Áramótabálköstur logar glatt á Breiðinni upp af Rifi á Snæfellsnesi.
Áramótabálköstur logar glatt á Breiðinni upp af Rifi á Snæfellsnesi. — Morgunblaðið/Karítas
Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi áréttaði að Ísland væri ekki umsóknarríki að sambandinu. Ákvæði í nýjum stjórnarsáttmála um þjóðaratkvæðagreiðslu „um framhald viðræðna um aðild Íslands […] eigi síðar en árið 2027“ virðist…

28.12. – 3.1.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi áréttaði að Ísland væri ekki umsóknarríki að sambandinu. Ákvæði í nýjum stjórnarsáttmála um þjóðaratkvæðagreiðslu „um framhald viðræðna um aðild Íslands […] eigi síðar en árið 2027“ virðist því á misskilningi byggt.

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagðist enn vera þeirrar skoðunar að í frumvarpi um bókun 35 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið fælist stjórnarskrárbrot. Hann ætlar samt að styðja það, hvað sem drengskaparheiti við stjórnarskrána líður.

Krónutöluskattar hækkuðu um 2,5% um áramótin, en þjónustugjöld hinnar fátæku Reykjavíkurborgar um 3,5%.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í viðtali að aldurhnignir feður væru viðsjárverðari til undaneldis en eldri mæður, stökkbreytingar í erfðaefni þeirra væru mun algengari.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði flokkinn hafa unnið varnarsigur í kosningunum, hann hafi einn stjórnarflokka bætt við sig í kosningabaráttunni.

Mikið álag var á Landspítalanum, en ýmsar veirupestir hafa herjað á landsmenn. Um 40 voru í einangrun vegna öndunarfærasýkinga.

Björgunarsveitir, íþróttafélög og aðrir seljendur flugelda tóku púðrið fram og mokuðu tundrinu út. Næstum í sama mæli og fiskbúðir seldu af sjávarfangi eftir kjötveislur jólanna.

Ólafur Ólafsson, kaupfélagsstjóri á Hvolsvelli, dó 100 ára gamall.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, nýbakaður menntamálaráðherra sem jafnframt er kennari, segir læsisvanda barna blasa við, þó „kraftaverk“ séu unnin á hverjum degi í skólastofum landsins. Hún telur brýnt að bæta kjör kennara, segir endurskoðun samræmds námsmats hugsanlegt, en ósennilegt að samræmd próf verði endurvakin.

Garðabær hefur hins vegar misst þolinmæðina gagnvart tómlæti ríkisvaldsins í barnamenntun og rannsakar nú námsárangur í hinum átta grunnskólum bæjarins. Samræmd próf kunna að vera tekin upp í bænum í framhaldinu.

Áramótin heilluðu fleiri en heimamenn, en gistirými í höfuðborginni mátti heita uppselt.

Sjaldgæf veðurblíða í vetrarríkinu varð til þess að skíðasvæði troðfylltust.

Úti fyrir Blönduósi vomaði hins vegar borgarísjaki.

Gísli Örn Lárusson athafnamaður dó 76 ára.

Margir Breiðhyltingar eru foxillir vegna ákvörðunar Reykjavíkurborgar um að leyfa byggingu á vöruskemmum í bakgarðinum við íbúðarhús og skipuleggja undirskriftaherferð. Borgaryfirvöld eru hins vegar að hugsa næsta leik. Nú eða óleik.

Blíðviðrið entist ekki og gekk á með byljum og kófi, en allar snjóskóflur og skeflar á fullu.

Óðum er að komast mynd á nýjan meðferðarkjarna Landspítalans, en útlitið er einhvers staðar á milli flugstöðvar og öryggisfangelsis. Þess var vel gætt að þetta 64 milljarða króna minnismerki um slæman smekk feli gamla Landspítalahúsið eftir Guðjón Samúelsson.

Karlmaður á fimmtugsaldri réðst á þrjá með hnífi á Kjalarnesi á nýársnótt, særði einn þeirra lífshættulega og hina tvo alvarlega. Hann og tveir aðrir voru handteknir.

Maður fór í Reykjavíkurhöfn í bíl sínum en kafarar náðu að bjarga honum meðvitundarlausum úr flakinu. Hann liggur þungt haldinn í sjúkrahúsi.

María Kristjánsdóttir, leikhús- og bókmenntafræðingur, dó áttræð.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra flutti sitt fyrsta ávarp til þjóðarinnar á gamlársdag, en Halla Tómasdóttir sitt fyrsta nýársávarp daginn eftir, en um leið flutti Guðrún Karls- og Helgudóttir biskup sína fyrstu nýárspredikun í Dómkirkjunni.

Á gamlársdag flutti Stefán Eiríksson útvarpsstjóri einnig ávarp til þjóðar sinnar, sem vakti helst athygli fyrir að hann er ekki kona.

Í áramótaávarpinu boðaði forsætisráðherra meðal annars samráð við þjóðina um hagsýni í ríkisrekstri, en eyjarskeggjum var leyft að leggja fram sparnaðartillögur í samráðsgátt stjórnvalda.

Ekki stóð á því að landsmenn yrðu við áskorun forsætisráðherra og hafa tillögur streymt inn, ófáar um að Ríkisútvarpinu verði lokað, stofnanir sameinaðar og sparnað í æðstu stjórn ríkisins. Einn spurði þó hvort Kristrún hefði ekki sagst hafa plan.

Fjórtán voru kvaddir til Bessastaða þar sem Halla Tómasdóttir forseti sæmdi þá fálkaorðunni.

Það var eins og marga grunaði, að liðið ár reyndist með köldustu árum, en leita þurfti aftur til ársins 1998 til þess að finna annað eins. Veðurguðirnir eru augljóslega að atast í okkur fyrir að berjast gegn stiknun jarðar með áföstum töppum og sorpflokkun.

Gylfi Pálsson, skólastjóri, þýðandi og þulur, dó 91 árs.

Nokkurrar frosthörku gætti á landinu, jafnvel svo að hafnir lagði, meira til skrauts en skaða þó.

Þriðjungur fanga, sem afplána dóma í fangelsum landsins, eru útlendingar. 700 manns bíða þess utan múranna að komast inn. Met var sett í gæsluvarðhaldsúrskurðum í fyrra en af 298 gæsluvarðhaldsföngum voru 70% útlendingar.

Gefin var út ákæra á hendur liðlega fertugum manni, sem gefið er að sök að hafa drepið hjón á áttræðisaldri í Neskaupstað liðið sumar.

Titringurinn sem Inga Sæland kvartaði undan í Pulsugerðinni, hinu nýja skrifstofuhúsi Alþingis, reyndist ótrúlegt en satt ekki vera vegna hönnunargalla, heldur eru rafmagnsstrætóar víst of þungir. Vonir standa til þess að húsið hrynji til grunna þegar borgarlínan kemur.

Hvítá flæddi yfir bakka sína í Flóanum, en þar hafði hrannast upp ísstífla undanfarna daga.

Nýju ráðherrarnir eru að munstra til sín aðstoðarmenn, en sérstaka athygli vakti að Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra réð m.a. til sín háðfuglinn Jakob Birgisson.

Evrópusambandinu var nóg boðið og styrkti Hveragerði um 343 m. króna til að byggja nýja skolphreinsistöð.