— Morgunblaðið/Árni Sæberg
En ekki síst var í þessari lotu eftirminnilegast samtal við Ásgeir Ásgeirsson, sem nýlega hafði látið af sínu háa embætti. Stefán Jónsson sendi strák þangað til að taka viðtal við forsetann fyrrverandi, sem þá var tiltölulega nýfluttur úr embættisbústaðnum á Bessastöðum og inn í myndarlegt hús sitt við Oddagötu, en það svæði var og er gjarnan tengt Háskóla Íslands.

Tíminn líður ógnarhratt. Bréfritari náði sér í bók í skápnum og á daginn kom að sú varð bók Tómasar Guðmundssonar „Við sundin blá“, sem kom út í Reykjavík í apríl 1925, fyrir nærri réttri öld. Útgefendur eru sagðir vera: „Nokkrir stúdentar.“ Sérstaklega er tekið fram að upplag bókarinnar hafi verið 600 eintök. Bókin, sem geymdi 20 ljóð á sínum 40 síðum, var ekki bundin rækilega inn en þó að henni hafi verið flett oft og iðulega hefur hún sem betur fer haldið vel sínu, enda notið verðskuldaðrar virðingar. Bréfritari hefur löngum haft dálæti á þeim ljóðum sem þarna eru geymd en stendur sig þó iðulega að því að geta ekki með góðu móti gert upp á milli ljóða skáldsins góða, enda myndi mat viðkomandi af því tagi skipta litlu eða næstum engu fyrir allan fjöldann sem er fullfær um að ákvarða slíkt og þvílíkt hjálparlaust fyrir sig. Öðru máli gegnir um bækur sem lúta allt öðrum lögmálum en ljóðabækurnar, sem iðulega eru viðkvæmar, og hver maður hlýtur að nálgast öðru vísi og af meiri varfærni en þær. Þannig er með Ofvitann hans Þórbergs Þórðarsonar, fyrra og síðara bindi, sem Þórbergur hafði gefið „Dúju“, föðursystur bréfritara og góðri vinkonu þeirra hjóna, en þær bækur komu út árin 1940 og 1941. Þórbergur hafði eins og mörg önnur skáld iðulega þann vana að láta þekktar vísur, og stundum alþekktar eftir hann sjálfan, fylgja bókagjöf sinni, úr eigin penna, og hélt þeim vana við Dúju. Síðar átti það fyrir bréfritara að liggja að taka viðtöl, meðal annars við Þórberg Þórðarson í íbúð hans á Hringbraut og hins vegar við Halldór K. Laxness í íbúð hans í Fálkagötu 17, en bréfritari var þá heimamaður í sömu blokk, með herbergi að Fálkagötu 19, hjá móður sinni og stjúpa.

Viðtalið við Þórberg var tekið fyrir áskorun félaga úr hópi nemenda í MR en viðtalið við Halldór Laxness var tekið vegna þriggja þátta, í tilefni af 40 ára afmæli Ríkisútvarpsins, sem áður hefur verið getið fyrr og um eftirminnilegt samstarf við hinn fræknasta á meðal útvarpsmanna, Stefán Jónsson. Hann var verkstjóri þessa verkefnis og bréfritari eins konar hlaupastrákur, en náði þó að taka viðtöl við allmarga eftirtektarverða menn, og suma ógleymanlega, eins og Halldór, og Brynjólf Bjarnason, fyrrum
menntamálaráðherra, sem einnig var mjög eftirminnilegur, eins og áður hefur verið getið um í Reykjavíkurbréfi.

Samtalið við Ásgeir forseta

En ekki síst var í þessari lotu eftirminnilegast samtal við Ásgeir Ásgeirsson, sem nýlega hafði látið af sínu háa embætti. Stefán Jónsson sendi strák þangað til að taka viðtal við forsetann fyrrverandi, sem þá var tiltölulega nýfluttur úr embættisbústaðnum á Bessastöðum og inn í myndarlegt hús sitt við Oddagötu, en það svæði var og er gjarnan tengt Háskóla Íslands. Og stutt var að hlaupa þangað frá Fálkagötu, þótt gamla segulbandstækið hafi verið æði þungt á þessum tíma.

Var viðtalið við Ásgeir Ásgeirsson sérlega eftirminnilegt og skráði hlaupastrákur viðtalið strax niður um leið og komið var á ný í litla herbergið á Fálkagötu 19. Hafði bréfritara sérstaklega verið falið af Stefáni að fá sem mest upp úr Ásgeiri um „Kleppsmálið“ þar sem aðalleikararnir höfðu verið þeir Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, og Jónas Jónsson dómsmálaráðherra frá Hriflu. Fór Ásgeir rækilega yfir það mál en frábað sér að segulbandstækið væri látið ganga á meðan á þeirri frásögn stóð. En fótgönguliði Stefáns taldi sig hafa skráð, heim kominn á ný, allt það mikilvægasta úr frásögn forsetans fyrrverandi. Hann hafði sett þá reglu að „útvarpsmaðurinn“ yrði að fara rækilega yfir það sem eftir honum yrði haft, sem svo sannarlega var gert, en eftir að það var um garð gengið lagði Ásgeir forseti blátt bann við birtingu á nánast öllu sem kom fram í frásögn minni, og haft var eftir forsetanum, því að það væri allt æði viðkvæmt og þyldi alls ekki neina birtingu fyrr en eftir ár og öld. Mat „útvarpsmannsins“ var því það að ef hann leyfði sér að nefna veðrið á þeim árum þegar fyrrnefndir atburðir áttu sér helst stað væri ljóst að hver komma og hver punktur sem nefndur hafði verið væri þegar kominn langt fram úr birtingarhæfu efni. Ásgeir forseti kvaddi svo elskulega og bætti því við að hann hefði svo sannarlega haft gaman af því að ræða þetta mikla mál í þaula, og það þótt óhjákvæmilegt væri að ótækt væri að nefna viðkvæmustu þætti þessara sögulegu atburða, og „við höfðum verið sammála um öll þau atriði!“ Daginn eftir, á tilteknum tíma, var „útvarpsmaðurinn“ mættur til Stefáns Jónssonar og rakti málatilbúnaðinn. Stefán tók þessu öllu vel en þó leyndi sér ekki, en þó ósagt, að hinum þekkta veiðimanni þótti augljóst og blasa við að aðstoðarmaðurinn hefði mætt til baka „með öngulinn í rassinum“.

Svo ótrúlegt sem það er

Með ólíkindum er að einstaklingur með bandarískan ríkisborgararétt, sem hefur að auki þjónað í áratugi óaðfinnanlega í bandaríska hernum nær eða fjær, láti skyndilega til skara skríða og láti bifreið sína „vaða“ inn í hóp manna, yngri sem eldri, sem eru að fagna nýju ári, svo að fjöldinn allur týnir lífi eða er stórkostlega særður, svo að óljóst er um það með öllu hvort, eða miklu fremur hve, margir muni liggja í valnum, eftir árásina á samborgara sína. Maður sem á sér þessa löngu sögu virðist skyndilega taka sér stöðu með erlendum hryðjuverkasamtökum, gegn löndum sínum, og án þess að nokkurt sjáanlegt hafi gerst sem gæti réttlætt annað eins athæfi og þetta.

Í sömu mund er Tesla-bifreið ekið upp að hóteli,
sem er eign Donalds Trump og ber nafn hans. Ökumaðurinn, sem virðist vera einn á ferð, sprengir svo bifreið sína og sjálfan sig í loft upp, svo að viðkomandi þekkist ekki í kjölfarið, enn sem komið er. Alríkislögreglan FBI virtist tilkynna í byrjun málsins, eftir að sú lögreglusveit, samkvæmt heimildum sínum, hafði tekið málið til sín, að hún teldi að allt benti til að um hryðjuverk væri að tefla og fleiri menn hefðu átt þátt í því en talið var í fyrstu. En nú hefur FBI dregið þetta mat sitt til baka og telur nú langlíklegast að tveir menn, hvor fyrir sig, hafi verið einir að verki. Hver svo sem endanleg niðurstaða verður er dapurlegt að horfa upp á þessi ósköp öll, eins og í beinni útsendingu.

Þegar þetta er skrifað eru 17 dagar þar til Donald
Trump og Vance varaforseti hans verða settir í embætti, en oftast eru það forseti Hæstaréttar eða aðrir dómarar við réttinn sem stjórna innsetningu hins nýja forseta og varaforseta við þinghúsið í Washington. Það flækir aðeins málið að Jimmy Carter fyrrverandi forseti lést fyrir skömmu rúmlega 100 ára gamall og tilkynnti Joe Biden, sem enn gegnir forsetaembættinu, að hin opinbera jarðarför færi fram hinn 9. janúar næstkomandi og eru þá tæpar tvær vikur þar til forsetaefnið og varaforsetaefnið skulu taka við sínum embættum.