Arinbjörn Rögnvaldsson
arir@mbl.is
Lágvöruverslunin Prís og nýsköpunarfyrirtækið Humble hófu nýlega samstarf sem hefur það markmið að bjóða neytendum upp á enn betra verð á matvælum og draga um leið úr matarsóun.
Steinn Arnar Kjartansson, einn stofnenda, segir Humble-appið vera markaðstorg fyrir matvæli sem eru við það að renna út en uppfylla allar gæða- og útlitskröfur neytenda.
„Við settum Humble-markaðstorgið á laggirnar síðasta sumar með það að markmiði að koma öllum þeim matvælum til neytenda sem eru góð í dag en ekki jafn góð á morgun, né útlitslega séð upp á tíu, eins gengur og gerist í matvælageiranum,“ segir Steinn í samtali við Morgunblaðið.
Hann bendir á að ekkert sé að gæðum þeirra matvæla sem eru seldar á markaðstorginu, heldur sé tilgangurinn að koma þeim til neytenda á mikið lækkuðu verði, því annars endi þau í ruslinu.
„Það er staðreynd að framleiðendur farga um þriðjungi matvæla áður en þau enda í höndum neytenda. Það sem við gerum er að tækla alla virðiskeðjuna. Það er frá frumframleiðendum, innflytjendum, heildsölum sem heildverslunum og smásölum,“ útskýrir Steinn.
Hann segir að allir þessir aðilar geti selt vörur sínar í gegnum Humble-markaðstorgið og fengið eitthvað fyrir þær í stað þess að henda þeim.
„Hugmyndin er að þessir aðilar fái eitthvað fyrir þessar vörur fremur en að henda þeim. Það er einföld staðreynd að það fylgir töluverður kostnaður því að henda matvælum í gríð og erg. Humble-markaðstorgið veitir þann möguleika að fá eitthvað fyrir þær fremur en að henda þeim,“ bendir Steinn á spurður nánar um markaðstorgið.