Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Sala áfengis hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins ÁTVR á síðasta ári var 4,2% minni í lítrum talið en á árinu á undan. Er það fjórða árið í röð sem samdráttur er í sölu hjá ÁTVR í lítrum talið á milli ára.
Á nýliðnu ári seldust tæplega 22,7 milljónir lítra af áfengi en á árinu á undan seldust tæplega 23,7 milljónir lítra.
„Langmest er selt af lagerbjór eða um 16,6 milljónir lítra. Hlutfallslega er mestur samdráttur í sölu rauðvíns en salan minnkaði um 7,7% á milli ára,“ segir í frétt á vef Vínbúðarinnar.
Færri viðskiptavinir
Fram kemur að viðskiptavinir ÁTVR voru 5.065.000 á árinu 2024 en til samanburðar voru viðskiptavinirnir 5.248.000 á árinu 2023.
Sala minnkaði í flestum söluflokkum áfengis á síðasta ári frá árinu á undan mælt í seldum lítrum en sala á síder og ávaxtavínum jókst hins vegar um 3,5%.
Sala á hvítvíni minnkaði um 4,1%, sala á ókrydduðu brennivíni og vodka minnkaði um 6,3% og sala á lagerbjór minnkaði um 4% en mest selst af lagerbjór í lítrum talið í öllum söluflokkum áfengis hjá ÁTVR.
7,3% samdráttur varð á sölu á öli og sala á freyðivíni og kampavíni minnkaði um 3,5% frá árinu á undan samkvæmt tölum ÁTVR.
Sala á reyktóbaki jókst um 8%.
Fram kemur í fréttinni á vef Vínbúðanna að sala tóbaks dróst saman í öllum flokkum nema í reyktóbaki, en þar jókst salan um 8% á milli ára.
„Sala neftóbaks er 11% minni og sala á sígarettum, sem er stærsti flokkur tóbakssölunnar, dróst saman um 5% á milli ára,“ segir þar enn fremur.
Söluhæstu vörurnar á síðasta ári voru í lítrum talið bjórtegundirnar Gull Lite, Boli Premium, Víking Gylltur, Egils Gull og Tuborg Grön.