Í dag Veitingastaðurinn Metro er umkringdur fjölda bílastæða. Þau fara undir íbúðarhús.
Í dag Veitingastaðurinn Metro er umkringdur fjölda bílastæða. Þau fara undir íbúðarhús.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Umbreyting Skeifusvæðisins úr iðnaðar- og verslunarhverfi í blandaða byggð virðist komin á fullt skrið. Morgunblaðið sagði fimmtudaginn 18. desember sl. frá samkomulagi Reykjavíkurborgar við Eik fasteignafélag hf

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Umbreyting Skeifusvæðisins úr iðnaðar- og verslunarhverfi í blandaða byggð virðist komin á fullt skrið.

Morgunblaðið sagði fimmtudaginn 18. desember sl. frá samkomulagi Reykjavíkurborgar við Eik fasteignafélag hf. um niðurrif eldri húsa og uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á lóðunum Skeifunni 7 og Skeifunni 9.

Og nú hyggjast Reitir fasteignafélag hf. halda áfram á sömu braut. Félagið hefur óskað eftir afstöðu Reykjavíkurborgar til tillögu um nýtt skipulag og uppbyggingu á lóðinni Suðurlandsbraut 56. Ber tillagan heitið METRÓ.

Lóðin sem um ræðir er á horni Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs. Á henni stendur 715 fermetra veitingahús sem upphaflega var reist fyrir hamborgarastaðinn McDonald’s en hýsir nú veitingastaðinn Metro. Það mun víkja fyrir nýrri byggð nái áformin fram að ganga. Tillagan gerir ráð fyrir torgrými, borgargarði og um 90 íbúðum í tveimur samtengdum 6-8 hæða byggingum. Að auki verði 1.700 fermetra verslunar- og þjónusturými.

Erindi Reita var vísað til umsagnar verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa.

Suðurlandsbraut 56 er 4.039 fermetra lóð í Skeifunni, á horni Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs, að því er fram kemur í bréfi Reita. Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé mjög lágt eða 0,18. Lóðin er skilgreind á miðsvæði M3a í aðalskipulagi þar sem fyrirhuguð sé uppbygging og umbreyting iðnaðar- og verslunarhverfis í blandaða byggð.

Borgin tók vel í erindið

Reitir sendu svipað erindi til borgarinnar árið 2021, Metró 21, og tók borgin vel í það. Nú hefur fyrirtækið lagt inn aðra fyrirspurn, Metró 24. Sama hugmynda- og formfræði liggur að baki nýrri tillögu og hefur fyrri tillögu aðeins verið breytt í smáatriðum, segir í bréfi Reita.

Í bréfinu kemur fram að lóðarhafi, Reitir, hefur látið vinna staðháttagreiningu og tillögu að nýrri uppbyggingu á lóðinni í samstarfi við Trípólí arkitekta.

Um er að ræða tillögu að samgöngumiðuðu skipulagi sem fléttar nýbyggingu og almenningsrými saman við fyrirhugaðar breytingar á Suðurlandsbraut.

Tillagan gerir ráð fyrir tengingu við biðstöð borgarlínu og að hringtorg við gatnamót Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs verði aflagt ásamt aðrein frá hringtorgi inn í Skeifuna.

Fram kemur í greinargerð Trípólí arkitekta að lóðin Suðurlandsbraut 56 endurspegli að vissu leyti sorglegt ástand Skeifunnar ágætlega.

Um sé að ræða vannýtta lóð á frábærum stað í borginni með mikla möguleika til þróunar og uppbyggingar.

Nýtt rammaskipulag ásamt bættum almenningssamgöngum á Suðurlandsbraut muni marka þáttaskil í þróun Skeifunnar og nærumhverfis hennar.

Í greinargerðinni er nöturleg lýsing á lóðinni Suðurlandsbraut 56 í dag. Húsið sem hýsir veitingastaðinn Metro standi innarlega á lóðinni og sé í litlu samtali við nærliggjandi byggingar.

Það geri enga tilraun til að skapa heillega götumynd eða önnur borgarrými umhverfis sig, eins og það er orðað.

Sveimandi mávager

„Þeir sem koma og nýta sér þjónustu staðarins koma nánast undantekningalaust á bíl, enda svæðið ekki hugsað til neins annars. Á álagstímum er ágætis straumur af bílum, fólk er hins vegar varla sjáanlegt nema í gegnum bílrúður og rétt á meðan arkað er inn á staðinn. Við húsið er engin aðstaða til að snæða utandyra, maturinn er borðaður inni eða á bílastæðaplaninu, þá iðulega fyrir framan mælaborðið, nálægt yfirfullri ruslatunnu, undir sveimandi mávageri.“

Nái áform Reita fram að ganga muni stór bílastæðaplön víkja fyrir nýbyggingum, torgum og görðum. Mikil aukning byggingarmagns sé að stórum hluta ætluð til að fjölga íbúðum ásamt því að tryggja þá fjölbreyttu starfsemi sem hverfið sé þekkt fyrir.

Borgarlínan muni stuðla að því að Suðurlandsbraut breytist úr tvístrandi hraðbraut í lifandi borgargötu, sem tengi saman aðliggjandi hverfi í stað þess að mynda gjá þar á milli.

METRÓ við Suðurlandsbraut 56 mun slá nýjan tón í byggingarmynstri svæðisins, stórhýsi að evrópskri fyrirmynd sem stendur þétt við götuna og á í virku samtali við næstu nágranna sína, segja Trípólí arkitektar meðal annars í greinargerðinni.

Sem fyrr segir er erindi Reita nú til umfjöllunar hjá verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson