Sigurður Kári Kristjánsson
Við sem trúum á frelsið, berjumst fyrir frjálsum viðskiptum og trúum því að ákvörðunarvald um eigin velmegun og málefni sé betur komið í höndum einstaklinganna sjálfra en í höndum stjórnmálamanna höfum hingað til flest fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum. Ástæðan er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur síðustu áratugi verið helsti málsvari frelsisins í víðtækum skilningi.
Í aðdraganda og í kjölfar nýliðinna alþingiskosninga hafa ýmsir aðrir með einum hætti eða öðrum lagt áherslu á frelsið og mikilvægi þess.
Það gerði Miðflokkurinn að hluta til við uppröðun á framboðslista fyrir kosningar, en ekki síður Viðreisn.
Sá flokkur lagði sig verulega fram í aðdraganda kosninganna við að afla sér fylgis hjá frelsis- og hægrisinnuðum kjósendum með því að tala fyrir frelsinu og gegn því að sjálfsaflafé fólks yrði skert með aukinni skattheimtu. Við áramót ítrekaði formaður Viðreisnar þessa áherslur með því að skrifa áramótaávarp í Morgunblaðið undir fyrirsögninni „Frelsið er ekki sjálfgefið“.
Viðreisn og frelsið
Áherslur Viðreisnar á frelsið þurfa ekki að koma á óvart. Núverandi formaður Viðreisnar var áður varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Og helsti hugmyndafræðingur og guðfaðir Viðreisnar, Þorsteinn Pálsson, var áður formaður Sjálfstæðisflokksins.
Það er því kannski ekkert skrýtið að stjórnmálafólk með slíkar rætur reyni að nýta sér það besta úr stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og sjálfstæðisstefnunni til þess að afla nýja flokknum sínum fylgis úr röðum þeirra sem með réttu ættu frekar að styðja Sjálfstæðisflokkinn en aðra flokka.
Þegar betur er að gáð blasir hins vegar við að ást Viðreisnar á frelsinu er ekki einlæg, því sá flokkur var beinlínis stofnaður á grundvelli helsta stefnumáls hans um að berjast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í því baráttumáli felst krafa um að Íslendingar verði sviptir fullveldi sínu og frelsi og settir undir yfirþjóðlegt vald Evrópusambandsins.
Frelsishugsjónin sem býr að baki slíku baráttumáli er ekki sannfærandi.
Sjálfstæðisflokkurinn og frelsið
Fyrir okkur sem viljum berjast fyrir frjálsu samfélagi er í sjálfu sér jákvætt að fleiri stjórnmálaflokkar en Sjálfstæðisflokkurinn leggi áherslu á frelsið og mikilvægi þess í okkar samfélagi.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki einkaleyfi á frelsinu frekar en aðrir þótt flokkurinn hafi verið helsti merkisberi þess um áratuga skeið.
Sjálfstæðismenn mega hins vegar ekki láta öðrum stjórnmálaflokkum það eftir að eigna sér helsta baráttumál flokksins og þá hugsjón sem sjálfstæðisfólk hefur sameinast um í tæpa öld. Sjálfstæðisflokkurinn má heldur ekki láta þá á sama tíma komast upp með það að mála þá mynd upp af flokknum að hann sé fyrst og fremst afturhaldssamur íhaldsflokkur en ekki flokkur frelsis og takmarkaðra ríkisafskipta.
Tækifæri sem þarf að grípa
Nú þegar mynduð hefur verið samsteypustjórn flokka frá miðju og til vinstri fá kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gullið tækifæri til þess að sýna hvað í þeim býr. Þeir fá tækifæri til að sanna fyrir kjósendum að Sjálfstæðisflokkurinn sé enn öflugasti málsvarinn fyrir frelsi í okkar samfélagi og öflugri en aðrir flokkar í þeim efnum.
Grípi sjálfstæðismenn það tækifæri er ekki ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn muni njóta þess í næstu sveitarstjórnarkosningum.
Höfundur er hæstaréttarlögmaður.