Hvammsvirkjun Gert er ráð fyrir að Hvammsvirkjun í Þjórsá fari að skila orku á árinu 2029. Framkvæmdir við virkjunina eru þegar hafnar.
Hvammsvirkjun Gert er ráð fyrir að Hvammsvirkjun í Þjórsá fari að skila orku á árinu 2029. Framkvæmdir við virkjunina eru þegar hafnar. — Tölvumynd/Landsvirkjun
Guðmundur Sv. Hermannsson gummi@mbl.is

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Undirbúningur er hafinn á vegum Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra að stofnun sérstakrar eftirlitsnefndar með framkvæmdum við Hvammsvirkjun í Þjórsá. Heimild er í skipulagslögum til að skipa slíka eftirlitsnefnd vegna umfangsmikilla framkvæmda sem eru matsskyldar eða þegar um sérstaka eða vandasama framkvæmd er að ræða.

Gert er ráð fyrir að nefndin starfi allan framkvæmdatímann. Framkvæmdaaðilinn, Landsvirkjun, ber allan kostnað af starfi nefndarinnar en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er ekki ljóst hve sá kostnaður verður hár.

Ákvæði um skipun eftirlitsnefndar var í framkvæmdaleyfum sem sveitarfélögin tvö gáfu út vegna Hvammsvirkjunar á síðasta ári og á síðasta fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps fyrir áramót var samþykkt að fela Haraldi Þór Jónssyni oddvita að hefja undirbúning að stofnun eftirlitsnefndarinnar og gera drög að erindisbréfi hennar.

Haraldur sagði við Morgunblaðið að það yrði verkefni næstu daga að eiga fundi með öllum leyfisveitendum í ferlinu til að forma störf nefndarinnar en svona nefnd hefði ekki verið skipuð áður. Gert er ráð fyrir að nefndin hafi eftirlit með því að öllum skilyrðum sem framkvæmdinni hafa verið sett sé framfylgt. Þá mun nefndin ásamt skipulagsfulltrúum beggja sveitarfélaganna hafa eftirlit með því að framkvæmdin sé í samræmi við leyfi og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum.

Haraldur sagðist reikna með að nefndin yrði skipuð þremur einstaklingum, þar af einum frá hvoru sveitarfélagi. „Ég á von á því að þetta verði góður samráðsvettvangur þar sem allir aðilar verða við borðið, þeir upplýstir um framgang mála og vinni hlutina þétt saman. Þetta snýst einnig um að ákveðin upplýsingagjöf komi frá þessum vettvangi út í samfélagið á framkvæmdatímanum frekar en að hún verði að frumkvæði framkvæmdaaðilans,“ sagði Haraldur. „Við horfum einnig til þess að nefndin verði vettvangur til að fylgja eftir fyrirvörum, sem settir eru í framkvæmdaleyfinu. Við viljum fyrst og fremst vinna þetta vel.“

Haraldur sagði að vinna myndi væntanlega hefjast af krafti í vor við Hvammsvirkjun og Búrfellslund austan Þjórsár. „Ásýnd svæðisins mun breytast mikið við þessar framkvæmdir sem munu standa yfir næstu 4-5 ár,“ sagði hann.

Samið við Fossvélar

Eftir að framkvæmdaleyfið lá fyrir í október sl. samdi Landsvirkjun við Fossvélar ehf. á Selfossi um framkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar. Alls bárust sex tilboð í verkið og áttu Fossvélar lægsta tilboðið sem hljóðaði upp á 1,2 milljarða króna eða 74% af kostnaðaráætlun. Fossvélar hófust handa strax í desember við undirbúning en í næstu viku flytur fyrirtækið enn fleiri vinnuvélar og tækjabúnað á svæðið og starfar þar fram að áætluðum verklokum í nóvember.

Í samningnum felst að Fossvélar leggja 3 kílómetra langan aðkomuveg inn á virkjunarsvæði Hvammsvirkjunar frá endurbættum Hvammsvegi sem lokið var við fyrr á árinu og að væntanlegu stöðvarhúsi. Efnið til vegagerðarinnar verður sótt í frárennslisskurð virkjunarinnar.

Þá munu Fossvélar einnig undirbúa vinnubúðaplan á Hvammi 3 í Rangárþingi ytra en jörðin er í eigu Landsvirkjunar. Þegar framkvæmdir við virkjunina standa sem hæst árið 2027 munu um 400 manns starfa þar. Í desember óskaði Landsvirkjun eftir tilboðum í vinnubúðirnar, með gistirými fyrir allt að 32 starfsmenn, skrifstofurými, mötuneyti, heilsurækt og heilsugæslu. Skilafrestur tilboða rennur út 24. janúar.

Loks felst í samningnum að hefja framkvæmdir við fiskistiga en fiskistigi og seiðafleyta greiða för göngufisks milli Hagalóns og árfarvegar neðan stíflunnar.