Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Kærleikans Guð gefi ykkur öllum birtu og yl í hjarta til að ganga til móts nýtt ár. Ég bið þess að þið mættuð náðar hans njóta og blessun hljóta.

Sigurbjörn Þorkelsson

Ekkert ár er án vonbrigða og einhvers konar áfalla eða þjáninga. Líkt og ekkert ár er gleðisnautt eða án vonar og hamingjustunda og mögulega bross í gegnum tárin, umvefjandi kærleika og jafnvel bara umlykjandi dýrmætra manneskja, engla og bæna.

Það er og verður alltaf svo sárt að missa og sakna. En það er gott að geta grátið. Því tárin eru dýrmætar daggir. Perlur úr lind minninganna. Minninga sem þú átt og enginn getur afmáð eða frá þér tekið. Tárin mýkja og tárin styrkja. Í þeim speglast fegurð minninganna.

Gráttu, „því að sælir eru sorgbitnir því að þeir munu huggaðir verða,“ sagði Jesús í fjallræðunni frægu forðum. Já, sælir eru þeir sem eiga von á Jesú Krist í hjarta, því að þeir munu lífið erfa og eignast framtíð bjarta.

Ævin er eitt og lífið er annað. Þó samofin, dauðinn skilur að. Þá lýkur ævinni en lífið heldur áfram. Ævin er stundleg og stutt. En lífið er tímalaus eilífð.

Markmið eru sett, áföngum er náð, tímamót verða. Fjallið er klifið, toppnum er náð. Þá koma í ljós nýir toppar, ný markmið, nýir áfangar.

Þrátt fyrir öll tímamót og fjarlæg markmið sem oft virðast eins og lokatakmark, þá heldur lífið áfram.

Þrátt fyrir allt mótlæti, torfærur og brekkur, baráttu og ósigra og jafnvel þótt ævinni ljúki, jafnvel þrátt fyrir sjálfan dauðann, sem er sannkölluð tímamót, þá heldur lífið áfram og ekkert fær það stöðvað.

Kærleikans Guð gefi ykkur öllum birtu og yl í hjarta til að ganga til móts nýtt ár og nýja tíma. Ég bið þess að þið megið náðar hans njóta og blessun hljóta. Í Jesú nafni.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf.: Sigurbjörn Þorkelsson