Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Byggingin mun gjörbreyta allri aðstöðu félagsmanna í Sörla og verður eina reiðhöllin á landinu sem er með sambyggða upphitunarhöll, þannig að keppnisfólk þarf ekki að hita upp úti, eða í nálægum byggingum,“ segir Sigríður Kristín Hafþórsdóttir framkvæmdastjóri Sörla.
Hún segir að nýbyggingin verði rúmir 5.000 fermetrar og reiðgólfið verði 2.580 fermetrar.
Gamla höllin verður notuð sem upphitunarhöll fyrir sýningar sem verða í nýja húsinu. Heildarstærð bygginganna verður 6.000 fermetrar. Framkvæmdir við bygginguna hófust í maí 2023 og er áætlað að þeim ljúki í apríl á þessu ári.
Báðar hallirnar verða notaðar til æfinga og námskeiðahalds. Í nýja húsinu verður áhorfendastúka fyrir 700 manns og er húsið sambærilegt að stærð og reiðhöllin hjá hestamannafélaginu Spretti.
„Til viðbótar við reiðvöllinn verður stór veislusalur auk skrifstofa og fundaraðstöðu. Gamli veislusalurinn verður nýttur áfram.“
Endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir en Hafnarfjarðarbær og Sörli byggja húsið í sameiningu. Bærinn byggir húsið eins og hvert annað íþróttamannvirki og hestamannafélagið greiðir 15% af byggingarkostnaði og mun eiga sem því nemur í byggingunni. Í Sörla eru 1.000 félagsmenn.
Áætluð verklok í apríl 2025
Sigríður Kristín segir að mikið sé lagt upp úr góðu reiðgólfi og efnið verði blandað kvarsi og flís. Gúmmímottur verða lagðar undir kvarsblönduna. Í húsinu verður tölvustýrt vökvunarkerfi sem viðheldur réttu rakastigi í gólfinu. Húsið mun nýtast vel með útisvæðinu sem fyrir er á athafnasvæði Sörla sem stendur á fallegum stað í Hafnarfjarðarhrauni við Kaldárselsveg.
„Það er mikið lagt upp úr mýkt á gólfinu til að minnka álagið á hestinn,“ segir Sigríður Kristín.