Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að hann hefði stöðvað fyrirhugaða sölu á bandaríska stálframleiðandanum US Steel til japanska fyrirtækisins Nippon Steel.
„Þessi yfirtaka myndi færa einn stærsta stálframleiðanda Bandaríkjanna í erlenda eigu og ógna þjóðaröryggi okkar og nauðsynlegri framleiðslukeðju,“ sagði Biden í yfirlýsingu.
Hann bætti við að stálframleiðsla og starfsmenn stáliðjuveranna væru hryggjarstykki bandarísku þjóðarinnar.
Harðar deilur hafa verið í Bandaríkjunum um þessi fyrirhuguðu kaup, en verðmiðinn á bandaríska fyrirtækinu var 14,9 milljarðar dala, nærri 2.100 milljarðar króna. Biden hefur gagnrýnt söluna síðustu mánuði, en hann hefur í forsetatíð sinni lagt áherslu á að endurreisa bandarísk framleiðslufyrirtæki.
Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseti og JD Vance verðandi varaforseti hafa einnig gagnrýnt þessi viðskipti.
Nippon Steel hefur hins vegar sagt að yfirtakan muni bjarga bandaríska fyrirtækinu, sem sé á brauðfótum. Andstæðingar sölunnar hafa varað við því að japanska fyrirtækið muni fækka störfum, en Nippon Steel hét því að engar uppsagnir eða lokanir verksmiðja myndu koma til framkvæmda fyrr en gildandi kjarasamningar renna út í september 2026.
Hart var deilt um málið fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember síðastliðnum, en höfuðstöðvar US Steel eru í Pennsylvaníu, sem var eitt mikilvægasta sveifluríkið í kosningunum.
Málinu var vísað til Bidens eftir að opinberri nefnd mistókst í desember að komast að niðurstöðu um hvort yfirtakan ógnaði þjóðaröryggi Bandaríkjanna.