Gunnar Þórðarson er fæddur 4. janúar 1945 á Hólmavík og ólst þar upp fyrstu árin, en flutti síðan með fjölskyldu sinni þaðan til Keflavíkur. Til Reykjavíkur flutti hann svo 1968 og hefur átt þar heima síðan.
Tónlistarsaga Gunnars er löng og óvenjuglæsileg. Hann byrjaði í skólahljómsveit í Keflavík 1961 og eftir að þeir félagar Gunni og Rúnar stofnuðu Hljóma 1963 varð ekki aftur snúið. Fyrsta smáskífa þeirra með lögunum Bláu augun þín og Fyrsti kossinn, eftir Gunnar, kveikti síðan neista, sem enn logar.
Hljómar voru starfandi 1962-1969 og voru ein allra vinsælasta hljómsveit landsins. Síðan tók hljómsveitin Trúbrot við 1969-1973. Sú hljómsveit spilaði framsækna rokktónlist og er platan Lifun, sem er ein fjögurra hljómplatna sveitarinnar, iðulega nefnd ein allra besta plata Íslandssögunnar. Síðan hefur Gunnar verið í hinum ýmsu hljómsveitum eins og Lummunum, Ríó tríói, Ðe lónlí blúbojs og Sléttuúlfunum.
Árið 1998 stofnaði síðan Gunnar ásamt Birni Thoroddsen og Jóni Rafnssyni tríóið Guitar Islancio. Tríóið gaf út fimm hljómplötur með djassskotnum útsetningum á íslenskum þjóðlögum og spilaði tríóið, eins og Ríó tríóið, víða og heilmikið í útlöndum.
Auk alls þessa hefur Gunnar sent frá sér þrjár sólóplötur, en ekki síður er hann útsetjari og upptökustjóri á yfir annað hundrað hljómplötum. Hann skilaði svo þjóðinni mikilli gersemi þar sem Vísnaplöturnar tvær eru annars vegar, Einu sinni var og Út um græna grundu. Gunnar samdi lög á plöturnar og útsetti þær. Platan Einu sinni var seldist í yfir 20.000 eintökum og var langvinsælasta plata ársins 1976, og til gamans má geta þess að Gunnar átti líka vinsælustu plötu ársins árið eftir, sem var hljómplata með Lummunum.
Gunnar samdi tónlist fyrir söngleikina Á köldum klaka og Örfá sæti laus, sem sýndir voru hjá LR og Þjóðleikhúsinu. Hann hefur samið tónlist fyrir leikrit eins og Græna landið, kvikmyndir eins og Agnesi og sjónvarpsmyndir eins og Blóðskömm, Djáknann og Músina Mörtu auk þess sem hann hefur samið tónlist fyrir ógrynni sjónvarps- og útvarpsauglýsinga og fjölda kynningarstefja fyrir sjónvarps- og útvarpsstöðvar.
Gunnar kom auk þess að uppsetningu óteljandi tónlistar-„veisla“ hjá félaga sínum Ólafi Laufdal, bæði á Broadway og Hótel Íslandi, þar sem komu við sögu ungir og tiltölulega óþekktir tónlistarmenn sem síðar hafa skapað sér sess sem einhverjir þekktustu tónlistarmenn landsins, eins og Sigga Beinteins, Guðrún Árný, Eiríkur Hauksson, Eyfi, Birgitta Haukdal og margir fleiri.
Árið 2009 kom Gunnar fram einn síns liðs á tónleikum, en það hafði hann aldrei gert áður. Frumraunin var á Græna hattinum, en síðan endurtók hann leikinn fyrir troðfullu húsi bæði í Borgarleikhúsinu og síðar á Landnámssetrinu.
Samkvæmt opinberum tölum hefur Gunnar samið ein 830 lög og mörg allra vinsælustu laga síðustu áratuga eru einmitt frá Gunnari komin, lög eins og Þú og ég, Gaggó Vest, Heim í Búðardal, Starlight, Vetrarsól, Ástarsæla, Ég elska alla, Harðsnúna Hanna, Þitt fyrsta bros, Bláu augun þín… og þannig mætti lengi telja.
Í seinni tíð sneri Gunnar sér hins vegar að því að semja það sem er kallað „klassísk tónlist“, en sjálfur byrjaði hann ekki að skrifa nótur fyrr en eftir þrítugt. Árið 1992 flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands verkið Nocturne, eða Næturljóð, eftir Gunnar og enn síðar voru flutt stórvirkin Hin heilaga messa, árið 2000, og Brynjólfsmessa, árið 2006.
Árið 2013 var frumflutt óperan Ragnheiður eftir Gunnar og félaga hans Friðrik Erlingsson. Óperan hlaut fádæma vinsældir og var meðal annars kosin tónlistarviðburður ársins sama ár.
Gunnar hefur setið í stjórn STEF-s og FTT (Félags tónskálda og textahöfunda) og er auk þess heiðursfélagi í FTT. Hann var fyrsti „popp“-tónlistarmaðurinn sem hlaut listamannalaun og hann hefur verið útnefndur listamaður Keflavíkurbæjar og borgarlistamaður og hlaut hina íslensku fálkaorðu árið 2002.
„Þegar ég steig fyrst á svið langaði mig til þess að hafa tónlistina að atvinnu en vissi ekki hvort ég gæti það,“ segir Gunnar. „Það var samt afskaplega spennandi tilhugsun að geta verið hljóðfæraleikari og ég sá kalla eins og Elvis, Cliff, Jerry Lee Lewis og Little Richard í hillingum.
Ég hef samt alltaf litið á spilamennskuna sem eins konar „leik“ fremur en alvöru atvinnu. Ég lifi í tónlistarheiminum og lagahugmyndir, óljósar en þó samt vel meðvitaðar… skýrar melódíur, eru hreint út sagt… óstöðvandi í höfðinu á mér. Þegar þær verða svo að lögum er skemmtilegt að sjá hvaða viðbrögð og áhrif þær hafa.“
Fjölskylda
Eiginkona Gunnars er Toby Sigrún Herman, f. 19.2. 1949, fv. fjölskyldu- og námsráðgjafi. Foreldrar hennar voru hjónin Irving Herman, f. 23.3. 1915, d. 29.11. 1972, og Ásthildur Sveinbjörg Friðmundsdóttir, f. 30.10. 1922, d. 27.10. 2006. Tvíburabróðir hennar, Friðmundur Leonard Herman, varð bráðkvaddur 1.6. 2006.
Gunnar og Toby eiga tvo syni, Karl Brooke Herman Gunnarsson, f. 5.9. 1981, búsettan í Keflavík, og Zakarías Herman Gunnarsson, f. 3.7. 1988, búsettan á Möltu.
Fyrir átti Gunnar þrjár dætur, Huldu Berglindi, f. 4.6. 1967, d. 23.2. 2023, Borghildi, f. 26.8. 1967, búsetta í Danmörku, og Katrínu Perlu, f. 17.10. 1972, búsetta í Reykjavík.
Alls eru barnabörnin níu og barnabarnabörnin þrjú.
Systkini Gunnars: Bára, f. 26.10. 1943; Guðbjörg, f. 1.4. 1946; Sævar, f. 15.3. 1947, d. 14.10. 1985; Valtýr, f. 14.4. 1950, d. 2.8. 2016; Guðbirna Kristín, f. 19.2. 1958, og Þórdís Guðrún, f. 28.11. 1961.
Foreldrar Gunnars voru hjónin Þórður Björnsson, f. 8.11. 1922, d. 23.7. 2006, og Guðrún Guðbjörnsdóttir, f. 11.10. 1922, d. 17.1. 2000.