Hrafnhildur Svava Jónsdóttir fæddist í Bjarghúsum í Víðidal í V-Húnavatnssýslu 5. nóvember 1934. Hún lést á dvalarheimilinu Lundi á Hellu 15. desember 2024.

Foreldrar hennar voru Jón Sigtryggur Sigfússon, f. 1.9. 1903 í Brekku í Svarfaðardal, d. 1987, og Sigurbjörg Theodóra Guttormsdóttir, f. 4.10. 1904 á Síðu í V-Húnavatnssýslu, d. 1952.

Systkini: Guttormur Arnar, f. 1932, d. 2015, Björn Haraldur, f. 1933, Lissý Björk, f. 1936, d. 2011, Anna Soffía, f. 1940, d. 2017, Sigurlaug, f. 1941, og Viðar, f. 1946.

Eiginmaður Hrafnhildar var Jóhannes Sigmundsson, f. 18.11. 1931, d. 19.2. 2018. Jóhannes var sonur Sigmundar Sigurðssonar, f. 1903, d. 1981, og Önnu Jóhannesdóttur, f. 1902, d. 1997.

Börn: 1) Hilmar, f. 18.4. 1955. Maki Fanney Þórmundsdóttir. Börn þeirra: a) Árni Þór, f. 1980, maki Freyja Þorkelsdóttir og börn Eyþór Orri, f. 2003, Óðinn Freyr, f. 2005, og Íris Birna, f. 2009. b) Haukur Már, f. 1983, maki Rudy Witt Hilmarsson og börn Elín Kría, f. 2017, Eigill Valur f. 2019, og Yrsa Svala, f. 2023. c) Hugrún Jóna, f. 1988, maki Ársæll Einar Ársælsson og börn Birkir Aron, f. 2011, Rakel Lilja, f. 2016, og Emilía Rún, f. 2023. d) Þórmundur Smári, f. 1995, maki Livia Kradolfer. 2) Sigmundur, f. 25.9. 1957. Maki 1: Anna Marý Snorradóttir, d. 1992. Dætur þeirra: a) Tinna Björk, f. 1980. b) Arna Þöll, f. 1988, maki Þorsteinn Gunnar Þorsteinsson, dóttir Svava Marý, f. 2011. Maki 2: Kristín Jónsdóttir. 3) Sigurbjörg Jóna, f. 5.1. 1959. Maki Ólafur Ó. Stephensen. Börn: a) Jóhannes, f. 1980, maki Thelma Guðmundsdóttir og börn Guðmundur Óli, f. 2007, og Kristín Lóa, f. 2012. b) Pétur, f. 1983. c) Hrafnhildur Eva, f. 1985, maki Kristinn Björgúlfsson og börn Karen Birna Einarsdóttir, f. 2008, og Daði Fannar Kristinsson, f. 2017. 4) Snorri Freyr, f. 11.3. 1965. Maki Vigdis Furuseth. Börn: a) Hákon Snær, f. 1998. b) Birgit Ósk, f. 2000. 5) Gunnar Þór, f. 30.10. 1967. Maki Arndís Eiðsdóttir. Börn: a) Hrafnhildur Ósk, f. 2003. b) Ásgeir Ægir, f. 2009. Áður átti Arndís Jón Aron Lundberg, f. 1994, maki Ríkey Hjaltadóttir, og Jóhönnu Rut, f. 1998, maki Sindri Ragnarsson og dóttir Ísold Esther, f. 2023. 6) Anna Lára, f. 17.12. 1969. Börn: a) Alexia Björk Lebas, f. 1993, maki Adrien Eiríkur Skúlason og börn Victor Steinn Lebas, f. 2019, og Emma Sóllilja Lebas, f. 2021. b) Anton Hrafn Greipsson, f. 2006. 7) Ásdís Erla, f. 2.6. 1972. Maki Yngvi Ragnar Kristjánsson. Börn: a) Elvar Goði, f. 2001. b) Anna Marý, f. 2004.

Hrafnhildur flutti kornung ásamt fjölskyldu sinni í húsið Ketu á Sauðárkróki en var í fóstri frá 6-14 ára aldurs hjá Valtý Sigurðssyni og Önnu Hjartardóttur á Geirmundarstöðum í Skagafirði. Á unglingsárum annaðist Hrafnhildur fársjúka móður sína og heimilið í Ketu. Hún fór í Húsmæðraskólann á Laugarvatni og kynntist þar Jóhannesi Sigmundssyni. Þau stofnuðu heimili í Syðra-Langholti og giftu sig á 20 ára afmælisdegi hennar, 5.11. 1954. Hrafnhildur var húsmóðir á stóru heimili og annaðist ferðaþjónustu í Syðra-Langholti frá 1985-2005.

Útför hennar verður gerð frá Skálholtsdómkirkju í dag, 4. janúar 2025, klukkan 13.

Elsku mamma mín. Ég vissi að það kæmi að því að þú mundir kveðja þessa jarðvist.

Ég er þakklát fyrir allan þann tíma sem ég fékk að vera með þér og fá að geta kvatt þig.

Ég á þér svo margt að þakka í lífinu. Við vorum mjög nánar og fannst mér ég oft getað lesið þínar hugsanir. Allar heimsóknir ykkar pabba hingað norður í Mývatnssveitina eru ógleymanlegar og eftir að pabbi fór þá varstu dugleg að koma og vera hjá okkur. En þú þurftir alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni og ég passaði að hafa nægan þvott sem þú gætir brotið saman, sorterað sokka og oftar en ekki voru bakaðar pönnukökur og steiktar kleinur. Ég er þakklát fyrir að hafa lært það af þér, einnig að steikja flatkökurnar og gera góðu kjötsúpuna þína. Þú varst algjör kjarnakona! Þú varst alltaf að. Það var ekki mikill tími til að slaka á og njóta en það var gaman þegar hægt var að dekra aðeins við þig. Þú naust þess og hafðir gaman að því að eiga falleg föt. Þú varst alltaf svo glæsileg þegar þú varst búin að klæða þig upp, greiða þér og setja upp rauðan varalitinn.

Það var alltaf gaman að koma til ykkar pabba í Syðra-Langholt. Þið tókuð vel á móti Ragga mínum og voruð honum alltaf góð. Þið Raggi áttuð ykkar stundir og var ég ekkert að flýta mér niður í eldhús þegar þið tókuð ykkar trúnaðarsamtal yfir morgunmatnum.

Oftar en ekki keyrðum við eftir langan vinnudag suður og báðum þig að vera ekkert að bíða eftir okkur. En auðvitað beiðstu yfirleitt eftir okkur og tókst á móti okkur með bros á vör og með bakkelsi.

Í veikindum Önnu Marý varst þú til staðar, passaðir Elvar og heimilið meðan við Anna þurftum að vera óvænt eina viku á sjúkrahúsinu á Akureyri. Elvar og Anna fengu oft að vera hjá ykkur þegar við Raggi vorum á einhverju flakki. Krakkarnir elskuðu að hafa ykkur í kringum sig og þú varst þeim alltaf góð. Minnisstæð er ferð okkar til Þýskalands þegar pabbi varð áttræður. Við fórum að hausti til og fórum í fjölskyldugarða og sigldum út í Frauen Insel þar sem að þú naust þess að horfa á öll fallegu blómin.

Þú varst mikill Skagfirðingur og í þínum huga var alltaf sól í Skagafirði. Ég minnist þess fyrir nokkrum árum þegar við áttum góða ferð norður í Skagafjörð, gistum hjá Sillu systur þinni í Blönduhlíðinni. Ég keyrði með ykkur á Krókinn í kaffi til Jósa og inn í Sæmundarhlíðina. Þá voru sögurnar rifjaðar upp. Þér leið alltaf vel í Skagafirðinum þínum.

Ég kveð þig sátt og er viss um að pabbi hafi tekið vel á móti þér í sumarlandinu.

Blessuð sé minning þín elsku mamma mín.

Þín

Ásdís Erla.

Fregnin um andlát Hrafnhildar móðursystur minnar kallar fram minningar og lítið annað er hægt að gera en að horfa um öxl, þakka fyrir og minnast. Ekki er hægt að minnast Hrafnhildar án þess að minnast einnig Jóhannesar eiginmanns hennar sem kvatt hefur þennan heim. Þau hjónin voru alltaf eitt í mínum huga og sem barn dvaldi ég á sumrin hjá þeim í Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi til fjölda ára.

Ef ég man rétt kom ég fyrst til þeirra að verða sjö ára árið 1966 og þau hjónin þá rétt ríflega þrítug. Vart hægt að segja að ég væri vinnumaður, heldur einfaldlega viðbót í barnahópinn. Ég hef oft hugsað til þeirra og reynt að setja mig í þeirra spor, að taka opnum örmum á móti mér á hverju sumri lýsir þeim einstaklega vel. Það var alltaf mikil tilhlökkun að koma til þeirra á vorin og erfitt að kveðja á haustin þegar halda skyldi heim á ný. Þegar ég lít til baka, nú sjálfur orðinn fjölskyldufaðir, sé ég betur hversu dýrmætt það var að tilheyra stórum barnahópi þeirra, sérstaklega fyrir einbirnið mig.

Í minningunni stendur upp úr þegar ég hugsa um sumrin í Syðra-Langholti var að barnahópurinn virtist alltaf stækka í hvert skipti sem ég kom í sveitina á vorin, svona geta minningar verið sterkar, þó þær séu ef til vill ekki alltaf nákvæmar. Á meðan ég dvaldi hjá þeim stækkaði ekki bara barnahópurinn heldur einnig húsið líka, þannig að við frændurnir vorum ekki lengur þrír í einu herbergi, heldur fengum meira rými. Þegar ég var orðinn nógu stór til að leggja hönd á plóg var vaknað snemma til að ná í kýrnar og sinna öðrum verkum sem féllu til hverju sinni. Ef heimþráin gerði vart við sig, sem var afar sjaldan, þá var ávallt gott að leitar til Hrafnhildar.

Eitt skipti sátum ég og hluti af börnum þeirra hjóna við gluggann og biðum eftir að Hrafnhildur og Jóhannes kæmu aftur heim úr utanlandsferð. Við fylgdumst með ljósunum á bifreiðunum þegar þær nálguðust brúna á Stóru-Laxá og vonuðum að það væri þeirra ljós sem þar væri á ferð. Það vantaði alltaf svo mikið þegar Hrafnhildur var ekki á staðnum, hún sá um okkur öll af svo mikilli umhyggju og natni sem er eitthvað sem öll börn þurfa til að vaxa og dafna.

Máltækið „það þarf heilt þorp til að ala upp eitt barn“ kemur upp í hugann þegar ég horfi til baka, því það var alltaf mannmargt og mikið líf og fjör í Syðra-Langholti, næstum því eins og lítið þorp og naut Hrafnhildur þess að sjá fjölskyldumeðlimi sína vaxa og dafna.

Við Helga og krakkarnir minnumst Hrafnhildar með þakklæti og kærleika og hugsum með einlægri samúð til barna hennar, fjölskyldna þeirra og annarra ástvina.

Jón Viðar.