Ef það er eitthvað sem leggur grunn að bættum samböndum og almennri vellíðan þá er það sjálfsvinna. Að mati sérfræðinga þá glímum við öll við eitthvað úr fortíðinni sem nauðsynlegt er að takast á við og tækla hér og nú. Dáleiðslufræðingurinn Patience Chigodora segir að ef það er eitthvað eitt sem fólk ætti að leggja áherslu á þá sé það að heila barnið í sjálfum sér.
„Ef það er eitthvað sem allir ættu að gera til þess að bæta andlega heilsu, þá er það að heila innra barn sitt. Það er fátt meira aðkallandi,“ segir Chigodora í viðtali við The Stylist.
„Að leggja í slíka vinnu er umbreytandi lífsreynsla því þá birtast manni undirliggjandi ástæður þess af hverju maður er eins og maður er. Formgerð okkar, hvernig við sjáum heiminn og meðtökum ást, er fullmynduð þegar við nálgumst sjö til tíu ára aldurinn. Á þessum árum mótum við sambandsstíl sem byggist að miklu leyti á því hvernig foreldrar okkar brugðust við þörfum okkar. Þessi sambönd geta verið örugg, kvíðabundin eða einkennst af forðun eða óreiðu og hafa áhrif á tilfinningar okkar, sjálfsvirði og sambönd þegar við komumst á fullorðinsár.
Að takast á við særða barnið í sér gerir okkur kleift að lækna sár sem birtast sem tilfinningaleg og andleg vandamál síðar. Að vera meðvitaður um sárin veitir okkur frelsistilfinningu því þá áttar maður sig á tvennu: að allir eru að vinna út frá æsku sinni hvort sem æskan hefur verið erfið eða ekki og fólk sem dregur fram ákveðin viðbrögð speglar gjarnan það sem við upplifðum í æsku. Það að vera séð, heyrð og elskuð.“
Hvernig fer maður að því að heila barnið í sér?
Viðurkenning: Þú þarft að viðurkenna lífsreynsluna sem þú áttir þegar þú varst barn og gera þér grein fyrir að þetta sé raunverulegur hluti af sjálfum þér og á fullan rétt á að vera þarna. Komdu fram við þig af sömu ást og umhyggju og þú sýnir barni.
Forvitni: Til að skilja hver þú ert í dag er nauðsynlegt að fara í saumana á bernskuárunum með tilliti til þess hvernig fyrstu tíu árin mótuðu þig í dag. Þetta má gera með hugleiðslu eða dagbókarskrifum. Þannig býrðu til öruggt pláss til þess að tengjast barninu í þér.
Tjáning: Það er mikilvægt að viðurkenna tilfinningar sínar án þess að dæma. Allar tilfinningar, góðar eða slæmar, eiga rétt á sér. Þó að foreldrarnir hafi ef til vill gert sitt besta þá er ekki þar með sagt að þörfum þínum hafi verið fullnægt. Það er í lagi að viðurkenna það og heiðra þinn sannleik.
Hver er ávinningurinn?
Ávinningurinn getur augljóslega verið umtalsverður, bæði fyrir þig og aðra í kringum þig. Þú gætir verið betur í stakk búinn til þess að hefja ný sambönd með öllum þeim áhættum sem því fylgir.
Heilbrigðari tilfinningar: Að leggja í þessa sjálfsvinnu gerir það að verkum að þú færð að losa um bældar tilfinningar og það leiðir til heilbrigðara andlegs ástands. Það tekur tíma en hvert skref hjálpar manni að tengjast sínu innra sjálfi. Þitt virði markast ekki af aðgerðum annarra. Byrðin er þeirra, ekki þín.
Bætt sambönd: Að takast á við gömul sár hjálpar okkur að mynda heilbrigðari sambönd. Þegar við heilum okkar innra barn þá fjarlægumst við óöryggi og meðvirkni. Við getum tengst öðrum frá betri stað. Verið örugg í samskiptum og skapað raunverulega nánd. Ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis í ástarsamböndum þá er maður betur í stakk búinn til þess að takast á við það ef maður hefur styrkt sig nóg.
Aukið sjálfstraust: Að hlúa að barninu í sér skapar sjálfsást, viðurkenningu og örugga sjálfsmynd. Við náum auk þess að skapa tól til þess að vinna úr krefjandi aðstæðum sem lífið hefur í för með sér.
Hverjar eru áhætturnar og hvað skal forðast?
Þetta snýst alls ekki um að dvelja í fortíðinni og vorkenna sér (þó að það sé stundum nauðsynlegt að leyfa sér að finna til vorkunnar). Þetta snýst um að endurheimta sjálfan sig og allt það sem maður hefur grafið djúpt niður. Að umbreyta sársauka og finna til valdeflingar og tilgangs.
Viðnám: Hætt er við því að fólk veiti viðnám þegar erfiðar tilfinningar dúkka upp. Þess vegna er mikilvægt að gefa sér góðan tíma í þetta verkefni og leita sér jafnvel leiðsagnar.
Sjálfsgagnrýni: Sem börn erum við gjörn á að meðtaka skömm og ásakanir og yfirfæra á okkur sjálf. Á fullorðinsárum er mikilvægt að við sleppum tökunum á sekt og annarri byrði sem við eigum ekki að bera. Markmiðið er ekki að vera fullkominn heldur að reyna okkar besta til þess að ná ákveðinni heilun.
Ósamkvæmni: Þetta er ekki eitthvað sem maður tekur í skorpum. Þetta er ferli sem tekur alla ævina. Tileinkaðu þér þetta sem lífsstíl. Hugleiddu annaðhvort daglega eða einu sinni í viku. Gerðu eitthvað sem vekur minningar. Þú gætir til dæmis gert eitthvað sem þú hafðir gaman af í æsku eða skoðað gamlar ljósmyndir. Mundu samt að nýjar tilfinningar gætu skotið upp kollinum og ný sár. Þú þarft því alltaf að bregðast við og heila ólíkar útgáfur af innra barninu.
Einangrun: Það getur reynst yfirþyrmandi að leggja í þessa sjálfsvinnu einn síns liðs. Reyndu að umkringja þig vinum og reyndu að kynnast fólki sem gengur í gegnum það sama. Þá getur verið gott að leita til fagaðila sem getur leiðbeint manni í vegferðinni.