Stuðningur Annalisa Baerbock, Ahmed al-Sharaa og Jean-Noel Barrot í Damaskus en þau ræddu m.a. um uppbyggingu Sýrlands eftir uppreisnina.
Stuðningur Annalisa Baerbock, Ahmed al-Sharaa og Jean-Noel Barrot í Damaskus en þau ræddu m.a. um uppbyggingu Sýrlands eftir uppreisnina. — AFP/Sana
Utanríkisráðherra Þýskalands varaði í gær nýja valdhafa í Sýrlandi við því að Evrópuríki muni ekki veita landinu stuðning ef þar verður komið á íslömsku valdakerfi. Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands og Jean-Noel Barrot utanríkisráðherra …

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Utanríkisráðherra Þýskalands varaði í gær nýja valdhafa í Sýrlandi við því að Evrópuríki muni ekki veita landinu stuðning ef þar verður komið á íslömsku valdakerfi.

Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands og Jean-Noel Barrot utanríkisráðherra Frakklands fóru í heimsókn til Damaskus höfuðborgar Sýrlands sem fulltrúar Evrópusambandsins í gær og áttu m.a. fund með Ahmed al-Sharaa, eiginlegum leiðtoga landsins.

Baerbock sagði við blaðamenn eftir fundinn að Evrópa myndi styðja við endurreisn Sýrlands eftir að Bashar al-Assad forseti landsins var hrakinn frá völdum í desember en að Evrópuríki myndu ekki fjármagna nýtt íslamskt stjórnkerfi í landinu. „Það er ekki einungis í þágu varnarhagsmuna okkar heldur er það einnig krafa fjölmargra Sýrlendinga í Þýskalandi og einnig hér,“ sagði hún.

Utanríkisráðherrarnir lýstu þeirri von að Sýrland yrði fullvalda, friðsamt og stöðugt ríki og lögðu áherslu á að nýir valdhafar næðu samkomulagi við Kúrda í norðurhluta landsins. Þá hvatti Barrot einnig til þess að bráðabirgðastjórn landsins óskaði eftir því við Stofnunina um bann við efnavopnum að hún sendi fulltrúa sína til Sýrlands og hefði umsjón með eyðingu efnavopnabirgða landsins.

Barrot og Baerbock skoðuðu meðal annars Saydnaya-fangelsið í Damaskus sem er eitt helsta tákn áralangrar ógnarstjórnar Assads þar sem fangar voru pyntaðir og teknir af lífi án dóms og laga. Yfir 4 þúsund fangar voru frelsaðir úr fangelsinu þegar uppreisnarmenn náðu borginni á sitt vald 8. desember.

Tortryggni

Ahmed al-Sharaa er leiðtogi íslömsku samtakanna Hayat Tahrir al-Sham (HTS) sem stýrðu uppreisninni gegn Assad en tortryggni gætir víða í garð HTS, sem eru sprottin úr sýrlenskum armi al-Kaída-hryðjuverkasamtakanna. Fjölmargir vestrænir embættismenn hafa að undanförnu farið til Sýrlands og lagt áherslu á að nýir valdhafar virði réttindi allra trúarhópa og þjóðarbrota í landinu.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson