Tungutak
Ari Páll Kristinsson
ari.pall.kristinsson @arnastofnun.is
Í fjölskylduboðum og öðrum mannamótum frá nýársnótt til þessa dags hafa fæstir þurft að óttast skort á umræðuefni, þar sem upplagt er að spyrja hvernig fólki hafi fundist áramótaskaupið á RÚV. Því má fylgja eftir og þráspyrja um hvaða atriði hafi verið best eða eftirminnilegast. Ekki veit ég hvort til er í dæminu að fólk hafi lært allt skaupið utanbókar við fyrsta áhorf, en reyndar hefur sýnt sig að heilu atriðin úr íslenskri skaupasögu geta lifað í endursögnum og upprifjunum árum og áratugum saman. Og úr því að hér er komið inn á svið munnlegrar geymdar er freistandi að hafa svolítinn útúrdúr: Í nýrri skáldsögu Jóns Kalmans Stefánssonar, Himintungl yfir heimsins ystu brún, sem gerist á öndverðri 17. öld, er Dóróthea ein allra mikilvægasta og eftirminnilegasta persónan innan um margar fleiri sem Jón Kalman dregur svo skýrum dráttum í skáldverki sínu. Sumum hentar betur að hlusta en lesa, og það er einn af þráðunum sem hann notar til að tvinna saman persónu Dórótheu. Með orðum sögumanns er hún „fullkomlega ólæs“ en „allt virðist hún kunna og engu tekst henni að gleyma af því sem hún einu sinni heyrir“ og „sögur jafnt sem kvæði, forn eða ný, getur hún þulið án þess að þar skeiki eða víxlist einu orði“. Þessi sögupersóna, sem höfundur staðsetur vestur við Djúp fyrir fjórum öldum, leiðir hugann að því dýrmæti sem hljóðbækur eru í dag.
Orðið skaup er sagt af sama meiði og orðið skop. Bæði orðin merkja 'fyndni' samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók, en sem merkingu númer tvö í orðinu skaup tiltekur orðabókin sérstaklega þessa: „áramótaskemmtiþáttur íslenska ríkissjónvarpsins“ og tekið er fram að þá sé orðið oftast haft með greini, skaupið.
Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Bl. Magnússonar eru orðin skop og skaup tengd saman við orð í nokkrum vesturgermönskum tungumálum: scop 'spott' í gamalli hollensku; scop 'skáld' í fornensku og atviksorðið scopliko 'skáldlega' í fornsaxnesku; og loks sco(p)f 'kvæði' í fornháþýsku. Ályktun Ásgeirs Bl. Magnússonar í orðsifjabókinni er að upphafleg merking orðsins skop hafi líklega verið „gaman- eða spottkvæði eða –leikur“. Hann telur að orðin tengist sagnorðinu skopa sem þýði að hoppa eða hlaupa. Aðrar heimildir benda á að fornenska orðið scop 'skáld' geti sem best verið skylt íslenska sagnorðinu skapa, sbr. í ensku shape 'skapa, búa til'.
Íslenska orðið skáld og sagnorðið skálda eru talin samsvara enska sagnorðinu scold sem merkir að húðskamma, og nafnorðinu scold um fólk sem er gefið fyrir að skammast og ávíta aðra. Vel má vera að scold í ensku sé upphaflega tökuorð úr norrænu skáld (skald). Skáldin eiga það til að benda okkur á óþægilegar staðreyndir um menn og málefni, og oft með því að klæða efnið í skoplegan búning og ekki spillir að fá skopleikara til að koma því á framfæri.