Lana forðast óþarfa stress og neikvæða einstaklinga.
Lana forðast óþarfa stress og neikvæða einstaklinga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvernig ætlarðu að byrja nýja árið? „Ég ætla að skella mér aðeins í sólina og eyða áramótunum á Tenerife. Ég er mjög spennt að byrja árið í smá sól og njóta með tengdafjölskyldunni minni, fara í golf og plana nýja árið.“ Seturðu þér…

Hvernig ætlarðu að byrja nýja árið?

„Ég ætla að skella mér aðeins í sólina og eyða áramótunum á Tenerife. Ég er mjög spennt að byrja árið í smá sól og njóta með tengdafjölskyldunni minni, fara í golf og plana nýja árið.“

Seturðu þér heilsumarkmið?

„Já, mér finnst alltaf mjög skemmtilegt að setja mér markmið og pæla aðeins í því hvernig mig langar að hafa næsta ár þegar kemur að heilsu og hreyfingu. Í ár ákvað ég til dæmis að byrja árið á því að sleppa öllum aukasætindum fyrstu þrjá mánuðina og það var mikið auðveldara en ég þorði að vona. Ég mun pottþétt gera eitthvað svipað núna 2025, það er svo gaman að hafa smá svona áskorun.“

Hvað ertu að fást við þessa dagana?

„99% af tímanum mínum fer í að reka fyrirtækið mitt Kenzen sem hefur stækkað ekkert smá hratt á þessu ári. Í raun fara allir dagar í það, hvort sem það er virkur dagur eða helgi. Það er svo gaman að vinna við það sem maður hefur metnað fyrir svo mér líður alls ekki eins og ég sé í vinnunni þar sem verkefnin eru jafn mörg og þau eru ólík. Ég leik einnig Sollu stirðu sem er mjög skemmtilegt og brýtur upp hversdagsleikann.“

Hvað getur þú sagt mér um uppáhaldsmatinn þinn?

„Uppáhaldsmaturinn minn er kalkúnn og allt meðlætið sem fylgir. Það er einnig svona matur sem tengist oftast ótrúlega skemmtilegum tímum, hátíðum eða veislum.“

Áttu þér uppáhaldsveitingahús?

„Á Íslandi er það Sushi Social, hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum þar, en ef ég ætti að velja stað erlendis þá verður það að vera Nobu. Fór á svo skemmtilegan Nobu-stað í Dubai og maturinn var eitthvað sérstaklega góður.“

Hvernig hugsar þú um heilsuna?

„Ég reyni að hreyfa mig og finna hreyfingu sem mér finnst skemmtileg. Ég tók réttindin fyrir Barre-þjálfun fyrr á árinu þar sem ég hef verið í slíkum tímum í langan tíma og elska það. Mér finnst ótrúlega gaman að finna hreyfingu þar sem ég get stundað með vinkonum mínum, það gerir það svo mikið skemmtilegra. Ég reyni að vera meðvituð um að borða hollt án þess að pæla of mikið í því.“

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Ég elska að fá mér gríska jógúrt með berjum, múslí og dökku súkkulaði.“

Ertu að safna þér fyrir húsgagni?

„Já, við kærastinn minn höfum haft auga á Jensen-rúminu lengi og langar að fjárfesta í því. Við fluttum út á árinu og höfum verið að kaupa einn og einn hlut inn í íbúðina sem hefur verið mjög skemmtilegt.“

Hvaða forrit notar þú mest í símanum þínum?

„Þetta er mjög erfitt að segja,“ segir hún og hlær. „Mikið af vinnunni fyrir Kenzen er í gegnum símann, hvort sem það er að svara skilaboðum, birta efni á samfélagsmiðlum, búa til myndbönd og fleira. Ég sjálf nota Tiktok og Pinterest mjög mikið og elska að fá innblástur þaðan.“

Er eitthvert lag sérstaklega mikið í spilun hjá þér núna?

„Ég elska Don´t Smile með Sabrina Carpenter þessa dagana og elska öll lög með Drake. Hann er mest í spilun hjá mér og hefur verið síðustu ár.“

Hvaða bók last þú síðast?

„Ég er að lesa bók núna sem heitir The Inmate eftir Freida McFadden og hún er mjög spennandi. Annars las ég Verify þar á undan sem var það spennandi að ég kláraði hana á einum degi og gat bara ekki hætt.“

Hvaða þætti ertu að horfa á núna?

„Við kærastinn minn vorum að klára þætti sem heita FROM sem voru sjúklega spennandi og við bíðum spennt eftir næstu seríu.“

Hvernig skipuleggur þú daginn þinn?

„Ég elska að búa til lista yfir það sem ég á eftir að gera, þarf þá til þess að muna hluti þar sem ég get verið algjört fiðrildi. Ég var að kaupa skipulagsbókina sem Grace Beverly hannaði og ég er ótrúlega spennt að byrja að nota hana, uppsetningin er alveg geggjuð. Ég elska að vera í rútínu og hafa plan fyrir daginn. Mér finnst mjög gott að hafa allt fyrir framan mig á blaði eða í bók, annars týnist það einhvers staðar í símanum.“

Hvernig núllstillir þú þig?

„Mér finnst mjög gott að fara í hot yoga, sund með vinkonum mínum eða verja tíma með fjölskyldu og systkinum mínum, þau fylla alveg á batteríin.“

Hvað reynir þú að forðast í lífinu?

„Alla neikvæðni. Ég á mjög erfitt með aðstæður eða fólk sem er neikvætt og er ekki lausnamiðað þar sem ég sjálf er mjög jákvæð og lausnadrifin. Einnig finnst mér gott að forðast óþarfa stress og reyni að rýna ekki oft djúpt í hluti sem skipta ekki máli.“

Hvaða manneskja hefur haft mest áhrif á líf þitt?

„Ég er ótrúlega heppin með fólk í kringum mig og lít mjög mikið upp til fjölskyldunnar minnar. Ég verð samt að segja að Dýri Kristjánsson, sem er stjúppabbi minn, hefur haft ótrúlega mikil áhrif á mig og hugarfar mitt. Ég hef verið svo heppin að fá að vinna með honum að verkefnum tengdum Latabæ og hann er alveg magnaður. Hann er svona manneskja sem allir þyrftu að eiga að, algjör peppari, alltaf til staðar, jákvæðasta manneskja í heimi og sér einhvern veginn bara það góða í hlutunum sem er oft alveg mjög fyndið og lærdómsríkt. “

Höf.: Edda Gunnlaugsdóttir |