Íbúar New Orleans í Bandaríkjunum eru í sárum eftir óhugnanlegt hryðjuverk sem framið var í borginni á nýársnótt.
Hryðjuverkamaður ók pallbíl inn í mannfjölda á helstu skemmtigötu borgarinnar, Bourbon-stræti, með þeim afleiðingum að fjórtán létu lífið. Enn liggur fjöldi manna á sjúkrahúsi eftir árásina.
Árásarmaðurinn féll eftir skotbardaga við lögreglu. Hann heitir Shamsud-Din Jabbar, var bandarískur ríkisborgari, hafði gegnt herþjónustu í Bandaríkjaher í átta ár og þjónað í Afganistan um skeið. Hann lýsti skömmu fyrir verknaðinn yfir stuðningi við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams og sagðist hafa gengið í þau í fyrrasumar. Í yfirlýsingu sagðist hann í fyrstu hafa ætlað að fyrirfara fjölskyldu sinni, en komist að þeirri niðurstöðu að það myndi ekki draga næga athygli að gjánni milli hinna trúuðu og hinna trúlausu.
Jabbar hugðist greinilega valda mun meiri skaða, því hann hafði komið fyrir sprengjum á tveimur stöðum á vettvangi, en hvorug sprakk og báðar voru gerðar óvirkar.
Lögregla hélt í upphafi að Jabbar gæti hafa átt sér vitorðsmenn en hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að svo hafi ekki verið. Ekki eru þó öll kurl komin til grafar og segir lögregla að rannsókn málsins sé afar flókin, eins og að setja saman púsluspil með þúsund púslum.
Nokkrum klukkustundum síðar sprakk bíll fyrir utan Trump International-hótelið í Las Vegas og varð alelda. Tilræðismaðurinn var í bílnum og virðist hafa fyrirfarið sér rétt áður en bíllinn sprakk. Hann var yfirmaður í Bandaríkjaher og var í leyfi. Í upphafi var talið að tilræðin í New Orleans og Las Vegas gætu verið tengd, en svo virðist ekki hafa verið.
Tilræðið í New Orleans minnir óþyrmilega á óhæfuverkið sem var framið í Magdeburg í Þýskalandi. Þar ók maður inn í mannþröng á jólamarkaði. Fimm létu lífið og 200 særðust í árásinni. Markaðurinn hafði verið varinn með steypuklumpum en á einum stað var opin aðkomuleið fyrir lögreglu og sjúkrabíla. Hana nýtti tilræðismaðurinn sér.
Tilræðismaðurinn í Magdeburg, geðlæknir að nafni Taleb Al-Abdulmohsen frá Sádi-Arabíu, situr nú í fangelsi. Hann hefur margoft vakið athygli yfirvalda og nær sú saga rúman áratug aftur.
Árið 2013 hótaði hann læknaráðinu í sambandslandinu Mecklenburg Vorpommern því að „eitthvað slæmt“ myndi gerast ef hann fengi ekki að fara í matsferli til að fá lækningaleyfi hið snarasta. Nefndi hann í hótun sinni tilræðið sem gert var í maraþonhlaupinu í Boston fyrr á því ári. Þá var Al-Abdulmohsen sektaður fyrir rétti.
Í framhaldinu hringdi hann í skrifstofu kanslarans í Berlín, kvartaði undan dómnum, kallaði dómarann rasista og hótaði að taka sér byssu í hönd.
Engu að síður fékk Al-Abdulmohsen hæli í Þýskalandi árið 2016 á þeirri forsendu að honum væri hætta búin í Sádi-Arabíu þar sem hann hefði sagt skilið við íslamska trú.
Síðan hefur hann komið víða við í Þýskalandi. Almennir borgarar hafa iðulega vakið athygli yfirvalda á hótunum sem hann hefur sett á netið og sömuleiðis mun sádiarabíska leyniþjónustan hafa varað við því að hann gæti verið hættulegur.
Yfirvöld í Þýskalandi höfðu meira að segja í tvígang tekið hann í viðtal vegna hegðunar sinnar, nú síðast í október.
Þegar þessi saga kemur í ljós er óskiljanlegt að maðurinn skuli hafa getað framið ódæðisverkið í Magdeburg. Enn furðulegri er sú útlegging yfirvalda að hann hafi ekki passað í „prófílinn“ af þeim sem fremja slík verk. Hefði verið brugðist við ef hann hefði verið íslamskur ofstækismaður sem hótaði blóðbaði? Er ekki nóg að vera ofstækismaður með slíkar hótanir?
Árið 2016 var flutningabíl ekið á gesti á jólamarkaði í Berlín. 12 létu lífið og 56 særðust. Ríki íslams lýsti yfir ábyrgð á blóðbaðinu. Það er ekki eina dæmið. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa hvatt íslamista til að láta til skarar skríða með þessum hætti og breyta ökutækjum sínum í vopn. Í raun er engin leið að verjast slíkum árásum þótt hægt sé að setja upp hindranir þar sem margir koma saman.
Hryðjuverkin fremja þessir ódæðismenn iðulega upp á eigin spýtur. Samtökin lýsa síðan yfir ábyrgð, þótt forsprakkar þeirra hafi jafnvel ekki haft hugmynd um að þau stæðu til. Það er erfitt fyrir lögregluyfirvöld að stöðva slíkt þegar ekkert ráðabrugg á sér stað eða samskipti. Svo vandast málið enn þegar tilræðismenn í andstöðu við íslamista tileinka sér aðferðir þeirra til að úthella blóði og fremja hryðjuverk.
Það er líka vandi þegar hryllingurinn er bara í kollinum á fólki, eða orð í netheimum. Við höfum dæmi um það hér á landi, mál sem fjaraði út. Auðvelt er að segja eftir á að hægt hefði verið að afstýra hlutum, en hversu margir ausa upp úr sér hótunum og ósóma? Hversu mörgum er alvara? Hversu marga ætti þá að stoppa? Hvað ætti að gera við þá?
Slíkar spurningar eru hins vegar einskis virði fyrir þá sem eiga um sárt að binda eftir ódæðisverk á borð við þau sem voru framin í New Orleans og Magdeburg; aðstandendur hinna látnu og fólk sem verður jafnvel örkumlað fyrir lífstíð. Samúðin er hjá þeim.