Ég heillaðist úti í Rishikesh 2018. Mig langaði að fara beint í upprunann og hafði heyrt að Rishikesh væri staðurinn til að fara á,“ segir Íris Dögg Oddsdóttir um upphaf vegferðar sem hófst þegar hún tók jógakennararéttindi á Indlandi. Hún er jógakennari og flugfreyja í hlutastarfi hjá Icelandair en það var einmitt í flugi til New York sem þær Þóra Rós Guðbjartsdóttir hittust og komust að því að þær voru báðar á sömu leið.
Þær hafa nú leitt saman hesta sína og stofnað YogaNúna, fyrir alla, einkum fyrir fólk á hraðferð sem gefur sér ekki tíma til að mæta í jógasalinn og getur í stað þess gert æfingarnar hvar sem er.
„Við finnum báðar að það langar alla að koma í jóga en ná ekkert endilega að taka klukkutíma úr deginum, plús ferðalag til og frá, til að mæta í jógatíma,“ segir Íris. Þóra bætir við að þær vilji að fólk kynnist jóga á „mannamáli“ og að þær vilji kynna jóga fyrir sem flestum, í viðráðanlegum skömmtum.
YogaNúna stefnir á opnun vefsíðu í janúar þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þá er hægt að velja sér prógramm út frá efni og æfingum, eða jafnvel tímalengd, hvort sem það er hugleiðsla, jógaæfingar, öndunaræfingar eða hvað annað.
Jóga er úti um allt
Íris og Þóra segjast nýta sér jógað í daglegu lífi. Báðar eru þær útivinnandi þriggja barna mæður, með marga bolta á lofti. Þóra starfar sem forfallakennari í Laugarnesskóla auk þess að vera flugfreyja í sumarstarfi hjá Icelandair. Báðar starfa einnig sem jógakennarar, Íris hjá GoMove og Mjölni og Þóra hjá Hreyfingu, einnig er hún sjálfstætt starfandi hjá 101yoga.
Jóga er alls konar eins og þær segja og ekki einungis staðbundið. Til að mynda hefur Íris haldið utan um hleðsluhelgar, streitulosandi ferðir út á land fyrir jógaþyrsta einstaklinga.
Þóra hefur að einhverju leyti sett fókusinn á börn og jóga, verið með kynningar í skólum og leikskólum og unnið að gerð ævintýrajógaþátta sem fara í sýningu á næstunni í Ríkissjónvarpinu.
„Jógað gerir mann meðvitaðan um allt það áreiti sem í kringum mann er,“ segir Þóra og nefnir dæmi um heimilislífið og að geta stigið til hliðar, þótt ekki sé nema í tvær mínútur, til að draga andann og endurmeta aðstæður.
Íris samsinnir því og segir gott að geta stundum lokað sig af og náð tengingu við sjálfa sig í krefjandi aðstæðum, en svo sé einnig hægt að yfirfæra æfingarnar á fjölskylduna. „Ég spyr stundum fjögurra ára strákinn minn: hvað segja lungun?“ segir Íris og lýsir því að þá andi þau saman og að vel sé hægt að fá lítil hjörtu til að slá hægar með slíkum æfingum. „Það virkar í svona tvö skipti af tíu, en allavega í þessi tvö og það er bara æðislegt.“
Andlegur jafnt sem líkamlegur ávinningur
Íris kynntist meðgöngujóga þegar hún gekk með fyrsta barn sitt en segist hafa „týnt“ jóganu fljótlega eftir að drengurinn kom í heiminn. Það var svo árið 2012 þegar hún var að kljást við stoðkerfisvandamál og var uppfull af kvíða að hún leitaði aftur í jógað. „Með tímanum fór ég að finna fyrir hvað mér fór að líða miklu betur. Ég fór að anda betur og kvíðanum létti.“ Þegar hún fann jákvæðu áhrifin á andlegu hliðina sá hún enn frekari ástæðu til að stunda jóga. Smám saman hurfu stoðkerfisvandamálin en hún segir þó aðalávinninginn vera andlegu heilsuna.
„Það er þessi friður sem maður finnur, allt hitt er plús.“
Þóra samsinnir því. „Það er þessi meðvitund sem maður öðlast. Dagsdaglega er mikið áreiti og manni býðst að taka þátt í alls kyns félagslífi. Það er svo gott að geta stoppað og jafnvel bakkað og spurt sjálfan sig hvað mann langar virkilega að gera.“
Þóra kynntist jóga – svolítið ómeðvitað – þegar hún lærði listdans í Mexíkó 2007-2011. Þá sótti hún staka tíma í liðleika og öndun, sem voru í raun jógatímar. Henni fannst tímarnir heillandi og hjálpa sér heilmikið við að ná árangri í dansinum.
Síðar fluttist hún til Spánar og fór þá að sækja meira í tíma svipaða þessum sem hún stundaði í Mexíkó. „Og ég komst seinna að því að þetta var jóga.“ Hún segir mikið álag hafa fylgt því að vera dansari og að vera búsett ein erlendis og því hafi sér þótt gott að læra að kjarna sig í gegnum jógað.
Þegar Þóra flutti til baka til Íslands hóf hún jógakennaranám í Yogashala sem hún kláraði 2015. Í kjölfarið hóf hún að starfa sjálfstætt þegar hún stofnaði 101yoga. „Það var öndunin sem ég heillaðist svo af,“ og segir hún öndunin hafi ekki síður hjálpað til á meðgöngunni seinna meir.
Jóga hvar sem er
Á ferð og flugi segjast Íris og Þóra nýta tímann vel þegar þær eru í stoppi og fara í jógatíma í nýju umhverfi. Jóga verður lífsstíll og stöðug ástundun skiptir máli til að halda þessum góða takti út lífið.
„Þegar ég er með andardrættinum þá hægist á öllu og ég ræð betur við það sem kemur inn á borð til mín. Það er þetta samspil hugar, líkama og sálar,“ segir Íris og útskýrir að jóga eins og það er kennt á flestum stöðum hérlendis byggist á æfingum sem auka styrkleika, jafnvægi og liðleika en að allt komi heim og saman við slökunina í enda hvers tíma.
„Svo þegar maður kynnist einhverju svona geggjuðu þá langar mann til að deila því,“ segir Íris og bætir við að það sé frábært að sjá hve mikil meðvitund er orðin um almenna heilsu.
Þóra, sem les mikið og garfar í jógafræðum, segir að mikið af fræðunum gefi mynd af fólki sem hafi þjáðst af heilsukvillum eins og bakvandamálum sem í raun hafi orsakast af bældum tilfinningum og öðrum andlegum erfiðleikum.
„Við erum öll í þessu hamstrahjóli og það er svo mikilvægt að kúpla sig frá annað slagið og bara hlusta á líkamann og heyra í sjálfum sér.“
Vilja auka aðgengi að íslensku efni
Íris og Þóra höfðu vitað hvor af annarri í gegnum tíðina en það var í stoppinu í New York sem þær uppgötvuðu hvað þær eru báðar miklar jógakonur. Í kjölfarið fóru þær að tengjast meira og viðra hugmyndir sín á milli um hvernig þær gætu sameinað krafta sína og hvað það væri sem markaðurinn hérlendis þarfnaðist mest í dag.
Þær sáu fljótt að best væri að hugsa jógað út frá því að hægt væri að stunda það með öllu öðru í daglega lífinu. Þær langaði að koma jóganu til fólks og minnka pressuna á að mæta þyrfti á ákveðinn stað, á ákveðnum tíma, til að stunda jóga.
„Það er fullt af fólki sem vill hægja á lífinu en kann það ekki, veit ekki hvernig það á að byrja eða hefur ekki tíma í það,“ segir Þóra.
Vefsíða YogaNúna, yoganuna.is, verður opnuð í janúar og þann mánuð verður aðgangur að efni síðunnar ókeypis. Þar verður hægt að finna stutta tíma svo hægt sé að prófa sig áfram, jóga fyrir byrjendur. Í boði verður einnig jóga fyrir endurheimt, lengri myndskeið og æfingar.
Að auki stefna þær á viðburði eins og pop-up-tíma, þar sem hægt verður að mæta, hitta þær og gera jóga í góðum félagsskap.
„Aðalmálið er að auka aðgengi að íslensku efni. Það er til fullt af erlendu efni en okkur langar til að vera með eitthvað íslenskt,“ segir Íris. Og bætir Þóra við að þær séu ekki að reyna að koma í staðinn fyrir eitthvað annað heldur frekar sem viðbót. „Við viljum koma með jóga inn í líf fólks,“ segir hún að lokum.