Þrenna Isabelle Lewis er samstarfsvettvangur þriggja ólíkra tónlistarmanna.
Þrenna Isabelle Lewis er samstarfsvettvangur þriggja ólíkra tónlistarmanna. — Ljósmynd/Anna Maggý
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stundum dettum við í níðþunga „industrial“-kafla, því næst í píanódrifna, afar melódíska söngkafla og loks í organdi fiðlusóló. „Moonhell“ er voldugt, afdráttarlaust, epískt. „O Solitude“ ægifagurt.

TÓNLIST

Arnar Eggert Thoroddsen

arnareggert@arnareggert.is

Það er Bedroom Community, hið framsækna merki sem Valgeir stofnsetti fyrir margt löngu ásamt fleirum, sem gefur út. Valgeir semur og upptökustýrir, Benjamin syngur með kontratenórröddu og Elisabeth leikur á fiðlu og var Greetings frumflutt í nútímatónlistarhöllinni Ancienne Belgique í Brussel 23. október síðastliðinn.

Isabelle Lewis er skálduð manneskja þar sem listræn sýn þríeykisins mætist í einum skurðpunkti. Ópera, klassík og raftónlist hjálpast að við að mynda einn kraftmikinn seyð og ég segi ykkur það strax; þetta virkar (er með plötuna á „blasti“ akkúrat núna).

Benjamin Abel Meirhaeghe kontratenór er einnig listrænn stjórnandi nútímaópera sem hafa með róttæka sviðsframsetningu að gera. Starf hans þar hefur verið tilraunakennt þar sem gömlu og nýju er blandað saman. „Ég vil koma á samtali, ekki brenna til grunna,“ lét hann hafa eftir sér um það. Elisabeth Klinck er fiðluleikari, tónskáld og flytjandi frá Brussel og er með bakgrunn í klassískri tónlist, spuna og leikhúsi. Valgeir þarf svo vart að kynna en ég geri það samt. Hann er listrænn stjórnandi Bedroom Community og eigi einhamur er kemur að tónlistarsýsli, hann semur, stýrir, spilar og framleiðir og tónlist hans stendur ýmist ein eða fylgir kvikmyndum, leikhúsi, innsetningum, ilmóperum og fleiru.

Já, ég er hrifinn af plötunni. Þessi samsláttur ekki bara virkar heldur er hann áhrifaríkur líka. Tónlistin nær manni, hrífur mann, þetta er ekki bara æfing í því hvort og hvernig hægt er að komast upp með að blanda saman ólíkum heimum. Merkimiðinn síðklassík, „post classical“, hefur verið notaður grimmt undanfarin ár án þess þó að festast almennilega. Skilgreiningin er engu að síður ágæt; líkt og síðpönk hafði að gera með tilraunir og það að hugsa út fyrir rammann hefur síðklassíkin gengið út á að blanda klassískum minnum saman við raftónlist, „ambient“ og tilraunatónlist. Tilgangurinn er að knýja fram hrífandi andrúm – sama hvernig það er svo flokkað.

Klassísk fiðlan, sprúðlandi rafhljóðin og tónandi óperuröddin fara með okkur í svona heim. „Voicemail“ byrjar hefðbundið ef ég má orða það svo, fiðla og píanósláttur og ókennileg mannsrödd á bak við. Benjamin opnar „Mother, Shelter Me“ með tónandi rödd og hann minnir mig dálítið á Arnór Dan úr hinni eðlu sveit Agent Fresco. Fiðla fer og af stað og skruðningsbundin áleitin rafhljóð einnig. Þríeind að verki. Stemningin á Greetings á það til að vera dumbungsleg, óttaleg, og ég hugsa um Scott Walker í seinni tíð. Tilt og The Drift. Benjamin minnir líka á Perfume Genius, nálgunin, tilfinningin, holningin, taktarnir (ég kíkti á youtube. Í stiklu sjást hann og Elisabeth dansa saman. Stórkostlegt!).

Þannig þokast verkið áfram. Stundum dettum við í níðþunga „industrial“-kafla, því næst í píanódrifna, afar melódíska söngkafla og loks í organdi fiðlusóló. „Moonhell“ er voldugt, afdráttarlaust, epískt. „O Solitude“ ægifagurt.

Já, þetta tókst og það giftusamlega. Ég heyri svo mikið af möguleikum, ég er spenntur fyrir meiru. Nú er ég búinn að greina þetta í döðlur, eins og mér er ætlað, en ég segi ykkur þetta líka: Þetta er bara góð tónlist. Í raun er það ekki mikið flóknara en það.

Höf.: Arnar Eggert Thoroddsen