Rafmyntir Daði Kristjánsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Visku Digital Assets, segir áhuga fólks á rafmyntum hafa aukist mikið að undanförnu.
Rafmyntir Daði Kristjánsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Visku Digital Assets, segir áhuga fólks á rafmyntum hafa aukist mikið að undanförnu.
Daði Kristjánsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Visku Digital Assets, segir að árið 2024 hafi verið það ár sem rafmyntir sem eignaflokkur hafi fengið þá viðurkenningu sem þær eigi skilið. Kauphallarsjóðir með Bitcoin voru settir á laggirnar í fyrra …

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Daði Kristjánsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Visku Digital Assets, segir að árið 2024 hafi verið það ár sem rafmyntir sem eignaflokkur hafi fengið þá viðurkenningu sem þær eigi skilið. Kauphallarsjóðir með Bitcoin voru settir á laggirnar í fyrra og nam innflæðið inn í þá um 35 milljörðum bandaríkjadala. Daði bendir á að kauphallarsjóðir með Bitcoin hafi á aðeins einu ári náð þeim árangri að verða næstum því jafnstórir og kauphallarsjóðir með gull.

„Það má heldur ekki gleyma því að pólitíkin í Bandaríkjunum og víðar hefur orðið jákvæðari að undanförnu gagnvart geiranum,“ segir Daði og bætir við að hann sé bjartsýnn á að árið 2025 verði spennandi ár.

„Ég tel að svo lengi sem hefðbundnum eignamörkuðum gangi vel á árinu sé ekkert því til fyrirstöðu að rafmyntageirinn muni eiga mjög gott ár,“ segir Daði.

Spurður hvaða sviði innan geirans sé vert að fylgjast með á árinu segir Daði að möguleikarnir í gervigreindartækni séu spennandi.

„Ég tel að það séu miklir möguleikar í samþættingu á gervigreindartækni og bálkakeðjutækni, það er nokkuð sem vert er að hafa augun á á árinu,“ segir Daði.

Bitcoin í gjaldeyrisvaraforða Íslands?

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hefur talað fyrir því að Bitcoin fari í gjaldeyrisvaraforða Bandaríkjanna. Ef Trump stendur við stóru orðin á árinu 2025 mun það auka verulega líkurnar á því að fleiri lönd geri slíkt hið sama. Bitcoin væri því farið að hafa svipað hlutverk og gull hefur haft sem forðaeign hjá fjölmörgum löndum í gegnum tíðina.

„Það sem er að eiga sér stað er að mörg lönd í heiminum eru farin að taka rafmyntir sem eignaflokk alvarlega. Það gerðist á síðasta ári þegar Bandaríkin, fyrirliði fjármálaheimsins, fóru að tala á jákvæðum nótum gagnvart rafmyntum; þá fóru mörg af hinum löndunum að gera slíkt hið sama. Bitcoin gæti farið í gjaldeyrisvaraforða Íslands einn daginn,“ segir Daði.

Áhuginn sífellt að aukast

Hann bætir við að þeir hjá Visku Digital Assets hafi fundið fyrir mikilli breytingu á árinu 2024 hvað varðar áhuga innanlands.

„Það er fullt af fólki að fjárfesta í þessu þó að það eigi í erfiðleikum með að skilja tæknina á bak við það. Fólk sér að stærstu eignastýringaraðilar í heimi eru að innleiða þennan eignaflokk í starfsemi sína. Það er að eiga sér stað samruni milli hefðbundna fjármálageirans og rafmyntaheimsins. Það er gífurlega spennandi. Maður sér líka að innlendu fjármálafyrirtækin eru að verða jákvæðari gagnvart eignaflokknum, sem er gott að sjá,“ segir Daði.

Hann segist búast við verðhækkun á rafmyntum á árinu að öðru óbreyttu.

„Áhugi bæði landa og stofnanafjárfesta á eignaflokknum er að aukast og einnig áhugi venjulegs fólks. Ég tel að árið verði blómlegt,“ segir Daði.

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir