Pistill
Orri Páll Ormarsson
orri@mbl.is
Fóbíur eru skemmtilegt krydd í tilveruna. Finnst ykkur ekki? Sérstaklega þær sem eru óvenjulegar og jafnvel sérviskulegar og ganga illa upp í hugum okkar hinna sem ekki erum bundin á klafa þeirra.
Ég fór að hugsa um þetta meðan ég var að skrifa grein, sem finna má hér aftar í blaðinu, þar sem bandaríski skapgerðarleikarinn Billy Bob Thornton kemur við sögu, en hann er haldinn þráhyggjuáráttu þar sem ein birtingarmyndin er sú að hann hefur fóbíu og er satt best að segja logandi hræddur við antíkhúsgögn. Nei, ég er ekki að búa þetta til.
Við erum ekki að tala um hvaða antík sem er, en sú antík sem kemur Billy karlinum Bob í mest uppnám er útskornir stólar með flauelspúðum frá tíð Loðvíks XIV. Frakklandskonungs. „Þeir valda mér óhug. Ég get komið auga á eftirlíkingar úr langri fjarlægð. Þeim fylgir annað yfirbragð. Og minna ryk,“ sagði hann einu sinni í samtali við The Independent. Ég ítreka að ég er ekki að búa þetta til.
Fóbía Billys Bobs nær einnig til borðbúnaðar úr silfri. Í návist hans fær hann víst grænar bólur. „Ég nota ekki silfur, þú veist, gömlu, stóreflis gafflana og hnífana, ég bara get það ekki,“ sagði hann í sama viðtali. „Þetta er sama vandamálið og með antíkhúsgögnin. Ég bara get ekki gamla hluti. Þeir kalla yfir mig hroll og ég hef ekki hugmynd um af hverju.“
Það er einmitt það skemmtilega við fyrirbrigðið, fóbíuna, að menn hafa alla jafna ekki hugmynd um hvað veldur henni. Hún er bara þarna og menn kunna oftar en ekki engin ráð til að koma henni burt.
Sitthvað hefur maður heyrt. Einu sinni frétti ég til dæmis af manni sem hafði sjúklega fóbíu gagnvart hurðum og stóð jafnvel heilu og hálfu dagana andspænis þeim án þess að leggja í að fara inn. Sá ágæti maður fagnar ábyggilega auknum tækifærum og umburðarlyndi gagnvart fjarvinnu.
Gúgli maður undarlegar fóbíur kemur margt kostulegt upp. Eins og það sem á engilsaxnesku heitir „arachibutyrophobia“, það er sjúkleg hræðsla við það að hnetusmjör festist við efri góminn á manni. Þetta er víst gamall kvilli sem erfitt ku vera að leggja að baki. Nýrri vandi er „nomophobia“, það er sjúklegur aðskilnaðarkvíði og hræðsla við að vera án farsímans. Sú fóbía ku færast ört í vöxt. Við erum líka að tala um fóbíu gagnvart gulum lit og tölunni 8. Þetta er víst fágætt en getur stafað af ýmsu, svo sem því að eitthvað slæmt hafi gerst þann 8. einhvers mánaðar eða vegna líkinda tölunnar við sjálft eilífðartáknið sem fær víst hárin til að rísa á sumum.
Já, það er ekki öll vitleysan eins.