Haustið 1990 fór ég úr ferðabransanum í hagnýta fjölmiðlun sem var ný námsleið á meistarastigi við Háskóla Íslands og svo þaðan beint í kennsluréttindanámið. Ég hafði áttað mig á að fræðsluhliðin á fjölmiðlun er sérlega spennandi og síðan þá hef ég helgað mig menntamálum. Haustið 1992 fór ég að kenna íslensku í Langholtsskóla og kenndi þar og stýrði unglingadeildinni um árabil. Ég fékk mörg tækifæri til sköpunar og skólaþróunar með góðu samstarfsfólki.“ Hún bætir við að nú sé mikið rætt um netnám og fjarnám og minnist þróunarverkefnis sem hún tók þátt í árin 2001-2003 sem snerist um að kenna valgreinar á netinu. „Við vorum í þessu nokkrir kennarar úr Langholtsskóla, Fellaskóla og Rimaskóla. Unglingunum okkar gafst kostur á að velja á milli valgreina í hljóðvinnslu, kvikmyndasögu, hagnýtri stærðfræði og skapandi skrifum en það námskeið kenndi ég sjálf. Meðal annars spunnum við leikrit á umræðuþræði vikum saman þar sem hver nemandi tók sér það hlutverk sem hún eða hann vildi og spann við atburðarásina,“ segir Kristín aðspurð hvað hafi leitt hana út á braut menntamála. Náms- og starfsferill Kristínar er fjölbreyttur. Eftir menntaskóla fór hún til Ítalíu og lærði ítölsku en síðar bókmenntafræði og íslensku við HÍ. Kristín vann í morgunútvarpinu hjá RÚV árin 1982-3 og vann svo við fararstjórn og markaðsmál hjá Samvinnuferðum-Landsýn svo fátt eitt sé nefnt. Kristín og Þórarinn Eyfjörð, eiginmaður hennar, eiga tvö börn, Sigrúnu og Þorstein, og tengdabörn og barnabörn.
Möguleikarnir til starfsþróunar eru miklir
Eftir að hafa starfað með unglingum í Langholtsskóla um árabil vatt Kristín kvæði sínu í kross og fór að starfa að mótun kennaranámsins. „Það var í kringum 2006 að ákveðið var að bjóða meiri sérhæfingu í kennaranáminu og kennaranemar gætu valið milli áherslu á yngri börn, miðstig og unglingastig. Mig langaði að taka þátt í að móta þessar nýju áherslur og miðla reynslu minni af unglingakennslu svo ég færði mig yfir í KHÍ í fullt starf.“
Hún bætir við að hún hafi verið stundakennari við skólann áður en hún færði sig alfarið yfir á háskólastigið.
„Eitt það allra besta við kennarastarfið er að möguleikarnir til starfsþróunar eru ótrúlega miklir. Meðfram meistaranámi í KHÍ vann ég á Rannsóknarstofnun KHÍ við úttektir á skólastarfi víða um land, það var fróðlegt. Eftir áratug í háskólakennslu tók ég svo skiptispor og leysti af sem skólastýra Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum í tvo vetur og það var dásamleg reynsla. Að vinna með 5-9 ára börnum gaf mér nýja vídd í kennarastarfið og svo er skólastjórn alveg sérstakt leiðtogastarf. Þá tók ég líka þátt þegar Hjallastefnan rak grunnskólann á Tálknafirði í nokkur ár. Ég naut þess þá að vera kennsluráðgjafi og taka þátt í að breyta skólaskipulagi og kennsluaðferðum í anda Hjallastefnunnar. Einnig var gaman að vera fjarkennari unglinganna í rauntímakennslu af loftinu í Barnaskólanum en bestar voru þó reglubundnar ferðir vestur til að kenna unglingunum í nokkra daga, íslensku og stærðfræði,“ segir hún.
Kennslufræðingar ættu að fara á vettvang reglulega
Eftir þetta fór hún svo aftur að kenna kennaranemum og nýtti þessa dýrmætu reynslu í vinnu sína sem háskólakennari. Kristín segir að sér finnist að allir kennslufræðingar í Háskóla Íslands ættu að skapa sér tækifæri til starfa á vettvangi í að minnsta kosti eitt misseri reglulega, rétt eins og hægt sé að sækja um rannsóknarmisseri reglubundið. Þrátt fyrir að njóta þess í botn að kenna grunnskólabörnum segist Kristín ekki sakna þess að vinna á grunnskólastiginu. „Ég horfi stutt og sjaldan í baksýnisspegilinn, er alltaf með hausinn fullan af nýjum og spennandi hugmyndum.“
„Það þyrfti heilt helgarblað til að svara þessu“
Hún segir margt hafa breyst í skólamálum á sínum langa ferli sem sé eðlilegt. „Auðvitað breytist samfélagið og hefur raunar breyst mjög mikið, lykilstofnanir með, bæði skólinn og fjölskyldan.“ Þegar Kristín er spurð hvaða breytingar í skólakerfinu hafi tekist vel og hverjar ekki svarar hún snöggt og hlær. „Það þarf heilt helgarblað til að svara þessu.“
Finnst umræðan um menntamál grimm
Mikið hefur verið rætt um menntamál undanfarið, hvernig finnst Kristínu sú umræða hafa verið í samfélaginu? „Umræðan er grimm finnst mér. Fjölmiðlar af öllu tagi hamra á því að mörg börn og unglingar standi sig illa í námi, séu nánast ótalandi og stórir hópar ljúki grunnskóla ólæsir. Þetta niðurrifstal gerir ekkert annað en að brjóta börn niður og gera foreldra ringlaða og óörugga. Kennarar eru líka orðnir dauðþreyttir á þessu. Nær væri að fara rétt með staðreyndir og tala svo um hvað megi gera til að byggja upp og styrkja okkar ágæta skólakerfi.“ Hún bætir við að einn helsti vandi skólakerfisins sé þetta niðurrifstal „og viljaleysi til að setja það fjármagn í skólakerfið sem þarf til að mæta fjölbreyttum nemendahópi, til að bæta aðbúnað og launakjör allra þeirra sem starfa í skólunum“.
Helstu styrkleikarnir góð líðan og traust milli kennara og nemenda
Kristín segir svo og að helstu styrkleikar íslenska skólans séu góð samskipti kennara og nemenda, traust þeirra í milli og góð líðan íslenskra barna í skólanum sé til fyrirmyndar og það eigi við um öll skólastig. „Í grunnskólum vil ég sérstaklega nefna áherslu á sjálfstæði nemenda og þróun í notkun upplýsingatækni, sem reyndar líður aðeins fyrir stöðugt nýjar hindranir frá Persónuvernd.“
PISA-prófin mæla bara ákveðna þætti í ákveðnum greinum
Mikið hefur verið rætt um heldur slakan árangur íslenskra barna í PISA, hverjar eru aðalástæðurnar fyrir þessu að mati Kristínar? „Mælingarnar eru marktækar og samanburðurinn innan OECD réttur en það vill gleymast að PISA-prófin mæla bara ákveðna þætti í ákveðnum greinum og annað ekki. Ég er hlynnt því að við nýtum þessar samanburðarupplýsingar til að meta stöðuna í okkar skólakerfi en við megum ekki lesa í þær eitthvað sem ekki er þar. Það er komin út bitastæð skýrsla um íslensku niðurstöðurnar og síðastliðinn vetur var fundaröð til að kynna hvað af PISA prófunum 2022 megi læra. Ég fjallaði til dæmis um mat íslenskra skólastjórnenda og unglinga á þátttöku foreldra í námi þeirra. Í PISA-skýrslum frá OECD kom fram að þeir nemendur voru líklegri til að fá háa prófseinkunn sem voru í góðum tengslum við fjölskyldu sína. Þá hljótum við að spyrja hvernig þessu sé farið hjá okkur; eru unglingarnir okkar í góðum tengslum í sínum fjölskyldum? Njóta þeir stuðnings í náminu?“ segir hún ákveðin.
Samræmd próf góð en margt annað þurfi með
Samræmd próf hafa verið töluvert ágreiningsefni en eins og flestir vita voru þau afnumin fyrir nokkrum árum og margir sem kalla eftir þeim aftur. Hver er afstaða Kristínar til samræmdra prófa og ætti að taka þau upp aftur? „Ég er hlynnt því að samræmd próf séu lögð fyrir nokkrum sinnum á grunnskólagöngu nemenda til að afla upplýsinga um heildarmyndina í landinu og þróun milli ára. Rétt eins og PISA-prófin gefa samræmd próf mikilvægar upplýsingar en bara á ákveðnum sviðum. Við þurfum líka mat foreldra, nemenda og kennara og samtal um námsstöðu hvers barns, markmið og væntingar. Á matsferill.is fæst innsýn í starf Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, fjölmörg matstæki sem kennarar geta nýtt sér eru í vinnslu sem og framvindupróf sem verða samræmd og lögð fyrir á landsvísu þrisvar á grunnskólagöngunni. Ég tel þetta góð skref í þróun námsmats og geti þjónað nemendum, foreldrum og kennurum vel jafnt sem okkur í ytri hringnum, rannsakendum, stjórnendum skólamála og stefnumótunaraðilum.“
Efla þarf námsgagnaútgáfu og stuðning við barna- og unglingahöfunda
Læsi hefur verið mikið í umræðunni og þá aðallega hnignandi lesskilningur meðal ungs fólks. Hvaða leiðir telur Kristín heillavænlegar til að efla læsi og lesskilning í nútímasamfélagi? „Ég hef trú á að gott aðgengi að fjölbreyttu lesefni, alls konar textum sem lesnir eru og ræddir heima og í skólunum, skipti máli. Hið opinbera þarf að efla námsgagnaútgáfu og stuðning við höfunda og útgefendur barna- og unglingabóka; einungis rösklega 100 bækur sem henta börnum vel 6-16 ára koma út árlega á íslensku. Við þurfum markvissa málörvun og lestrarkennslu hjá yngri börnunum og svo þarf að gefa læsi og lestri betra rými alla skólagönguna með næði, upplestri og samlestri, samtölum um texta og hvatningu til nemenda um að skrifa alls kyns texta. Heima fyrir þarf líka að gefa lestrinum gaum, lesa og ræða saman um bækurnar sem börn eru með í höndunum, hlusta saman á hljóðbækur og syngja með krökkunum. Sumir unglingar velja að lesa á netinu, eru mjög flinkir í að finna alls konar forvitnilegt efni, margt er á ensku og það er ekkert að því. Við þurfum að takast á við alla neikvæðnina, hætta að taka undir þær raddir sem segja að orðaforði barna og unglinga sé fábreyttur og muna að þau hafa orð yfir margt sem við höfum ekki.“
Rangt að unglingsstrákar lesi miklu minna en jafnaldra stelpur
Kristín segist hafa unnið úr gögnum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar um lestraráhuga og hún kynnti forvitnilegar niðurstöður þar að lútandi á síðustu Menntakviku, sem er ráðstefna menntavísindafólks. Hún segir að gögnin hafi sýnt að það er rangt að unglingsstrákar lesi miklu minna en jafnaldra stelpur. Þeir lesi vissulega minna af skáldsögum en meira af alls kyns fræðsluefni og fréttatengdu efni og meira á netinu en þær. „Lestur á bók fer minnkandi en allt hitt læsið er vanmetið. Til dæmis er myndlæsi margra barna og unglinga mjög mikið, þau túlka tilfinningar og tengsl milli fólks af myndum, skilja tákn, geta spáð fyrir um söguþráð og svo framvegis.“
Heimilin verði að styðja við nám barna, líka afar og ömmur
Kristín hefur sterkar skoðanir á því hvernig heimili og skóli eigi saman að styðja við nám barna. „Foreldrar og forráðamenn eiga að styðja við nám barna sinna. Doktorsrannsóknin mín um tengsl heimila og skóla sýndi það ótvírætt. Fjölskyldur eru alls konar og við getum öll stutt börnin, líka ömmur og afar eins og dæmin sanna. Stuðningur þýðir ekki að foreldrar eigi að geta kennt það sem kennararnir kenna í skólunum. Foreldrar eru hins vegar í lykilhlutverki í því að sýna áhuga á námi barna sinna, fylgjast með hvernig þeim gengur og vera í þéttum samskiptum við kennarana. Börn þurfa næði til að læra heima og hvatningu til að sinna heimanámi hvort sem þeim er sett fyrir að gera mikið eða lítið sem ekkert heima.“ Hún bætir við að grunnskólabörn þurfi að þjálfa lestur daglega og æfa sig í að reikna og skrifa texta reglubundið. Þetta gildi um yngstu börnin en líka um unglingana, þeir þurfi að tileinka sér svo margt, efla þekkingu sína með lestri og vinna alls kyns skrifleg og skapandi verkefni.
Fáar og einfaldar reglur á heimilinu og nóg af athygli og ástúð
„Börnin þurfa svo auðvitað nóg af góðum mat og mörg þeirra þarf næstum að reka í háttinn,“ segir Kristín kankvíslega. „Foreldrar gera vel við börnin sín með því að hafa fáar, einfaldar reglur á heimilinu, nóg af athygli og ástúð handa hverju barni og með því að leggja sig fram um að þekkja vini og félaga barnanna. Því miður hafa ekki allir foreldrar tök á að vera eins mikið með börnum sínum og þeir vildu, heldur vinna alltof langan vinnudag. Við öll sem það getum ættum að styðja börn og barnabörn í námi og félagslífi eins og kostur er, sýna þeim áhuga og fjölga samverustundunum.“
Kennaranámið fjölbreytt og sérhæft
Árið 2011 útskrifaðist síðasti árgangur kennara úr þriggja ára náminu en þá var grunnskólakennaranámið lengt upp í fimm ár. Síðan þá hefur því stundum heyrst fleygt að námið sé of langt. Hvað finnst henni um þessa gagnrýni og á hún rétt á sér? „Mér finnst ég sjaldnast heyra hana frá kennaranemum. Kennaranámið er líka fjölbreytt og í mörgum háskólum hér á landi. Hjá okkur á menntavísindasviði HÍ er um margar sérhæfingar og námsleiðir að ræða. Ef ég væri að fara í kennaranám núna veldi ég íslenskukennslu í B.Ed.-námi og svo meistaranám á nýrri námsbraut sem nefnist Menntun allra, þar sem áherslan er meðal annars á kennslu barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn. Á því sviði er margt í deiglunni og dýrmætt að kennaranemar geti sérhæft sig í að kenna í fjölbreyttum nemendahópum. Sá hópur kennaranema sem kemur í meistaranám með BA eða BS í faggrein fer líka sístækkandi og tveggja ára kennaranám fyrir þann hóp má síst vera styttra. Við erum líka að efla samstarf við félaga okkar í kennaradeildinni á Akureyri og meðal annars að byggja upp með þeim fagháskólanám í leikskólafræði svo möguleikarnir á að verða kennari eru í stöðugri þróun.“
Kennarar þurfa að hafa djúpa þekkingu
Hvaða áherslur í menntun kennara skila afburðakennurum inn í skólana? „Góðir kennarar eru fagmenn með djúpa þekkingu hver á sínu fagsviði sem og í uppeldis- og kennslufræðum, kennslukonur og kennslukarlar, hjartahlýjar og hæfileikaríkar manneskjur en alls ekki allar steyptar í sama mót. Næstu skref í þróun kennaranáms tel ég ættu að vera að styrkja þann hluta námsins sem er á vettvangi, skerpa og einfalda kröfur til kennaranema með því að fækka hæfniviðmiðum og greina betur sundur kjarna námsins og aðra fagþekkingu en hennar má afla með ýmsu móti. Það held ég að muni laða að enn fleira ungt og hæfileikaríkt fólk sem myndi njóta sín í kennarastarfi og skólaþróun með börnum og unglingum.“
Börnin okkar það dýrmætasta sem til er
Ekki stendur á svari þegar Kristín er að lokum spurð hvort ástæða sé til bjartsýni í skólamálum. „Já sannarlega. Það er nauðsynlegt að við rífum okkur upp úr neikvæðri umræðu um skólana, forgangsröðum upp á nýtt og virkjum foreldra betur til samstarfs. Mér finnst kennarar tilbúnir í öflugt uppbyggingarstarf sem og við í háskólunum og öðrum menntatengdum stofnunum. Ný ríkisstjórn og forysta í menntamálum hefur gullið tækifæri til að vinna með okkur skólafólkinu. Það kostar að mennta börnin okkar vel en þau eru líka það dýrmætasta sem til er,“ segir Kristín á mjög sannfærandi máta.