Allt undir Magnús Carlsen (t.h.) fylgist með Ju Wenjun frá Kína sem varð heimsmeistari kvenna í hraðskák.
Allt undir Magnús Carlsen (t.h.) fylgist með Ju Wenjun frá Kína sem varð heimsmeistari kvenna í hraðskák.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar greinarhöfundur skildi síðast við gallabuxnadramað mikla í New York var Magnús Carlsen á leið út úr heimsmeistaramótinu en það átti eftir að breytast. Fyrrverandi heimsmeistari og nú einn af varaforsetum FIDE, Viswanathan Anand, settist niður…

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Þegar greinarhöfundur skildi síðast við gallabuxnadramað mikla í New York var Magnús Carlsen á leið út úr heimsmeistaramótinu en það átti eftir að breytast. Fyrrverandi heimsmeistari og nú einn af varaforsetum FIDE, Viswanathan Anand, settist niður með Norðmanninum og náði samkomulagi um þátttöku hans í hraðskákkeppninni.

Þessum málalokum var víða tekið fagnandi og ríkasti maður heims, Elon Musk, „tísti“ merku slanguryrði: Magnus is based, þ.e. einstaklingur sem lætur ekki vaða ofan í sig og lætur álit annarra sig engu skipta. Hvað um það. Magnús mætti til leiks í fyrstu umferð hraðskákkeppninnar íklæddur gallabuxum, að vísu mínútu of seinn en vann nú samt. Keppnisfyrirkomulagið var nýtt: átta efstu af 188 keppendum komust í sérstaka útsláttarkeppni. Tíu skákmenn efstir með 9½ vinning af 13, mótsstig látin ráða, og Magnús komst áfram. Helgi Áss Grétarsson hlaut 5 vinninga og hafnaði í 154 sæti.

Í átta manna úrslitum var „gömlum kunningja“, Hans Niemann, fyrst rutt úr vegi, 2½:1½. Síðan lagði Magnús Pólverjann Jan-Krzysztof Duda, 3:0, og vann tvær fyrstu skákirnar gegn Ian Nepomniachtchi í úrslitaeinvíginu. En þá var eins og skákgyðjan „Caissa“ gripi í taumana og setti á svið nýjan gamanleik! Það byrjaði með því að Nepo jafnaði metin, 2:2. Þá tók við bráðabani og þeir tefldu eina, tvær og þrjár hraðskákir sem öllum lauk með jafntefli. Þá stakk Magnús Carlsen upp á „vopnahléi“ svo að þeir mættu báðir verða krýndir heimsmeistarar í hraðskák. Sú hugmynd gekk að vísu þvert á keppnisreglur en forseti FIDE, Arkady Dvorkovich, lagði blessun sína yfir ráðagerðina og taflmennsku var hætt. Svo stigu þeir báðir á stokk, sjálfskipaðir heimsmeistarar í hraðskák.

Jólamótið í Hastings alltaf vinsælt

Og íslenskir skákmenn voru víða að tefla milli jóla og nýárs. Í Hastings voru mættir til leiks Vignir Vatnar Stefánsson, Benedikt Briem og Davíð Kolka. Segja má að Davíð Kolka hafi stolið senunni strax í upphafi er hann skaust í efsta sætið eftir þriðju umferð með glæsilegum sigri:

Hastings 2024-25; 3. umferð:

Davíð Kolka – Svyatoslav Bazakutsa

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. c3 Rf6 3. e5 Rd5 4. Rf3 e6 5. d4 cxd4 6. cxd4 d6 7. Bc4 Be7 8. 0-0 0-0 9. De2 Bd7 10. Rc3 Rxc3 11. bxc3 Bc6 12. Bf4 Dc7 13. Bd3 Rd7 14. Hfe1 g6 15. Rg5 dxe5 16. dxe5 Bf6?!

Betra var 16. … Rc5 17. Bc2 Ba4 o.s.frv.

17. Dg4! Bxg5

Það er ekki gott að missa svartreita biskupinn en 17. … Rxe5 var best, t.d. 18. Dg3 Bxg5 ásamt f7-f6 og staða svarts er í lagi.

18. Dxg5 Hfc8 19. He3!

Þessi hrókur er á leið til h3.

19. … Dd8 20. Dh6 Df8 21. Dh4 Bd5 22. Bh6 Dd8 23. Bg5 Df8 24. Hh3 h5 25. c4 Bc6 26. Df4 b5 27. cxb5 Bb7

28. Hxh5!

Þrumuleikur. Svartur getur ekki leikið 28. … gxh5 vegna 29. Bf6! og mátar.

28. … Hc5 29. Be7!

Annar stórsnjall leikur, 29. … Dxe7 er svarað með 30. Dh6 og mátar.

29. … Dg7 30. Bf6 Rxf6 31. exf6 Df8

32. Bxg6!

Svartur fær engan frið. Þessi leikur gerir endanlega út um taflið.

32. … fxg6 33. f7+ Kg7 34. Dh6+ Kf6 35. Dxf8 Hxf8 36. Hxc5 Hxf7 37. Hac1 Hf8 38. Hc7 Hb8 39. a4 a6 40. H1c5 Bd5 41. f3 axb5 42. Hxb5 Hh8 43. a5 Hh4 44. H7c5 Ha4 45. Hxd5 exd5 46. Hxd5

- og svartur gafst upp.