Spurn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stefnir ótrauður að eigin sögn í stjórnarandstöðu þar sem hann hefur lengi staðið.
Spurn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stefnir ótrauður að eigin sögn í stjórnarandstöðu þar sem hann hefur lengi staðið. — Morgunblaðið/María Matthíasdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það má alveg kalla þetta þrautalendingu en ég held að þær hafi ályktað sem svo, og réttilega, að Flokkur fólksins væri frekar til í að gefa eftir kosningaloforðin sín en við.“ Þessum orðum fer Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins um…

Spursmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

„Það má alveg kalla þetta þrautalendingu en ég held að þær hafi ályktað sem svo, og réttilega, að Flokkur fólksins væri frekar til í að gefa eftir kosningaloforðin sín en við.“

Þessum orðum fer Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins um nýlega stjórnarmyndun um nýjan meirihluta á Alþingi Íslendinga. Og hann er spurður:

Af hverju áttu þau að draga þá ályktun? Inga Sæland mætti hér til mín og á fleiri staði og ég vil meina að hún hafi verið afdráttarlausari en þú í sínum yfirlýsingum.

Já, hún var það. Fyrir kosningar. En ég held að þær þekki til hennar að nægu leyti til að vita að það sem hún segir sveiflast töluvert milli daga, tala nú ekki um milli missera. Þannig að þær hafa talið að hún myndi þrá það að verða ráðherra, sem var greinilega rétt metið hjá þeim. Og þær þráðu líka að verða ráðherrar, allir þessir flokkar þráðu að komast í ríkisstjórn og stjórnarsáttmálinn eða hvað þetta er nú kallað, stefnuyfirlýsingin, ber þess mjög merki. Að þetta hafi bara átt að klárast, þær hafi þurft að komast til valda og svo myndu menn bara finna út úr þessu í framhaldinu,“ segir Sigmundur Davíð en hann er nýjasti gestur Spursmála. Viðtalið við hann er aðgengilegt á mbl.is og á öllum helstu efnisveitum á borð við Spotify.

Leyst skuli í framtíðinni

Og Sigmundur heldur áfram í viðbrögðum sínum við stjórnarmynduninni:

„Það er margt þarna [í stefnuyfirlýsingunni] sem eru bara yfirlýsingar um að einhver mál skuli leyst í framtíðinni. Og þær sögðu það svo sem í viðtölum líka, að það ætti að finna einhverjar nefndir og einhverja hópa og skoða þetta næstu misserin og komast að niðurstöðu. Og margt er í rauninni kostulegt eins og sú stefna að hafa sanngjörn veiðigjöld, ég held að engin ríkisstjórn leggi til ósanngjörn veiðigjöld að eigin mati. Í upphafinu er boðað að það eigi að ná aukinni velsæld með samstöðu. Já. En samstöðu um hvað?“

Segir hann að það vanti útfærslur á öllum helstu málum. Það komi til dæmis berlega í ljós þegar rætt er um hagræðingu í ríkisrekstrinum þar sem nú hafi verið sett upp leikrit þar sem kallað sé eftir hagræðingartillögum frá almenningi. Bendir Sigmundur Davíð á að mikilvægt sé að fá utanaðkomandi sérfræðinga til þess verks og að þeir hafi fullan aðgang að öllum gögnum sem tiltæk séu. Það sé ekki síst nauðsynlegt þar sem kerfið hafi sterka tilhneigingu til að verja sig og koma í veg fyrir nauðsynlegar breytingar.

Þorgerður spilaði vel úr

Í viðtalinu berst talið að ráðherrakaplinum sem virðist hafa reynst auðvelt að greiða úr. Nefnir Sigmundur Davíð í því sambandi að Þorgerður Katrín hafi fengið öflug ráðuneyti í hendur síns flokks og að það hafi hún gert í skiptum fyrir sjálfan forsætisáðherrastólinn. Þá hafi hún kallað mann, neðarlega af lista Viðreisnar, í fjármálaráðuneytið og margt bendi til þess að hún muni hafa mikið um það að segja hvernig dr. Daði Már Kristófersson muni halda á málefnum þess stóra og öfluga ráðuneytis.

Í viðtalinu ræðir Sigmundur einnig Evrópumálin og segir hann kostulegt að stjórnmálaflokkar hér á landi skuli tala fyrir inngöngu í samband sem sé að liðast í sundur fyrir augunum á heimsbyggðinni.

Fréttastjóri, aðstoðarmaður og uppistandari fóru vítt og breitt yfir sviðið

Klæðaburðurinn fór batnandi
á árinu sem leið

Það er samdóma álit þeirra Mörtu Maríu Winkel og Jakobs Birgissonar að klæðaburður íslenskra stjórnmálamanna hafi farið batnandi á árinu sem leið. Raunar þakkar Jakob það að nokkru leyti því aðhaldi sem Marta María hefur veitt stjórnmálafólki á vettvangi Smartlandsins. Bendir hún í þeirri umræðu á að Björn Skúlason hafi verið á gljáfægðum svörtum skóm á nýársdag, en það skótau var í nokkru ósamræmi við það sem sást á fótum eiginmanns forsetans er hann sótti Élysée-höll í París heim í sumar sem leið.

Þá er ljóst að klæðaburður á Alþingi hefur batnað til muna við brotthvarf Pírata en þar hafa þingmenn gengist upp í því að þramma um á sokkaleistum og fara á svig við flestar siðvenjur sem skapast hafa í þinghelginni.

Í viðtalinu er einnig rætt um klæðaburð Höllu Tómasdóttur sem hún skartaði í nýársávarpi sínu. Marta María hefur kynnt sér hefðir og reglur varðandi íslenska þjóðbúninginn og útlistaði fyrir áhorfendum hvað má og hvað má ekki. Var hún sátt við forsetann á fyrsta degi ársins.

Höf.: Stefán E. Stefánsson