Billy Bob Thornton á rauða dreglinum á frumsýningu Landman.
Billy Bob Thornton á rauða dreglinum á frumsýningu Landman. — AFP/Unique Nicole
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hann veit aldrei hvenær deginum kemur til með að ljúka, nú eða hvenær hann kemur til með að byrja. Það er í óhemju mörg horn að líta hjá manni sem hefur umsjón með risastóru olíuvinnslusvæði í Texas og óvæntar uppákomur geta beðið hans á hvaða tíma sólarhringsins sem er

Hann veit aldrei hvenær deginum kemur til með að ljúka, nú eða hvenær hann kemur til með að byrja. Það er í óhemju mörg horn að líta hjá manni sem hefur umsjón með risastóru olíuvinnslusvæði í Texas og óvæntar uppákomur geta beðið hans á hvaða tíma sólarhringsins sem er. „Landman“ er starfsheitið á ensku, eigum við að kalla hann jarðtengil? Hann er trúnaðarmaður og fulltrúi eiganda olíufyrirtækisins sem rekur starfsemina og ber að sjá til þess að allt gangi hnökralaust fyrir sig. En það er hægara sagt en gert, þegar verkalýðurinn er baldinn, búnaðurinn að einhverju leyti úr sér genginn og glæpagengi á hverju strái á svæðinu. Og þegar jarðtengillinn okkar er ekki í vinnunni er hann að glíma við sína eigin fjölskyldu sem gæti svo sannarlega látið betur að stjórn.

Bandaríski myndaflokkurinn Landman, sem finna má í Sjónvarpi Símans Premium, er með betra leiknu efni sem boðið er upp á í sjónvarpi um þessar mundir. Hann er runninn undan rifjum Taylors Sheridans, sem einnig ber ábyrgð á hinum geysivinsæla þríleik Yellowstone, 1883 og 1923. Mikill kúreki í þeim gaur, greinilega. Landman byggist á hlaðvarpsþættinum Boomtown, þar sem áhersla er lögð á líf og störf fólksins við borholurnar en ekki vélabrögð og hanastélsboð fínu milljarðamæringanna sem reka sjoppuna, eins og við fengum svo vel að kynnast á sinni tíð í sápu allra sápa, Dallas.

Kannski þarf að fara alla leið aftur til ársins 1956 til að finna leikið efni í sama anda en aðalleikarinn í Landman, Billy Bob Thornton, hefur einmitt líkt myndaflokknum við hina ódauðlegu kvikmynd George Stevens, Giant. „Þetta er eins og Giant með blótsyrðum,“ sagði hann í samtali við Texas Standard en eins og menn muna var hvorki til siðs að bölva né ragna í bíómyndum fyrir 70 árum. Muniði hver voru í forgrunni í Giant eða Risanum? Jú, Elizabeth Taylor, Rock Hudson og James Dean, sem legið hafði í gröf sinni í heilt ár þegar myndin var frumsýnd.

Já, blótsyrðin streyma fram eins og jökulfljót í leysingum í Landman. Persóna Thorntons, Tommy Norris, þarf að vera fastur fyrir, heima og úti á akrinum. Hann hefur bæði átt mikla peninga og tapað miklum peningum en hefur fundið köllun sína sem jarðtengill – enda þótt starfsgleðin leki ekki beinlínis af honum. En einhver þarf að ganga í verkin. Og gera það vel. Og menn þurfa að búa að jafnaðargeði þegar þeim er ljóst að dagur sem byrjar kannski með fuglasöng og glampandi sólskini getur endað með því að reimaður er á menn hauspoki í afskekktri skemmu úti á víðavangi og afsagaðri haglabyssu beint að þeim.

Ekki er róðurinn mikið léttari heima fyrir. Eiginkonan tápmikla (Ali Larter) sem Tommy bjó lengi með og veit að eykur bara á erfiðleika hans er snúin aftur enda orðin leið á auðkýfingnum sem hún nældi sér í til að gera Tommy afbrýðisaman. Hafi einhvern tíma verið til óhemja …

Raunar eru þau skólabókardæmi um par sem hvorki getur verið saman né heldur í sundur.

Unglingsdóttirin (Michelle Randolph) er klón af mömmunni og eru þær mæðgur í fullri vinnu við að brýna á sér bossann, það er að segja þegar þær eru ekki að rífa kjaft. „Guð sé oss næstur,“ segir aumingja Tommy reglulega og ranghvolfir augunum. En til að gæta allrar sanngirni gefa mæðgurnar sig líka að góðgerðarmálum og dóttirin vitaskuld að strákum og býr þar að segulvirkni. Tommy þarf oftar en ekki að setja vonbiðlunum lífsreglurnar. „Þú munt ekki stunda kynlíf með dóttur minni í kvöld. Það eru ekki skilaboð frá mér, heldur beint frá Guði almáttugum!“

Þess má geta að sá sem var á hinum endanum við þær upplýsingar hafði aldrei heyrt orðið skírlífi og hefði ekki getað stafað það, jafnvel þótt lífið sjálf væri í húfi.

Byggt upp frá grunni

Sonurinn (Jacob Lofland) stendur fyrir veseni af allt öðrum toga. Hann hefur menntað sig vel en kýs eigi að síður að starfa á olíuakrinum, án þess að kunna nokkuð til verka, enda hefur hann metnað til að eignast og reka sitt eigið olíufyrirtæki einn daginn og vill hefja þá vegferð frá grunni. Svo týna menn lífi og örlögin haga því þannig að hann vingast við unga mexíkóska ekkju (Paulina Chavez), sem á ungbarn, rétt eftir að maðurinn hennar sprakk í loft upp fyrir framan hann. Hvernig á Tommy af bregðast við því? Og ekki einfaldar það málið þegar sonurinn fer að hafa afskipti af bótatilboði fyrirtækisins til handa ekkjunni og fjölskyldum tveggja annarra verkamanna sem fórust í sprengingunni.

Er nema von að forstjórinn (Jon Hamm) fá sitt fjórða (eða var það fimmta?) hjartaáfall í þeim samskiptum öllum. Þeir Tommy hafa unnið lengi saman og þekkst ennþá lengur og það hlýtur að hrikta í stoðum. Eiginkona forstjórans (Demi Moore, sem raunar er notuð mjög sparlega í þáttunum) slær þá skjaldborg um sinn mann á spítalanum og segir Tommy að hoppa upp í óæðri endann á sér enda þótt þeim sé vel til vina.

Ekki má heldur gleyma eldklárum lögmanni fyrirtækisins (Kayla Wallace) sem svífst einskis til að ná fram sínum markmiðum.

Það er sem ég segi. Aumingja Tommy veit aldrei hvenær deginum kemur til með að ljúka, nú eða hvenær hann kemur til með að byrja. Og allra síst hvað mun koma upp á þess á milli.

Smeykur við antíkhúsgögn

Billy Bob Thornton verður sjötugur á árinu sem var að byrja. Hann hefur lengi notið lýðhylli en við þekkjum hann úr myndum á borð við Sling Blade, A Simple Plan og Monster’s Ball.

Thornton er um margt óvenjulegur maður. Hann er til að mynda haldinn þráhyggjuáráttu sem hann hefur margrætt um í viðtölum. Ein birtingarmyndin er sú að hann hefur fóbíu gagnvart antíkhúsgögnum. „Ég er ekki með fóbíu gagnvart bandarískri antík, aðallega franskri – þið vitið þessum stóru, gömlu, útskornu stólum með flauelspúðum frá tímum Loðvíks XIV. Þeir valda mér óhug. Ég get komið auga á eftirlíkingar úr langri fjarlægð. Þeim fylgir annað yfirbragð. Og minna ryk,“ sagði hann einu sinni í samtali við The Independent.