Einar Þorsteinsson
Einar Þorsteinsson
Reykjavíkurborg hefur samþykkt boð um að gerast aðili að stofnun bandalags strandborga og -svæða sem talið er að verði fyrir áhrifum af hækkandi sjávarborði og áhrifum loftslagsbreytinga í tengslum við hafið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Reykjavíkurborg hefur samþykkt boð um að gerast aðili að stofnun bandalags strandborga og -svæða sem talið er að verði fyrir áhrifum af hækkandi sjávarborði og áhrifum loftslagsbreytinga í tengslum við hafið. Ekki er óskað eftir þátttökugjaldi eða beinni þátttöku starfsfólks borgarinnar en gera má ráð fyrir að óskað verði eftir viðveru borgarstjóra á stofnfundinum.

Hrönn Hrafnsdóttir, deildarstjóri loftslagsmála á umhverfis- og skipulagssviði, mun sjá um samskipti og utanumhald vegna aðildar borgarinnar.

Í minnisblaði sem Einar Þorsteinsson borgarstjóri kynnti í borgarráði kemur fram að forseti Frakklands, Emmanuel Macron, fól Christian Estrosi, borgarstjóra Nice í Frakklandi, að stofna þetta bandalag. Miðað er að því að ná saman 1.000 fulltrúum strandborga og -svæða.

Í aðdraganda Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 2025, hinn 7. júní, verður bandalagið stofnað formlega. Frakkland og Kosta Ríka halda ráðstefnuna í sameiningu og mun hún fara fram í Nice frá 9.-13. júní næstkomandi.

Í kynningarbréfi kemur fram að áherslur bandalagsins verði á samstarf til að takast á við margslungin áhrif loftslagsbreytinga á strandsvæði, mannvirki og lífverur.

Markmið með stofnun bandalagsins séu tvenns konar.

Í fyrsta lagi að hraða aðlögun borga og strandsvæða að loftslagsbreytingum með því að bjóða upp á vettvang sem sameinar fulltrúa strandborga og -svæða.

Í öðru lagi að beita sér fyrir hagsmunum strandborga og -svæða og efla forystu þeirra á alþjóðlegum pólitískum vettvangi.