Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur er ritstjóri tímarits um ljóðlist og óðfræði. Tímaritið nefnist Són, kemur út einu sinni á ári og 22. hefti kom nýlega út.
Tímaritið á sér nokkuð langa sögu. „Það var til þess stofnað af nokkrum hugsjónamönnum í Háskóla Íslands fyrir tuttugu og tveimur árum, í þeim hópi voru meðal annarra Þórður Helgason og Kristján Eiríksson. Til að byrja með fjallaði það aðallega um eldri skáldskap, bragarhætti og fornan kveðskap en smám saman hefur verið farið að fjalla um nýrri ljóðlist,“ segir Soffía Auður.
Ýmsir hafa sinnt ritstjórn í gegnum árin en Soffía Auður hefur gegnt starfi ritstjóra í tvö ár. „Mitt markmið sem ritstjóri er að reyna að auka umfjöllun um nútíma- og samtímaljóðlist. Þáttur í því er að birta marga ítarlega ritdóma um nýlegar ljóðabækur og bækur um ljóðlist. Við birtum líka áður óbirt ljóð, ljóðaþýðingar og greinar um ljóðlist, gamla og nýja. Við höfum líka birt óbirt efni upp úr handritum. Öflugar konur eins og bókmenntafræðingarnir Þórunn Sigurðardóttir, Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík og Guðrún Ingólfsdóttir og fleiri hafa verið að rannsaka handrit og það efni hefur verið kynnt í tímaritinu.“
Í nýju hefti tímaritsins eru 23 ritdómar um nýjar ljóðabækur og þrír ítarlegir dómar um nýleg skáldskaparrit. Anton Helgi Jónsson rýnir í bókina Söngur ljóðstafanna eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson fjallar um Fararefni: greinasafn um ljóðlist Þorsteins frá Hamri og Soffía Auður skrifar um bók Þórðar Helgasonar Alþýðuskáldin. Saga um átök.
Meðal annars efnis má nefna grein Auðar Aðalsteinsdóttur um tvær ljóðabækur Hauks Ingvarssonar og grein eftir Katelin Marit Parsons þar sem hún skrifar um gamanrímur eftir Vestur-Íslendinginn Tobías Tobíasson.
Þórður Helgason kynnir tríolettuna og rekur hvernig hún birtist í íslenskum kveðskap. „Jónas Hallgrímsson kom með tríolettuna inn í íslenska ljóðlist með Dalvísu og sá bragarháttur hefur síðan lifað í íslenskum kveðskap,“ segir Soffía Auður. „Nýjasta dæmið sem Þórður tekur í grein sinni er eftir séra Davíð Þór Jónsson. Blessuð sértu sveitin mín er eitt af þeim ljóðum sem eru ort í þessum bragarhætti en Davíð Þór yrkir Blessuð sértu borgin mín …
Unnur Bjarnadóttir kynnir í tímaritinu japönsku hættina hækur og tönkur. Hún er japönskumælandi og kennir japönsku í Háskóla Íslands. Svo er grein eftir Þorgeir Sigurðsson um elstu sálmaþýðinguna á íslensku sem er líka eina dróttkvæða ljóðaþýðingin á íslensku, þetta er sálmurinn Veni Creator Spiritus.“
Ótalmargt fleira áhugavert er að finna í tímaritinu. Einu tekjur tímaritsins eru áskriftartekjur. „Við þurfum að fjölga áskrifendum, fá unga fólkið með okkur í að viðhalda þessu og auka veg tímaritsins,“ segir Soffía Auður.
Þeir sem áhuga hafa á að gerast áskrifendur geta haft samband við Soffíu Auði í gegnum netfang hennar soffiab@hi.is.
Kápumynd tímaritsins er eftir Þórunni Valdimarsdóttur. „Í fyrra skreytti forsíðuna mynd eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Mörg skáld fást við myndlist og því er gaman að myndskreyta forsíðuna með verkum eftir þau,“ segir Soffía Auður.
Tímaritið er til sölu í Eymundsson, Bóksölu stúdenta og bókabúðinni Skáldu á Vesturgötu.