Hafsteinn Pálsson fæddist í Blönduóshreppi 22. september 1967 en ólst upp á Skagaströnd. Hann lést á heimili sínu Fellsbraut 13 á Skagaströnd, þann 16. desember 2024.
Foreldrar hans voru Páll Helgi Ólafur Þorfinnsson, f. 15. júní 1931, d. 1. september 1993, og Jóna Sigurveig Guðjónsdóttir, f. 5. júlí 1945, d. 5. ágúst 2021.
Hafsteinn á tvö alsystkini. Guðjón Pálsson, f. 10. feb. 1964, hann lést af slysförum 14. desember 1989, og Hugrúnu Lind Pálsdóttur, f. 11. júlí 1973. Hafsteinn á sex eldri hálfsystkini.
Hafsteinn á tvö börn, barnsmóðir hans er Sveinbjörg Dóra Sveinbjörnsdóttir, f. 1960, d. 2006. Börn þeirra eru Guðjón Páll Hafsteinsson fæddur 14. október 1994, dóttir hans er Hrafntinna Marín. Bergrós Helga Hafsteinsdóttir fædd 2. maí 1996, sambýlismaður hennar er Jón Aron Óskarsson, sonur þeirra er Hafsteinn Logi.
Sambýliskona og lífsförunautur Hafsteins er Hafdís Vilhjálmsdóttir fædd 18. mars 1972. Foreldrar hennar eru Vilhjálmur Pálmason, f. 3. ágúst 1949, og Ingibjörg Jóhannesdóttir, f. 19. september 1948. Hafdís á þrjú börn.
Hafsteinn ólst upp á Skagaströnd og gekk í barnaskóla þar. Hann lagði stund á nám í pípulagningum við Iðnskólann í Reykjavík um tíma. Hann gegndi stöðu slökkviliðsstjóra á Skagaströnd yfir nokkurra ára tímabil og starfaði m.a. á Skipasmíðastöð og í Hafnarhúsinu á Skagaströnd. Hafsteinn stundaði sjómennsku um árabil og starfaði síðan sem flutningabílstjóri og við verktöku á vinnuvélum.
Útför hans verður gerð frá Hólaneskirkju á Skagaströnd í dag, 4. janúar 2025, kl. 14.
Elsku Haffi minn. Mér er orða vant. Síðasta erindið í Söknuði segir allt:
Ég gái út um gluggann minn,
hvort gangir þú um hliðið inn.
Mér alltaf sýnist ég sjái þig.
Ég rýni út um rifurnar,
ég reyndar sé þig allstaðar
þá napurt er.
Það næðir hér
og nístir mig.
(Vilhjálmur Vilhjálmsson)
Ég sakna þín. Sjáumst þegar minn tími kemur.
Þín
Hafdís.
Elsku besti afi Haffi minn.
Það var alltaf svo gott að vera með þér.
Við vorum oft að brasa alls konar saman.
Kíkja í hesthúsið, í skemmuna, fara á snjósleða og fjórhjólið.
Okkur fannst gaman að hlæja saman, við vorum oft að grínast, þú og ég.Þú varst alltaf til staðar fyrir mig þegar ég þurfti á þér að halda.
Ég elska þig afi og ég mun alltaf sakna þín.
Þín afastelpa
Hrafntinna Marín Guðjónsdóttir.
Ég kveð í dag æskufélaga frá Skagaströnd, Hafstein Pálsson, eða Haffa Páls eins og hann var ætíð kallaður. Á mínum uppvaxtarárum á Skagaströnd var hann tíður gestur á æskuheimili mínu í Mýrinni og var hann líka ávallt aufúsugestur. Þó svo að Haffi hafi aðallega verið vinur bróður míns var okkur vel til vina og við í sama vinahóp enda ekki langt á milli okkar í aldri eða einungis eitt ár. Það var margt brallað og hlátur ekki langt undan því almennt var hann Haffi alltaf glaður með stutt í hláturinn.
Haffi kom oft til okkar yfir jól og var það virkilega skemmtilegt því þá vorum við mjög oft að spila og skemmta okkur. Eitt af því sem við áttum sameiginlegt var að hafa mikið dálæti á Tinu Turner og enn þann dag í dag dettur mér Haffi í hug þegar ég hlusta á „Simply the best“ með henni. Við gátum setið tímunum saman og horft á tónleika af VHS-spólum með henni án þess að leiðast nokkurn tímann. Mér þótti líka virkilega vænt um það þegar hann kom í heimsókn til mömmu rétt eftir að pabbi minn dó. Við mamma komum um kvöld frá Akureyri daginn eftir að pabbi dó, Haffi var mættur tíu mínútum seinna til þess að kanna hvernig mamma hefði það og hvort hún væri nokkuð ein. Þegar hann fór seinna um kvöldið fullvissaði hann mig um að hann myndi passa upp á hana og að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur, hún yrði aldrei ein. Hann stóð svo sannarlega við það þá mánuði sem hún lifði eftir þetta. Mamma sagði mér nefnilega oft um sumarið að hann hefði komið bara til þess að kanna hvernig væri.
Takk fyrir þína tilveru og þann kærleik sem þú gafst okkur, þó svo að samband okkar hafi ekki verið mikið í seinni tíð fylgdumst við alltaf hvort með öðru og ég hugsaði oft með hlýju til þín og mun gera áfram.
Í þínum anda að ég tel (þú varst oft forn í tali) og til gamans gert kveð ég þig í hinsta sinn og sendi fjölskyldu þinni mínar dýpstu samúðarkveðjur
Vin sínum
skal maður vinur vera,
þeim og þess vin.
En óvinar síns
skyli engi maður
vinar vinur vera.
(Úr Hávamálum)
Kærleikskveðjur,
Guðmunda
Ólafsdóttir.