Varðveitt Sunna Ástþórsdóttir safnstjóri Nýló við heimildasafn safnsins um gjörninga og listamannarekin rými.
Varðveitt Sunna Ástþórsdóttir safnstjóri Nýló við heimildasafn safnsins um gjörninga og listamannarekin rými. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýlistasafnið (Nýló) fagnar 47 ára afmæli um helgina og efnir til veislu í safninu í kvöld. Fáir vita hversu ævintýraleg safneign Nýló er en hún telur um 3.500 verk og er sérstök fyrir þær sakir að hún byggist alfarið á gjöfum

Myndlist

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Nýlistasafnið (Nýló) fagnar 47 ára afmæli um helgina og efnir til veislu í safninu í kvöld. Fáir vita hversu ævintýraleg safneign Nýló er en hún telur um 3.500 verk og er sérstök fyrir þær sakir að hún byggist alfarið á gjöfum. Blaðamaður Morgunblaðsins fékk að kíkja í geymslur Nýló og heyra í leiðinni um komandi starfsár safnsins.

„Safneignin er einstök fyrir margar sakir. Bæði er það upprunasaga Nýló, en safnið var stofnað af hópi listamanna sem fannst opinber söfn ekki vera að sinna skyldu sinni nægilega vel þegar kom að því að safna listaverkum eftir samtímalistamenn. Safnið var því stofnað til þess að safna þessum verkum sem hefðu annars glatast eða fallið í gleymsku og það hefur fylgt Nýló í gegnum tíðina að safna verkum sem önnur söfn eru ekki að safna,“ segir Sunna Ástþórsdóttir safnstjóri Nýló.

Tómarúm hefði myndast

„Annað sem er sérstakt við safneignina er að hún er gjafasafneign sem gerir það að verkum að við söfnum á annan hátt en söfn sem eru til að mynda með innkaupanefndir. Við erum með lífrænni og breiðari söfnun. Mjög mörg verk í okkar safneign eru lykilverk í íslenskri samtímalistasögu, en ef safnið hefði ekki verið tilbúið til að taka við þeim hefðu þessu verk ekki varðveist, og þá hefði sannarlega myndast tómarúm í íslenskri samtímalistasögu. Í hvert sinn sem við tökum verk inn í safneign metum við hvort við getum ekki örugglega hlúð nógu vel að verkinu. Það er stórt ábyrgðarhlutverk að taka við verki því að með því erum við í raun að segjast ætla að varðveita það um ókominn tíma.

Safneignin sem heild gefur einnig góða mynd af viðfangsefni listamannanna á hverjum tíma. Þetta er ekki „kanóníseruð“ leið til þess að safna heldur er þetta leið til þess að varðveita breiddina og fjölbreytileikann. Það finnast auðvitað hallar (biases) í safneign Nýló eins og annars staðar, en við vinnum sífellt að því að leiðrétta þá eða vinna gegn þeim. Það er hægt að orða það þannig að ef safneignir annarra safna spanna ævisögur ákveðinna listamanna, efnisnotkun eða hreyfingar í myndlist, þá varðveitir Nýló sjálfsævisögur listamanna. Því það eru listamennirnir sjálfir sem gefa verkin og ákveða þar með hvaða verk eru varðveitt. Þetta er því sjálfsævisöguleg safneign.“

Ráðgátur leynast í safneign

Sunna segir safnið oft hafa staðið frammi fyrir ýmsum ráðgátum þegar kemur að safneigninni.

„Það hefur gerst að fundist hafa skráð verk í safneign sem við höfum svo verið í vafa um að væru raunveruleg verk eða að verk finnast einfaldlega ekki á þeim stað í safngeymslu sem þau eru skráð á. Oftast verða þessar ráðgátur til í krafti ytri aðstæðna en safnið hefur til að mynda þurft að flytja mjög oft sem er aldrei gott fyrir safneign. Þá erum við nú að vinna að því að bæta við svokölluðu „arkívi horfinna verka“ þar sem við skoðum þessar ráðgátur betur og reynum að leysa úr þeim,“ segir Sunna sem rifjar jafnframt upp eftirminnilegt atvik þegar ein ráðgáta leystist með óvæntum hætti.

„Eitt sinn á listahátíðinni Sequences buðu sýningarstjórarnir börnum í Fellaskóla að stýra sýningu og velja verk úr safneigninni. Þau völdu með hjartanu verk sem höfðuðu til þeirra og eitt verkanna sem varð fyrir valinu var ómerkt, hvorki með titil né höfund. Svo mætir Pétur Magnússon listamaður á opnunina og bendir á verkið hissa og segir: „Nei, þetta verk! Þetta er verkið mitt.“ Þetta var verk frá námsárum hans, og nú eftir þessa sýningu gátum við einmitt lokið við skráningu á verkinu.“

Mikið af vídeóverkum

„Áskoranir eru ýmsar í svona listamannarekinni starfsemi eins og Nýlistasafnið er, rekstrarumhverfið er viðkvæmt, mikill skortur er á fjármagni og mönnunin er eftir því. Einnig háir plássleysið okkur því við varðveitum fjölbreytt verk af öllum stærðum og gerðum. En mér finnst mikilvægt að taka fram að hugsjónin og eljan sem aðstandendur safnsins hafa lagt til safnsins og til íslenskrar myndlistar í gegnum tíðina er ómetanleg. Við fáum fjárstuðning frá ríki og borg fyrir grunnstarfseminni. Reykjavíkurborg jók við sinn stuðning í fyrra og í gær skrifuðum við undir nýjan samning við ríkið um hækkun. En allar sýningar og verkefni Nýló eru algjörlega háð því hvort við hljótum verkefnastyrki eða ekki.

Meðal verkefna sem við vonumst til að geta unnið að í safneign er til að mynda forvarsla á málverkum og teikningum sem hafa verið upprúlluð of lengi. Þetta er mikilvægt því þá verður hægt að sýna þau verk sem mörg hver hafa verið óaðgengileg lengi en slík vinna er hluti af því að gera safneignina sýnilegri á sama tíma og við bætum aðstæður verkanna. Eins erum við að vinna í því að leita leiða til þess að fjármagna stafvæðingu vídeóverka okkar en við erum með í varðveislu hjá kvikmyndasafninu mikið magn af myndbandsspólum og vídeóverkum sem þurfa að komast á stafrænt form. Það yrði til mikils að vinna hvað varðar íslenska vídeólistasögu og aðgengi að verkum og frumgögnum, en þarna leynist heilmikil vitneskja sem varpar ljósi á þessa földu sögu.“

Snúið að safna gjörningum

En hvernig fer safn að því að varðveita gjörninga?

„Það er snúið að safna gjörningum því í eðli sínu snúast þeir um augnablik sem hverfa. Við höfum því einbeitt okkur að því að safna heimildum um gjörninga sem gerir það að verkum að oft verða heimildirnar ný verk í sjálfum sér. Listamenn ákveða sjálfir á hvaða formi þeir varðveita þessar heimildir, eins og til dæmis í formi vídeós, hljóðs, ljósmynda eða áþreifanlegra leifa eftir gjörning. Þetta er skemmtilegt því stundum er óljóst hvenær gjörningnum lýkur og heimildin tekur við. Taka má sem dæmi heimild um verkið Tuggur eftir Örn Alexander Ámundason. Safnið varðveitir innsiglað bréf með einhvers konar heimild um gjörninginn en listamaðurinn hefur sett þá kvöð að einungis starfandi safneignarfulltrúi Nýló má hlusta á upptökuna eða lesa bréfið og svo lýsa fyrir öðrum verkinu. Þetta er týpískt fyrir Örn Alexander því það er mikill húmor í verkum hans á sama tíma og hann beinir oft athyglinni að földum og kerfisbundnum valdastrúktúrum. Þarna er hann því nánast að búa til nýjan gjörning sem lýkur aldrei, á sama tíma og hann er að gera heimild um liðinn gjörning.“

Veitum listamönnum frelsi

Sunna segir margt spennandi í farvatninu á nýju ári en safnið heldur árlega sex sýningar.

„Við hefjum starfsárið í kvöld á rosalegu afmælis- og áramótapartíi Nýló sem er um leið fjáröflun fyrir safnið. Fyrsta sýning safnsins verður svo opnuð 18. janúar þar sem Claudia Hausfeld sýnir ný verk sérstaklega unnin inn í rými Nýló. Svo tekur við safneignarsýning þar sem við sýnum nokkur af þeim verkum sem okkur hafa borist á síðustu árum.

Í vor verður svo útskriftarsýning meistaranema við Listaháskóla Íslands og í sumar höldum við sýningu í samstarfi við Safnasafnið á Svalbarðseyri sem fagnar 30 ára afmæli í ár. Þá má einnig geta þess að haustsýning Nýló verður í höndum Melanie Ubaldo og Dýrfinnu Benita sem valin var úr opnu umsóknarferli. Almennt leggur safnið áherslu á að reyna að vera með sýningar sem myndu ekki eiga sér stað annars staðar. Við reynum að forðast málamiðlanir og leitumst við að veita listamönnum frelsi til þess að koma hvaða hugmyndum sem þeir kunna að hafa í verk.“

Höf.: María Margrét Jóhannsdóttir