Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, fv. forseti Skáksambandsins og margfaldur Íslandsmeistari kvenna í skák, heldur opið erindi í dag kl. 14 í sal Taflfélags Reykjavíkur í Faxafeni 12.
Guðfríður Lilja ætlar að fjalla um jákvæðar leiðir til að takast á við lífið á nýju ári, eins og það er orðað í fréttatilkynningu. Hún mun meðal annars vísa í lögmál skáklistarinnar á þeirri vegferð að tileinka sér betra líf. Allir eru velkomnir og heitt á könnunni á meðan húsrúm leyfir.
Guðfríður Lilja hefur ekki haldið erindi hérlendis í meira en 13 ár þar sem hún er búsett í Frakklandi og gegnir þar yfirmannsstöðu í mannréttindamálum hjá Evrópuráðinu í Strasbourg.
Tileinkað tengdó
„Erindið hefur ekkert með vinnuna mína að gera heldur bara áhuga minn á lífinu, sigrum þess og ósigrum, mannlegum þroska, listum og skák. Ég og bræður mínir allir ólumst upp við skákæfingar í Taflfélagi Reykjavíkur á laugardögum klukkan tvö og í þetta sinn verður laugardagsæfingin um lífið og tilveruna með skáklegu ívafi,“ segir Guðfríður Lilja sem tileinkar erindið tengdamóður sinni, Sveindísi Þórisdóttur, sem nýlega varð áttræð. „Hún kemur mér alltaf til að hlæja og vera þakklát fyrir góðar stundir.“
Meðal bræðra hennar eru Andri Áss og Helgi Áss Grétarssynir en Helgi er núverandi Íslandsmeistari í skák og hraðskák og tefldi nýverið á heimsmeistaramótinu í at- og hraðskák í New York í Bandaríkjunum.