Baksvið
Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is
Eva Hrönn Guðnadóttir, sem fengið hefur tvenn verðlaun fyrir jólaskreytingar utanhúss, segir í samtali við Morgunblaðið að aldrei sé of mikið skreytt fyrir jólin. Hún segir að nokkur veitingahús hafi nú þegar lagt inn pantanir fyrir næstu jól. „Ég sé fram á að hafa nóg að gera í jólaskreytingum næsta haust. Það er orðið fullbókað. Það er fínt að taka sér frí frá tölvunni og byrja að skreyta á þessum árstíma,“ segir Eva og brosir.
Spurð að því hvort rétt sé að kalla hana sérfræðing í jólaskreytingahönnun segir hún að það sé kannski fullmikið sagt. „Ég er grafískur hönnuður og rek mína eigin hönnunarstofu, Kríu. Forsagan að þessum skreytingum, sem gerðar voru fyrir Apótekið og svo fyrir Fálkahúsið þar sem Sæta svínið, Fjallkonan og Tipsý bar eru til húsa, er að ég hef verið að hanna markaðsefni fyrir þessi veitingahús,“ segir Eva.
Upphafið var í faraldrinum. „Eigendur Apóteksins vildu gera eitthvað meira í skreytingum en gert hafði verið áður og báðu mig um að koma með tillögur. Við hugsuðum um hvort við gætum
gert eitthvað stórt og mikið fyrir fólkið sem var á gangi í bænum. Við lögðum vel í og afraksturinn var verðlaun fyrir bestu skreytingu rekstraraðila í miðborginni.“
Sömu verðlaun voru svo veitt fyrir Fálkahúsið nú í desember. „Mér finnst svakalega gaman að gera svona skreytingar.“
Ýtti við öðrum
Hún segir að skreytingarnar hafi ýtt við öðrum rekstraraðilum í borginni. „Þetta gerir svo mikið fyrir umhverfið. Mér finnst Reykjavíkurborg til dæmis hafa bætt í nú fyrir jólin og skreytt meira en vanalega. Þetta hefur þau áhrif að fólk vill eyða meiri tíma í borginni. Það tekur myndir og skemmtir sér.“
Eva segir að ekki megi vera of seinn að hugsa um skreytingarnar. „Best er að hanna þetta á sumrin. Stærsta jólasýning í heimi er t.d. í byrjun febrúar. Ég hef einmitt farið þangað til að sjá hvað er í boði í útiskreytingum og hvað er hægt að gera. Sýningin opnaði augu mín fyrir hversu stór skalinn er í jólabransanum.“
Spurð um innblástur og hvaða hugmyndir hún leggur til grundvallar segist Eva einkum líta til Lundúna. „Mér finnst verslanir þar hafa vinninginn. Þær eru mikið með skraut sem þú upplifir og gengur í gegnum. Það var einmitt fyrsta hugmyndin fyrir Fálkahúsið. Að skreytingin myndi lokka fólk að húsinu.“
Eva var í Denver í Bandaríkjunum fyrir jól og skoðaði þar jólaskreytingar. „Borgin er með þýskan jólamarkað. Þetta er einmitt eitthvað sem Reykjavíkurborg mætti leggja meira í. Hafa stóran markað þar sem fjölskyldur og vinir koma saman og gera sér glaðan dag.“
Eva telur að allt tal um vont veður sé bara afsökun. „Það er oft kalt í Denver líka.“
Þó að Eva vilji ekki láta veðrið trufla segir hún að íslenska veðráttan sé sinn versti óvinur. „Við eigum stundum erfitt með að láta skreytingarnar haldast uppi og þurfum að festa þær meira og betur en í öðrum löndum. Öll samskeyti þurfa að vera vel skorðuð. Ég hef líka stundum sagt að allar skreytingar sem virka á kafi í vatni séu tilvaldar fyrir íslenskt veðurfar,“ segir Eva að lokum og hlær.