Thelma Mogensen er opin fyrir því að starfa hér heima sem og erlendis. „Mig langar bara að leika. Sé verkefnið spennandi þá er ég til.“
Thelma Mogensen er opin fyrir því að starfa hér heima sem og erlendis. „Mig langar bara að leika. Sé verkefnið spennandi þá er ég til.“ — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég fékk tár í augun þegar ég frétti að ég væri komin inn. Langþráður draumur var að rætast.

Þegar Thelma Mogensen var að vaxa úr grasi á Íslandi, í Kanada og í Bandaríkjunum dreymdi hana um að verða leikkona. „Ég var í söng og leiklist þegar ég var yngri og vissi fátt skemmtilegra en að klæða fólkið á heimilinu í búninga,“ rifjar hún upp brosandi.

Annað átti þó fyrir henni að liggja eftir stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands 2018. Við tók fjögurra ára nám í hönnun og markaðsfræðum í Boston.

Að því námi loknu vorið 2022 nýtti Thelma dvalarleyfi sitt til að vinna eitt ár í Bandaríkjunum og færði sig þá yfir til New York og hóf störf hjá tískufyrirtækinu Rebag. „Á þeim tíma var ég mjög fókuseruð á að vera í tískubransanum í New York,“ segir Thelma sem býr í New York en er hér heima í jólafríi.

Þessi vetur átti aftur á móti eftir að verða örlagaríkur, bæði í ástum og námi. Hún kynntist nefnilega íslenskum manni, Styrmi Elí Ingólfssyni Vigdísarsyni, sem lagði á þeim tíma stund á leiklistarnám í heimsborginni. Þau kynntust gegnum Íslendingasamfélagið í New York og fóru að rugla saman reytum. Og viti menn, gamla, góða leiklistarbakterían gaus upp. Með látum.

„Ég fór að lesa línur með Styrmi, vegna náms hans, taka upp prufur með honum og þar fram eftir götunum – og það kviknaði bara bál,“ segir Thelma. Til að gera langa sögu stutta. „Eftir það var ekki hægt að stöðva mig, ég skyldi sjálf fara í leiklistarnám. Ég er nefnilega týpan sem vill ekki sjá eftir neinu í þessu lífi.“

Hún fór að skoða skóla í New York, enda annar gamall draumur að búa þar, og komu þrír aðallega til greina: Stella Adler Studio of Acting, þar sem Styrmir lærði; Neighborhood Playhouse School of the Theatre og Lee Strasberg Theatre and Film Institute. Niðurstaðan var að sækja um í þeim síðastnefnda og var Thelma tekin inn að undangengnu viðtali. Um er að ræða tveggja ára nám, sem Thelma hóf haustið 2023, þannig að hún mun brautskrást frá skólanum í sumar.

Brando, Monroe, Pacino

Lee Strasberg Theatre and Film Institute var stofnaður 1969 en byggir á mun eldri grunni. Strasberg var ráðinn framkvæmdastjóri hins víðfræga leiklistarskóla Actors Studio árið 1951, þar sem fólk á borð við Marlon Brando, Marilyn Monroe og Al Pacino nutu leiðsagnar hans. Grunnstefið í þeim fræðum var hin svokallaða „aðferð“ í leiklistinni eða „method“ en Strasberg er gjarnan kallaður faðir hennar í Bandaríkjunum.

Strasberg lést árið 1982, áttræður að aldri, en skólinn hefur haldið sínu striki allar götur síðan og fylgt uppleggi stofnandans. „Margir sem eru að kenna í skólanum lærðu hjá Strasberg sjálfum og elsti kennarinn er orðinn 91 árs,“ segir Thelma.

– Hvernig tilfinning var að komast inn í þennan virta skóla?

„Ég fékk tár í augun þegar ég frétti að ég væri komin inn. Langþráður draumur var að rætast.“

En auðvitað var yfirþyrmandi að ganga þarna inn fyrsta daginn. „Bæði var það öll sagan en ekki síður að margir sem voru að hefja nám með mér voru búnir að gera ýmislegt áður í leiklist; sjálf var ég bara búin að vera í nokkrum tímum.“

Óttinn reyndist þó ástæðulaus. „Mér var mjög vel tekið og orkan í skólanum er virkilega góð. Hann er fullur af hæfileikaríku og metnaðarfullu fólki sem hvetur hvað annað til dáða. Sjálf hef ég myndað góð tengsl við marga samnemendur mína sem á ábyggilega eftir að gagnast mér vel í framtíðinni.“

Ríflega 100 nemendur eru í skólanum og á bilinu tíu til 20 sækja hvern tíma, að sögn Thelmu. Segir hún þá koma hvaðanæva úr heiminum enda trekki skólinn alltaf jafn mikið að. „Þetta er mjög alþjóðlegt umhverfi. Sem er mjög spennandi.“

– Hvernig tók fólkið þitt hérna heima þessari u-beygju hjá þér?

„Mjög vel. Það eru allir ofboðslega ánægðir fyrir mína hönd – sem er alls ekki sjálfgefið. Fyrir það er ég þakklát.“

Foreldrar Thelmu, Margrét Ásgeirsdóttir og Skúli Mogensen, auk fleiri ættingja, flugu utan nú á aðventunni til að sjá hana leika sitt fyrsta hlutverk á sviði, í leikritinu Significant Other eftir Joshua Harmon í skólanum. Thelma var í aðalkvenhlutverkinu í verkinu. „Það var mjög gaman að fá þau út en á sama tíma pressa enda var þetta tækifæri til að sýna þeim að mér væri alvara. Þetta gekk mjög vel og ég fór að hágráta á eftir, svo ég segi nú bara eins og er.“

Meira kom raunar til. „Við vorum búin að leggja mikla vinnu í að æfa leikritið og svo var allt í einu bara allt búið. Úr varð mikið spennufall og þess utan er ég mjög tilfinningarík manneskja.“

Hún hlær.

Hvarf inn í karakterinn

Thelma viðurkennir að hún hafi verið að deyja úr stressi fyrir þessa frumraun sína á sviði en þegar á reyndi tók námið utan um hana. „Við lærum slökun í náminu og ég settist bara á stól og andaði, eins og okkur er kennt. Það virkaði ágætlega. Þegar á sviðið var komið hvarf svo allt stress eins og dögg fyrir sólu og mér leið eiginlega bara eins og að ég væri utan eigin líkama. Ég hvarf bara inn í karakterinn og treysti því sem ég er búin að læra. Það var dásamleg tilfinning.“

Thelma telur að hún hefði ábyggilega á endanum tekið þetta skref, að fara í leiklistina, en kynni þeirra Styrmis hafi án efa flýtt fyrir því. „Ég þorði varla að viðurkenna að ég vildi stíga þetta skref og þurfti að fá spark í rassinn. Það kom frá honum. Sem betur fer. Ég sé ekki eina sekúndu eftir því að hafa breytt um stefnu; þetta er það sem mig hefur alltaf langað að gera. Auðvitað er þetta ekki bara dans á rósum; leiklistin getur verið mjög erfið og krefjandi, en ofboðslega gefandi.“

Þess má geta að Styrmir fór á skeljarnar, eins og það er kallað, á gamlárskvöld og bað Thelmu. „Ég er að venjast því að kalla hann unnusta minn,“ segir Thelma og ljómar.

Significant Other var sýnt í þrígang og uppselt var á allar sýningarnar í 100 manna sal. „Það var mjög skemmtileg reynsla að leika fyrir framan áhorfendur og ég get ekki beðið eftir að gera meira af því.“

Rennilásinn stóð á sér

Að sögn Thelmu er sviðsleikurinn snúnari en kvikmyndaleikurinn að því leyti að sitthvað getur farið úrskeiðis. Því fékk hún strax að kynnast í Significant Other en á einni sýningunni stóð rennilásinn á brúðarkjól sem hún klæddist á sviðinu á sér. „Maður verður alltaf að gera ráð fyrir hinu ófyrirséða á sviði og í þessu tilviki tókst okkur að bjarga okkur ágætlega og ég held að enginn hafi tekið eftir þessu.“

Framan af náminu var Thelma spenntari fyrir því að leika í kvikmyndum og sjónvarpi en á sviði en segir það hafa jafnast út eftir þessa fyrstu sýningu; nú sé hún opin fyrir bæði sviðsleik og bíóinu. „Vonandi fæ ég tækifæri til að gera bæði í framtíðinni, það yrði æðislegt. Ég er búin að leika í fimm stuttmyndum nú þegar sem var mjög gaman og nú líður mér eins og að ferillinn sé kominn af stað. Næstu mánuði mun ég þó einbeita mér að því að klára skólann. Síðan sjáum við bara til. Þetta kemur allt í ljós.“

Þess má geta að hún er að fara að leika í tveimur stuttmyndum með skólanum í vor og verður í aðalhlutverki í annarri þeirra. „Þetta geri ég með skólanum. Svo verður lokasýning í skólanum í sumar fyrir útskrift.“

Talið berst að fyrirmyndum, í lífi og leik, og Thelma andvarpar aðeins. „Úff, þær eru svo margar. Ég horfi til dæmis mikið til Nicole Kidman, sérstaklega þegar hún var yngri. Meryl Streep er líka ótrúlega hæfileikarík og enn í fullu fjöri, komin yfir sjötugt. Það er mjög ánægjulegt að sjá en tækifæri leikkvenna hafa ekki alltaf verið svo mikil eftir vissan aldur. Það er sem betur fer að breytast og í því er minn draumur einnig fólginn, að geta leikið lengi og haldið áfram að fá krefjandi hlutverk, þótt aldurinn færist yfir. Fyrir utan alla hæfileikana eru bæði Streep og Kidman góðar fyrirmyndir hvað þetta varðar. Fyrst þú spyrð um fyrirmyndir í lífinu almennt þá er ég svo heppin að eiga foreldra sem hafa alla tíð stutt mjög dyggilega við mig. Þau eru mínar helstu fyrirmyndir.“

Flytur heim í sumar

Þar sem Thelma var búin að nýta ársdvalarleyfið sitt eftir námið í Boston er einsýnt að hún þarf að flytja heim í sumar, eins og Styrmir þurfti að gera á síðasta ári. Hann hefur verið hér heima síðan í haust. „Umsókn hans um dvalarleyfi er í ferli og vonandi fer hún í gegn fljótlega. Sjálf er ég að leggja drög að minni umsókn og vonandi tekur það ferli ekki langan tíma. Okkur langar að búa og starfa í Bandaríkjunum, helst í New York, þar sem við höfum byggt upp grunn, en erum samt opin fyrir öðrum möguleikum, eins og að vinna hér heima. Við erum mjög heppin að vera Íslendingar. Draumurinn er að geta verið með annan fótinn á Íslandi í framtíðinni enda margt spennandi í gangi í leiklistinni hérna, bæði í leikhúsunum og í kvikmyndum og sjónvarpi.“

Annars er Thelma opin fyrir því að elta verkefnin, hvert sem er. „Mig langar bara að leika. Sé verkefnið spennandi þá er ég til.“

Hennar bíður strax verkefni þegar hún kemur heim í sumar, stuttmynd sem hún ætlar að gera með vinkonu sinni, Önnu Ólöfu Jansdóttur. „Ég er mjög spennt fyrir því verkefni. Við vonumst til að fara í tökur í haust og hafa myndina helst klára fyrir jólin. Það er svolítið bratt en alveg mögulegt. Næsta skref yrði svo að koma myndinni á framfæri á stuttmyndahátíðum erlendis.“

Thelmu og Styrmi langar að vonum að vinna saman og hafa raunar gert það nú þegar, í verkinu Untitled 1970 eftir Styrmi. Þar var á ferð bræðingur sem sveiflaðist milli leikhúss og bíós og færður var upp í íbúð í Brooklyn. Var það hennar fyrsta verkefni.

„Vonandi eigum við eftir að gera fleira saman enda tölum við varla um annað en leiklistina, verkefnin og draumana. Við erum mjög jákvæð, bjartsýn og spennt fyrir framtíðinni.“