörgum lið.

Útförin fer fram frá Garðakirkju í dag, 3. janúar 2025, klukkan 13. Streymt verður frá útförinni.

Elsku amma Sigga, kletturinn okkar og besti vinur.

Það hafa verið algjör forréttindi að eiga þig að og að vita að svo góð, yndisleg og sterk kona stæði þétt við bakið á okkur, og væri alltaf til taks sama hvað á bjátar.

Okkur eru minnisstæð æskuárin á Dalvík og Akureyri og hvernig þú þvældist ein í bíl milli landshluta til að horfa á okkur keppa í fótbolta og körfubolta. Þú heimsóttir okkur reglulega norður og stundirnar þar saman eru ómetanlegar.

Við nutum þess líka að vera hjá þér fyrir sunnan, bæði á sumrin og öll jól og besta stundin var alltaf að renna í hlað í Mávanesinu og svo síðar á Móaflöt, þar sem amma var búin að elda heimsins besta gúllas fyrir þreytta ferðalanga. Fyrir okkur var amma hreinlega jólin.

Þú lifðir fyrir börnin þín, barnabörnin og langömmubörnin og það var sennilega ekkert sem þú naust meira en samverustunda með fólkinu þínu sem þú dýrkaðir og dáðir. Þessar stundir eru okkur dýrmætar en við höfum ekki tölu á öllum kaffibollunum sem hafa verið sötraðir á Móaflöt yfir spjalli um allt milli himins og jarðar. Þú hafðir svo gott lag á að segja sögur sem skildu áheyrendur þína oftar en ekki eftir skellihlæjandi. Þér þótti þó alltaf skemmtilegast að ræða einmitt fólkið þitt og hvað það væri að bardúsa hverju sinni.

Tilhugsunin um að fylgja þér síðasta spölinn er erfið en þegar maður hugsar til tímans sem við fengum saman er ekki annað hægt en að brosa. Þú varst ekki bara hlý, skilningsrík og hvetjandi heldur líka svo mikill húmoristi. Það var einhvern veginn svo gaman að vera í kringum þig og þú hafðir fyrst og síðast svo mikinn húmor fyrir sjálfri þér. Þú náðir að heilla vini okkar upp úr skónum og ófá skiptin sem maður mætti með vini í kaffi til ömmu Siggu.

Elsku besta amma, hlýjan, húmorinn og fallegu minningarnar munu fylgja okkur alla ævi. Þú varst einfaldlega best.

Þínir

Ólafur (Óli) Valur
og Viktor.

Amma var mér eins og annað foreldri og besti vinur minn. Enginn hefur séð þróun mína, upp og niður, þangað til ég varð manneskjan sem ég er í dag, eins og amma. Hún stóð alltaf með mér og gafst aldrei upp á mér.

Guðmundur Tómas Guðmundsson.

Ég var svo lánsamur á skólaárum mínum í Reykjavík að ég fékk bæði fæði og húsnæði hjá hjónunum Ólöfu og Ólafi Helgasyni á Tómasarhaga 46, en þau voru foreldrar Sigríðar sem við kveðjum í dag. Þarna voru einnig á heimilinu dætur þeirra, Inga og Hidda, sem nú eru báðar látnar. Auk þeirra var á heimilinu yndisleg gömul kona, Ingibjörg, amma þeirra systra. Á heimili þessara hjóna leið mér alla tíð eins og ég væri heima hjá mér og er allt þetta fólk mér ógleymanlegt og afar kært.

Um þetta leyti var Sigga að taka saman við verðandi eiginmann sinn, Val Arnþórsson, sem var frá Eskifirði, en þau höfðu kynnst í Samvinnuskólanum þar sem þau voru nemendur. Ekki löngu síðar stofnuðu þau heimili og hófu þau búskap í Reykjavík. Börnin urðu alls fimm.

Nokkrum árum síðar var Valur kallaður til starfa til Akureyrar, sem kaupfélagsstjóri KEA. Með komu þeirra hjóna, og fjölskyldu, varð aftur stutt á milli okkar og áttum við Sigrún margar góðar stundir með þeim Val og Siggu.

Og árin liðu eins og gengur og aftur var Valur kallaður til nýrra starfa í Reykjavík, nú sem bankastjóri Landsbanka Íslands.

Það má með sanni segja að hún Sigga, þessi glæsilega kona sem var vel gerð til orðs og æðis, hafi lifað tímana tvenna. Hjónaband hennar og Vals var gæfuríkt og farsælt, og glæsilegt heimili þeirra bar vott um samheldni þeirra og smekkvísi. Það var því gríðarlegt reiðarslag þegar Valur fórst í flugslysi í október 1993 og Sigga stóð ein eftir með barnahópinn. Þá sýndi hún hversu öflug og sterkur einstaklingur hún var. Eftir þetta mikla áfall helgaði hún líf sitt framtíð og vegferð barna sinna.

Það er með miklum söknuði, en um leið þakklæti, sem við Sigrún kveðjum okkar góðu vinkonu, og sendum við börnum hennar og öðrum ættingjum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jón Þorvaldsson.