Rúmlega fimmtugur karlmaður hefur verið dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir stórfellda og sérstaklega hættulega líkamsárás í Hafnarfirði í apríl árið 2021. Gekk maðurinn m.a. það harkalega fram gegn fórnarlambi sínu að sá var orðinn meðvitundarlaus eða meðvitundarlítill.
Réðst maðurinn að hinum með því að slá hann að minnsta kosti tvisvar sinnum hnefahöggi í höfuðið, en við það féll sá sem fyrir árásinni varð í bæði skiptin í gólfið.
Árásarmaðurinn þrýsti því næst hönd sinni á hnakka mannsins þar sem hann lá á maganum á gólfinu. Eftir að sá sem fyrir árásinni varð komst á fætur kastaði árásarmaðurinn stól í hann og hóf að lemja manninn með stólfæti í bæði höfuð og búk. Þegar hann var orðinn meðvitundarlaus eða meðvitundarlítill dró árásarmaðurinn hann fram á stigapall og svo niður á bifreiðastæði fyrir utan húsnæðið þar sem árásin átti sér stað.
Árásarmaðurinn játaði árásina, en afleiðingar hennar voru meðal annars að sá sem fyrir árásinni varð missti tönn og nokkrar aðrar losnuðu og duttu úr nokkru síðar eða voru fjarlægðar. Þá hlaut hann margvíslega áverka víða um líkamann, blæðingar í báðum augum, miklar bólgur á höfði og bjúg í sjónhimnu, auk sjónskerðingar og sjóntruflana á báðum augum.