Leikstjóri Coralie Fargeat, leikstjóri The Substance, er ein þeirra kvenna sem slógu í gegn á árinu.
Leikstjóri Coralie Fargeat, leikstjóri The Substance, er ein þeirra kvenna sem slógu í gegn á árinu. — AFP/Alain Jocard
Aðeins 16% leikstjóra 250 tekjuhæstu kvikmynda í Banda­ríkjunum árið 2024 voru konur. Þetta segir í nýrri skýrslu Miðstöðvar rannsókna sem tengjast konum í sjónvarpi og kvikmyndum við San Diego State University í Bandaríkjunum

Aðeins 16% leikstjóra 250 tekjuhæstu kvikmynda í Banda­ríkjunum árið 2024 voru konur. Þetta segir í nýrri skýrslu Miðstöðvar rannsókna sem tengjast konum í sjónvarpi og kvikmyndum við San Diego State University í Bandaríkjunum. Þar kemur fram að konur séu samtals aðeins 23% af leikstjórum, handritshöfundum, framleiðendum, klippurum og tökumönnum þessara 250 mynda.

Verkefni undir yfirskriftinni The Celluloid Ceiling, sem útleggja mætti sem Kvikmynda­þakið, hefur verið í gangi í 27 ár. Þar hafa störf kvenna bak við tjöldin í kvikmyndabransa Bandaríkjanna verið vandlega skráð. Ef horft er aftur til ársins 1998 hefur hlutur kvenna aðeins vaxið um sex prósentustig, eða úr 17% í 23%.

Hæst hlutfall kvenna er meðal framleiðenda (e. producers), alls 27% prósent. Kvenkyns aðalframleiðendur (e. executive producers) voru hins vegar 22%, klipparar voru 20%, handritshöfundar 20%, leikstjórar 16% eins og áður sagði og tökumenn 12%. Þá skoðuðu rannsakendur einnig hlutfall kventónskálda í þessum 250 myndum. Aðeins 9% voru konur.

Í skýrslunni eru sömu tölur einnig teknar saman fyrir 100 tekjuhæstu myndirnar. Þar voru konur aðeins ráðnar í 11% af þessum störfum. Um 70% kvikmynda á árinu 2024 höfðu 10 eða fleiri karla í þessum lykilhlutverkum bak við tjöldin en aðeins 8% kvikmynda voru með 10 eða fleiri konur við störf. Þess er getið að þær kvikmyndir sem hafa að minnsta kosti einn kvenkyns leikstjóra hafi haft mun fleiri konur við störf bak við tjöldin.