HM 2025
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
„Standið á leikmannahópnum er ágætt,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu íslenska liðsins í Víkinni í Fossvogi í gær.
Formlegur undirbúningur fyrir heimsmeistaramótið í Króatíu, Danmörku og Noregi hófst á dögunum, en Ísland leikur í G-riðli keppninnar í Zagreb í Króatíu ásamt Slóveníu, Kúbu og Grænhöfðaeyjum.
Íslenska liðið heldur af landi brott í næstu viku og mætir Svíþjóð í tveimur vináttulandsleikjum í aðdraganda HM, í Kristianstad þann 9. janúar og í Malmö þann 11. janúar. Fyrsti leikur Íslands á HM er svo gegn Grænhöfðaeyjum þann 16. janúar.
„Ómar Ingi Magnússon verður ekki með eins og áður hefur komið fram og þeir Aron Pálmarsson og Elvar Örn Jónsson eru að glíma við smávægileg meiðsli. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því á þessum tímapunkti og við höfum gert ákveðnar varúðarráðstafanir gagnvart þeim. Þetta er ekkert sem truflar undirbúninginn fyrir mótið sjálft og við vinnum bara í öðrum hlutum á meðan,“ sagði landsliðsþjálfarinn.
Eru meiðsli Arons og Elvars samt eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af?
„Það er alltaf verra þegar menn geta ekki tekið þátt í æfingum liðsins, það segir sig sjálft. Mótið hjá þeim er ekki í neinni hættu enn sem komið er, sem er jákvætt. Þeir þurfa að koma sér út á gólfið og láta sér líða vel en ég reikna með því að þeir verði báðir klárir í fyrsta leik á HM.“
Snorri Steinn er á leið á sitt annað stórmót sem þjálfari liðsins, en hann tók við því í júní árið 2023.
Tilfinningin alltaf sú sama
„Tilfinningin fyrir þessum stórmótum er alltaf sú sama. Það er spenna, óvissa og allur pakkinn sem fylgir þessu. Það er stutt í mót þannig séð og ekki margar æfingar eftir en samt finnst manni alltaf einhvern veginn svo langt í að mótið sjálft byrji. Við tökum einn dag í einu, erum rólegir og mætum tilbúnir til leiks þann 16. janúar.“
Hvernig ætlar landsliðsþjálfarinn að haga þessum síðustu dögum undirbúningsins?
„Það er ekkert eitt sem ég ætla að leggja einhverja ofuráherslu á. Það þarf allt að vera í lagi en sem þjálfari eru alltaf ákveðnir hlutir sem þú þarft að velja og hafna. Þú nærð aldrei að fara yfir allt sem þú vilt fara yfir fyrir þessi stærstu mót, tíminn er bara það knappur.
Ég reikna með því að við munum aðeins æfa yfirtöluna og svo mögulega sjö á sex, hluti sem er gott að eiga í pokahorninu. Heilt yfir er ég að reyna að komast yfir sem mest með strákunum og fjarvera Ómars Inga spilar klárlega inn í undirbúninginn. Við þurfum að laga okkur að því og þurfum líka að laga leik okkar að styrkleikum hvers og eins, til dæmis Þorsteins Leó Gunnarssonar, sem er tiltölulega nýkominn inn í þetta og á leið á sitt fyrsta stórmót. Heilt yfir snýst þetta um að finna taktinn í því sem við erum að gera, vörn, sókn og hraðaupphlaup, og reyna að fínstilla það.“
Hver eru markmið íslenska liðsins fyrir komandi heimsmeistaramót?
„Við fórum vel yfir markmið liðsins í gær og við erum allir sammála um að það er gott fyrir okkur sem lið að einbeita okkur að fáum hlutum í einu. Í dag snýst þetta um að vinna riðilinn og ég held að það sé hollt fyrir okkur að pæla ekki of mikið í framhaldinu. Auðvitað erum við með okkar vonir og drauma og þeir hverfa ekkert si svona.
Lykilbreyta í því að ná einhverjum árangri er að gera hlutina vel og ef þú vinnur riðilinn þá þarftu ekki að vera neitt svakalega góður í stærðfræði til þess að átta þig á næsta markmiði. Til þess að byrja með snýst þetta um fyrstu þrjá leiki mótsins og svo tökum við stöðuna á stigasöfnuninni og taktinum í liðinu,“ sagði Snorri Steinn í samtali við Morgunblaðið.