Sveinbjörn Kristjánsson fæddist 19. mars 1951. Hann lést 13. desember 2024.

Útför fór fram 2. janúar 2025.

Elsku besti pabbi.

Svo skrýtið að þú sért farinn, lífið heldur áfram sinn vanagang en eins og þú sagðir alltaf: Það er tvennt vitað með vissu, maður fæðist í þennan heim og deyr.

Það var svo mikið öryggi að vita að maður gat ávallt hringt í þig og heimsótt ef eitthvert vandamál kom upp á, alltaf svo traustur og hjartahlýr og með lausnir á öllu mögulegu sama hvað. Ég hef oft leitt hugann að því að ef þú hefðir gengið lengra menntaveginn værir þú yfirverkfræðingur hjá NASA, því hugvit þitt jafnt sem verkvit var einstakt.

Þú mættir öllum verkefnum af skynsemi og stóískri ró, eiginleiki sem mig vantar oft á tíðum, því ég var ósjaldan að missa mig yfir því ef hlutirnir voru ekki að ganga upp og það strax, en alltaf gat maður hlegið að því og í senn verið agndofa þegar þú varst búinn að redda málunum á svipstundu. Ekki má gleyma öllum þeim stundum sem þú hjálpaðir mér með stærðfræðina úr menntaskóla, talandi um þolinmæði.

Þolinmæði þín og æðruleysi er nokkuð sem skrifa ætti um í sögubækurnar, og það kom svo sannarlega í ljós í kjölfar veikinda þinna, en það sýnir hversu magnaður karakter þú ert og hefur alltaf verið.

Ég á eftir að sakna golfhringjanna okkar, bíl- og gönguferðanna út á Gróttu, eða þegar þú varst að galdra fram einhverja rétta þinna í eldhúsinu og rabbað var um daginn og veginn, maður lærði handtökin í eldhúsinu þökk sé þér. Ekki má gleyma þegar við vorum að dræva út í Álftafjörðinn, ófáar golfkúlurnar sem liggja þar á hafsbotninum.

Ég var heldur betur heppin í pabbalotteríinu og ég vona að þú sért að slá nokkrar holur í höggi rétt eins og þú gerðir á 11. brautinni á GR hér fyrr um árið og njóta þín.

Heppin dóttir er ég vegna allra þessara dásamlegu minninga sem ég bý að, og fyrir það er ég ævinlega þakklát.

Elska þig.

Þín dóttir

Kristbjörg.

Ólíkt hafast mennirnir að og ólíkt skilja þeir við eftir sína jarðvist. Sveinbjörn Kristjánsson, tengdafaðir minn, var einn þeirra sem skilja eftir sig stórt skarð, bæði hjá fjölskyldu og samferðarmönnum. Sveinbjörn var sonur hjónanna Guðbjargar Guðrúnar Jakobsdóttur frá Skarði á Snæfjallaströnd og Kristjáns Sveinbjörnssonar frá Uppsölum í Seyðisfirði vestra, en þau bjuggu lengst af á Litla Bæ í Súðavík og komu níu börnum til manns.

Sveinbjörn kvæntist ungur Sesselju Gíslunni Ingjaldsdóttur hárgreiðslumeistara og eignuðust þau þrjár dætur, Sveinbjörgu, Guðbjörgu og Kristbjörgu. Sveinbjörn fetaði snemma í fótspor föður síns og nam vélvirkjun, en við þá iðn starfaði hann þar til hann flutti ásamt fjölskyldu sinni frá Ísafirði til Reykjavíkur. Eftir að til borgarinnar kom tóku við ný verkefni, en þau hjónin fengust meðal annars við verzlunarrekstur í Hamraborg í Kópavogi.

Líkt og systkini hans bjó Sveinbjörn yfir miklum mannkostum. Hann var hjartahlýr, þolinmóður og örlátur fjölskyldumaður sem lét sig hag dætra sinna og barnabarna ætíð varða og var fjölskyldu sinni mikil fyrirmynd. Sveinbjörn var einstaklega iðinn og ætíð reiðubúinn að rétta þeim sem til hans leituðu hjálparhönd. Mest gaf hann þó eiginkonu, dætrum og barnabörnum sem fengu að njóta óendanlegrar uppsprettu ástríkis og kærleiks. Sveinbjörn var nákvæmur og leit svo á að tækju menn verkefnin á annað borð að sér bæri að leysa eins vel úr þeim og framast væri unnt enda væri maður þá öðrum til eftirbreytni. Sveinbjörn var orðvar og minnist ég þess ekki að hafa heyrt hann halla orði á nokkurn mann. Við ævilok taldi hann sig ekki eiga óuppgert við neinn.

Sveinbjörn hafði létta lund, sem auðveldaði honum án efa síðustu ævidagana þegar hann tókst á við erfið veikindi af æðruleysi. Með þessum fátæklegu orðum votta ég Sesselju og fjölskyldunni samúð mína, en hún hefur á aðdáunarverðan hátt staðið eins og klettur við hlið Sveinbjörns í gegnum erfið veikindi.

Gizur Bergsteinsson.

Fimm ára strákhnokki laumast í símann hjá móður inn, slær inn símanúmerið hjá afa og biður hann að sækja sig og áður en lagt er á er afi kominn að sækja strákinn sinn. Hjá afa og ömmu í Safamýrinni var best að vera, þar áttum við afi ófáar gæðastundir. Mér hlýnar um hjartarætur í dagsins amstri að hugsa til afa og þess sem hann gaf mér, hversu mjög hann hvatti mig, hafði trú á mér, gaf mér góð heilræði og styrkti mig í öllum verkefnum mínum.

Leiddu mína litlu hendi,

ljúfi Jesús þér ég sendi

bæn frá mínu brjósti sjáðu,

blíði Jesús að mér gáðu.

Takk fyrir allt elsku afi þangað til við hittumst aftur.

Þinn afastrákur,

Eyjólfur Örn.

Elsku besti afi minn, orð fá því ekki lýst hvað ég er þakklát fyrir að hafa átt þig sem afa. Afi var gull af manni sem var alltaf til staðar. Ég man ekki eftir einu skólaleikriti þar sem hann var ekki mættur. Minningar streyma um hugann, eins og þegar þú kenndir mér að hjóla og settir óléttuband mömmu utan um mig og hljópst með mér fram og til baka á götunni, svo duttum við bæði og ég fór að hágráta, en fékk svo samviskubit að vera grátandi þar sem ég hafði ekki fengið skrámu en þú varst blóðugur í lófunum. Önnur var þegar ég var í MR-útilegu á Flúðum og tókst að læsa lyklana inni í bílnum. Sá fyrsti sem ég hringdi í var auðvitað afi og hann lét mig ekki bíða heldur brunaði á Flúðir og hjálpaðir mér að opna bílinn. Föstudagsmorgnar í skólasöng í Ísaksskóla eru mér minnisstæðir þar sem þú mættir alltaf að hlusta á mig, mér fannst þú vera sá eini sem raunverulega hlustaðir á mig og heyrðir mig syngja.

Það var sama hversu mikið afi vann og var hann eflaust oft þreyttur þegar hann kom heim og heimilið hans fullt af barnabörnum, en hann bar aldrei fyrir sig þreytu heldur gaf okkur barnabörnunum rausnarlega af tíma sínum, kærleik og hjartahlýju. Afi vissi líka svörin við öllu, sama hvort það var að leysa stærðfræðidæmi, smíða hús eða sauma kjóla, hann kunni allt!

Ég vil þakka elsku afa fyrir öll sumrin okkar saman í Súðavíkinni hans, þar sem við stóðum á bryggjunni að dorga. Þakka þér fyrir að hjálpa mér að smíða alls kyns dót í bílskúrnum á Litlabæ. Þakka þér fyrir snjóhúsin sem þú byggðir fyrir okkur og takk fyrir að ala mig upp í þeirri trú að ég geti allt sem ég vil og mér séu allir vegir færir. Þakka þér fyrir að trúa á mig. Ég veit að þú ert á betri stað núna elsku afi minn og ég veit líka að þú munt passa okkur og leiða Kötlu Katrínu í gegnum lífið.

Þín

Stefanía Þórhildur.

Sveinbjörn var alltaf Súðvíkingur í hjarta sínu og elskaði þorpið, fjörðinn og fjöllin. Honum fannst fallegasti tíminn í Súðavík vera að vori og einstök tilfinning að hlusta á æðarblikann á þessum tíma árs.

Sveinbjörn tókst á við veikindi sín af hugrekki og æðruleysi, með vissu um upprisu og endurfund. Hann kvartaði aldrei.

Við systur erum óendanlega þakklátar fyrir samverustundirnar sem við áttum með honum, eftir að ljóst var orðið að hverju stefndi, og getum seint fullþakkað þær.

Sveinbjörn var góður stóri bróðir og var verndarengill okkar þegar Sammi og Halli voru að hrekkja okkur, þó svo að hrekkirnir hafi nú ekki verið alvarlegir. Hann sagði okkur að það hefði verið puð að draga tvíburakerruna frá götunni og upp brekkuna að Litlabæ. Þá var gott að vera á þeim tíma þegar pabbi var að koma heim í hádegismat.

Hann var þriðji í röð átta Kristjánsbarna og hann fékk nafnið Sveinbjörn eins og afi. Hann og afi áttu margt sameiginlegt, og báðir eru þeir í þeim eftirsótta hópi að vera „besti afi í heimi“.

Hann var í mörgu líkur pabba, rólegur, yfirvegaður, handlaginn og stundum þögull. Hann var þolinmóður, sem kannski verður ekki sagt um okkur hin systkinin. Bóngóður var hann, en oft kom nú samt „bíddu aðeins“, enda lá honum ekki eins mikið á og okkur hinum, en lét verkin þó tala.

Honum þótti óendanlega vænt um mömmu og bar mikla virðingu fyrir þessari „litlu/stóru“ og sterku konu með stóra hjartað og hlýja faðminn. Hann var dætrum sínum það sem mamma var honum.

Hann kunni vel til verka og allt lék í höndunum á honum, sumir sögðu að það kæmi úr Uppsalaættinni. Hann bakaði, eldaði og saumaði. Sagan um hrærivélina var nýlega rifjuð upp. Hrærivélin hennar mömmu fór ekki í gang einn daginn og ekki var hægt að vera án hrærivélar á svona stóru heimili. Hann gafst ekki upp, skoðaði og spekúleraði og svo kom góða fréttin: „Mamma, ég er búinn að gera við hrærivélina! Það verður bara hægt að hafa eina hraðastillingu en þetta ætti að duga.“ Hrærivélin var síðan í notkun í mörg ár.

Besta kakan var jólakaka með rúsínum, sem mamma bakaði sérstaklega fyrir hann, því við hin vildum ekki hafa rúsínur. Því gat hann setið rólegur í eldhúsinu með mömmu, með kökuna út af fyrir sig, meðan þau mamma spjölluðu.

Sveinbjörn elskaði dætur sínar og barnabörn og var óendanlega stoltur af þeim. Hann var styrkur þeirra, stoð og fyrirmynd. Hann skammaði aldrei, en ræddi frekar málin og leiðbeindi.

Fjölskyldu- og vinabönd sem hafa verið vel ofin rofna ekki svo auðveldlega. Bjargirnar þrjár munu halda utan um fjölskylduna og rækta frændfólk sitt. Við hlökkum til samverustunda í Súðavík. Í sumar förum við í minningargöngu út í Fót.

Morguninn eftir komu konurnar

til þess að gráta við gröfina.

Og sjá þær fundu gul blóm

sem höfðu sprungið út um nóttina.

Vorið var komið

þrátt fyrir allt.

(Vilborg Dagbjartsdóttir)

Elsku Lella, Sveina, Gugga, Krissa og fjölskyldur, innilegustu samúðarkveðjur. Guð gefi ykkur styrk og æðruleysi og blessi ykkur minningarnar.

Ásdís og Svandís.