Rafael á heimili sínu í Hlíðunum í Reykjavík.
Rafael á heimili sínu í Hlíðunum í Reykjavík. — Ljósmynd/Aðsend
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar ég kom fyrst til Íslands fyrir 19 árum fannst mér Reykjavík vera heimsklassa hönnunarmiðstöð. Því miður hefur þessi þróun leitt af sér hverfi sem einkennast af köldum og kassalegum byggingum sem eru mótaðar í kringum bílastæði.

Arkitektinn Rafael Campos de Pinho tekur á móti blaðamanni á heimili sínu í Hlíðunum í Reykjavík. Samtalið hefst á að ræða skipulag íbúða í hverfinu, þar með talinna sérhæða með stórum og björtum stofum og rúmgóðum herbergjum, og hvernig það er ólíkt skipulagi margra íbúða á þéttingarreitum. Slíkar íbúðir virðast ekki lengur vera byggðar.

Rafael lauk námi í arkitektúr og borgarskipulagi frá brasilíska háskólanum Escola de Arquitetura Universidade Federal de Minas (EA-UFMG), ásamt því að hafa lokið MA-námi í fasteignaviðskiptum frá hagfræðideild Universidad de Barcelona. Hann hlaut viðurkenningu fyrir útskriftarverkefni sitt í Brasilíu og hitti við það tilefni íslenska arkitektinn Pálmar Kristmundsson, hjá PK Arkitektum. Með þeim tókst vinskapur og kom Rafael til Íslands 2006 til að starfa í þrjá mánuði en örlögin tóku aðra stefnu. Rafael á íslenska sambýliskonu, Ernu Hreinsdóttur, og saman eiga þau dótturina Flóru, 12 ára.

Starfað víða um heim

Rafael hefur starfað sem arkitekt víða um heim og árið 2020 stofnaði hann stofuna Jörp ásamt Jóhanni Erni Logasyni. Undanfarið hefur hann starfað með stofunni DPZ CoDesign, sem er þekkt fyrir borgarskipulag í Bandaríkjunum, við hin ýmsu verkefni í Norður-Ameríku.

Rafael hafði samband við blaðamann síðsumars í fyrra í tilefni af umfjöllun Morgunblaðsins um þéttingu byggðar. Síðan hefur umræðan farið á flug og margir tjáð sig um þau áhrif sem þétting byggðar hefur haft á ásýnd höfuðborgarsvæðisins, ekki síst Reykjavíkur, en Rafael reynist hafa sterkar skoðanir á málinu.

Alvarlegir hlutir á ferð

Nú er mikið rætt um kosti og galla þess að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu. Dæmi er vöruhúsið við Álfabakka í Suður-Mjódd. Hvaða skoðun hefurðu á arkitektúrnum sem hefur leitt af þessari stefnu síðustu 10-15 ár?

„Þetta vöruhús hefur skapað mikla umræðu og það er í sjálfu sér mikilvægt. Þetta mál sýnir hve alvarlegir hlutir eru að eiga sér stað við uppbyggingu íbúða á höfuðborgarsvæðinu og það ætti að fara fram miklu meiri umræða um þessa stefnu en verið hefur til að koma samtalinu á hærra plan. Hvaða árangri skilar stefnan? Hvaða leiðir eru til úrbóta? Mér datt í hug að það væri góð byrjun að ræða við þig.

Var framsækin og fáguð

Þegar ég kom fyrst til Íslands fyrir 19 árum fannst mér Reykjavík vera heimsklassa hönnunarmiðstöð. Ég hóf störf hjá hinum alþjóðlega viðurkenndu PK Arkitektum og fyrstu vikuna sá ég framúrskarandi útskriftarsýningu hjá Listaháskóla Íslands. Hér var lifandi lista-, tónlistar- og tískusena. Ég hafði verið ár í New York og Berlín og fannst Reykjavík vera allt eins framsækin og fáguð.

Síðan hefur borgin gengið í gegnum töluverðan vöxt og þróun. Því miður hefur þessi þróun leitt af sér hverfi sem einkennast af köldum og kassalegum byggingum sem eru mótaðar í kringum bílastæði. Byggingar sem eru án nokkurra tengsla við hina ríku hefð Íslendinga fyrir hlýlegum arkitektúr á mannlegum skala. Það er dapurlegt að sköpunin og frumleikinn sem Íslendingar eru þekktir fyrir skuli ekki endurspeglast í borgarlandslaginu.“

Hanna í raun lítið

Hvað kann að skýra það?

„Ætli það séu ekki nokkrir þættir. Einn þeirra er að regluverkið mótar byggingarnar meira en hönnuðirnir. Það er hvati til að sameina lóðir og byggja mikinn byggingarmassa. Því ef það þarf til dæmis að vera lyfta þykir æskilegt að geta deilt kostnaðinum á eins margar íbúðir og kostur er. Fjármálastofnanir kjósa einnig heldur stærri verkefni. Það er skilvirkara fyrir banka að fjármagna stór íbúðaverkefni en lítil. Í þessu umhverfi gegnir arkitektinn mjög veigalitlu hlutverki við hönnun íbúðarhúsnæðis. Þegar byggingarstaðlar hafa verið uppfylltir, og búið er að laga verkáætlun og efnisval að viðskiptaáætlun verktakans, er ekki mikið eftir til að „hanna“. Kannski velja litinn á svalirnar. Samhliða er það viðhorf margra verktaka að arkitektar séu egóistar sem skapi dýra list á þeirra kostnað.“

Sambærileg vandamál

Er lausn í sjónmáli?

„Ég hef mikið starfað í Bandaríkjunum að undanförnu og þar standa arkitektar frammi fyrir sambærilegum vandamálum vegna regluverksins. Valið stendur á milli þess að byggja hús fyrir eina fjölskyldu í úthverfi eða hús sem er sex hæðir eða hærra en allt annað á milli er nær útilokað að byggja. Því hafa verið byggð mörg háhýsi með 200 íbúðum en nær engar byggingar í millistærð.

Ég hef starfað með nokkrum af þeim afskaplega færu hönnuðum borgarskipulags sem stofnuðu hreyfinguna Congress For the New Urbanism (CNU) á 10. áratugnum til að stuðla að úrbótum í úthverfunum. Eitt af því sem þau beittu sér helst fyrir var uppbygging húsa sem á ensku nefnast Missing middle housing en það eru byggingar fyrir margar fjölskyldur. Það er margt líkt með þeim húsum og því sem við sjáum til dæmis í Hlíðunum, Vesturbænum, Þingholtunum og víðar. Þessar byggingar bjóða upp á hóflegan þéttleika og skapa fallega götumynd en um leið er tryggt að sérhver íbúð fái næga dagsbirtu og loftræstingu.

Slíkar íbúðir eru hagkvæmari í byggingu með því að lágmarka sameiginleg rými, ganga og lyftur. Slík byggð er heldur ekki svo þétt að hún skapi vandamál vegna bílastæða. Stórhýsi leiða af sér stór bílastæði, eða dýr bílastæðahús í kjallara, en þegar byggðin er með meðalþéttleika er hægt að leggja bílum við göturnar eða á milli húsanna svo að lítið fari fyrir þeim. Þannig er hægt að skapa betri framhliðar og vinaleg rými milli gangstéttar og byggingar, milli almannarýmis og einkarýmis.

Þéttu byggð í París

Það gæti í öllu falli verið hluti af lausninni að stuðla að smærri grasrótarverkefnum í stað gríðarstórra og óspennandi íbúðablokka. Sé skoðað hvernig þéttleiki byggðar var aukinn í borgum eins og París eða Barcelona á síðari hluta 19. aldar kemur í ljós að þá voru þúsundir minni húsbyggjenda að byggja. Fjölskyldur reistu hús með fáum íbúðum, bjuggu í einni og leigðu út hinar. Það er einnig afar góð leið til að bjóða upp á hagkvæmt húsnæði. Sá sem fær framkvæmdalán getur þá byggt eigið heimili og íbúðir sem skapa leigutekjur. Með því eykst framboð á hagkvæmu leiguhúsnæði fyrir efnaminna fólk.

Það leiðir af sér borgarlandslag sem er mótað af samfélaginu. Að fólk geti byggt á stöðum þar sem það vill búa. Að sjálfsögðu þarf slík uppbygging að vera í takt við skynsamlegt regluverk sem tekur til allrar borgarinnar. Regluverk sem er ekki mjög hamlandi en skynsamlegt í stóra samhenginu. Slíkt kemur í veg fyrir frávik en eykur grunngæðin og varðveitir samræmið sem gefur borginni einkenni sín.“

Gefur falska mynd

En nú geta nágrannar alltaf kvartað undan slæmri hönnun, ekki satt?

„Umsagnarferlið „skipulag í kynningu“ þarf ekki að fela í sér aukna þátttöku borgaranna í mótun borgarinnar og það kemur svo sannarlega ekki í veg fyrir slæma hönnun. Aðeins þeir sem kvarta, „ekki-í-mínum-bakgarði-fólkið“, hafa hvata til að láta skoðun sína í ljós. Fólk sem er hlynnt verkefni hefur ekki fyrir því að láta skoðun sína í ljós og fyrir vikið gefur tölfræði athugasemda borgaryfirvöldum bjagaða mynd af vinsældum tillagna. Ef fimm eru andvígir verkefni og fimmtíu hlynntir því munu borgaryfirvöld líklegast aðeins heyra af þessum fimm sem kvörtuðu vegna þess að hinir fimmtíu munu ekki nenna að láta skoðun sína í ljós. Það gefur falska mynd af lýðræðislegu skipulagi.

Skilvirkari nálgun væri að leita viðbragða hjá öllum haghöfum innan viss radíuss [frá fyrirhuguðum framkvæmdastað] og fá þá til að lýsa sig fylgjandi eða mótfallna verkefninu. Slíkar upplýsingar myndu gefa borginni upplýsingar sem endurspegla betur viðhorf samfélagsins. Núverandi kerfi gerir sérhvert verkefni að deilumáli. Það hefur lengi verið við lýði en allir virðast vera óánægðir með framboðið á íbúðamarkaði og gæði nýrra verkefna. Skipulag í kynningu er ekki beinlínis að koma í veg fyrir verktakablokkafaraldurinn. Raunar gæti það átt sinn þátt í þeim faraldri enda hafa aðeins stóru verktakarnir ráð á að taka slaginn í leyfisveitingaferlinu.

Vilja þau vera án bíls?

Kannski ætti að fara fram atkvæðagreiðsla til að finna út hvernig borg fólk vill. Vill fólk búa í verktakablokkum eða vill það minni þéttleika? Vill fólk búa í aðlaðandi hverfum með hallandi þökum og hlýlegum arkitektúr? Vilja allir borga aukalega fyrir lyftu? Hversu hátt hlutfall íbúanna kýs raunverulega að vera án bíls á þessari breiddargráðu og taka heldur strætisvagn? Vel útfærðar spurningar myndu auðvelda borginni að forðast ágiskanir og skapa umgjörð fyrir borgina um það skipulag sem fólk vill raunverulega.

Arkitektar halda oft að þeir viti betur. Það er hins vegar ekki óalgengt að það sem arkitektar vilja sé afar frábrugðið því sem hin 99 prósent íbúanna álíta vera gott. Og mistök sem eru byggð í steypu endast í langan tíma og það er býsna erfitt að gera úrbætur. Ég tel persónulega að Reykjavík ætti að taka stefnuna frá verktakablokkum og halda í hin dýrmætu einkenni sem gera hana íslenska og einstaka. Litrík þök, hóflegan þéttleika og hlýlega byggð. En það væri áhugavert að finna út hvers konar borg meirihluti íbúanna raunverulega vill.“

Of íþyngjandi regluverk

Hvað um hagkvæmt húsnæði? Nú eru nýjar íbúðir á þéttingarreitum sjaldan hagkvæmt húsnæði? Til dæmis er fermetraverð í nýja hverfinu á Hlíðarenda með því hæsta sem um getur.

„Aukið framboð myndi náttúrlega þrýsta verðinu niður. Það er mikil eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á Íslandi en framboðinu er hins vegar haldið niðri. Of íþyngjandi regluverk á mikinn þátt í því. Það hægir á uppbyggingu og gerir verkefni flóknari og dýrari.

Árið 2018 vann ég hugmyndasamkeppni um uppbyggingu hagkvæmra íbúða við Sjómannaskólann í Reykjavík. Nágrannar kvörtuðu, endurskoða þurfti deiliskipulagið ótal sinnum og borgin skapaði margar hindranir. Sex árum síðar hefur enn ekkert verið byggt. Þessar tafir munu þegar upp er staðið gera húsnæðið dýrara enda hefur kostnaður vegna vinnu, skatta og gjalda safnast upp árum saman. Það myndi ábyggilega stuðla að meira framboði á hagkvæmu húsnæði að draga úr skrifræðinu og slaka á regluverkinu.

Leiguþak misráðið

Við fyrstu sýn mætti ætla að það gæti skilað árangri að setja verðþak á húsaleigu og svo framvegis en slíkar aðgerðir reynast hins vegar hafa haft ófyrirséðar afleiðingar og hafa jafnan haft þveröfug tilætluð áhrif. Barcelona er gott dæmi: íbúðarhúsnæði í borginni er með öllu á óviðráðanlegu verði fyrir heimamenn og þeir kenna ferðamönnum og innflytjendum um það. Raunin er hins vegar sú að útblásið regluverk, tímafrekt leyfisveitingaferli, krafa um að 30-50% nýrra íbúða séu undir markaðsverði og verðþak á leigu hefur dregið úr hvatanum til að byggja íbúðir. Árið 2008 var þetta farið að hægja á uppbyggingu íbúða í borginni sem hefur síðan ekki aukist á ný og samhliða mikilli eftirspurn og litlu sem engu framboði hefur verðið rokið upp.

Færa má rök fyrir því að Tókýó sé eina stóra höfuðborgin sem glímir ekki við vandamál vegna skorts á húsnæði á viðráðanlegu verði. Borgin styður við uppbyggingu húsnæðis með því að lágmarka regluverk og hindranir. Á meðan nálgun borgaryfirvalda í Tókýó kann stundum að leiða til óaðlaðandi bygginga þá leiðir hið mikla regluverk á Íslandi til bygginga sem eru hvorki aðlaðandi né á viðráðanlegu verði.“

Banna það sem vel reynist

Hvernig er regluverkið hindrun í þessu efni?

„Hlutverk þess sem setur regluverkið er að tryggja gæði og að unnið sé faglega og vel. Nú er hins vegar búið að banna margar lausnir sem hafa reynst vel öldum saman og gæði nýbygginga eru ekki jafn mikil og áður. Ég var að skoða upphaflegu teikningarnar að 80 ára gömlu húsi okkar í Hlíðunum en þær eru mjög einfaldar og handunnar. Húsið stendur enn og hér una fjórar fjölskyldur vel við sitt, hér er engin mygla, húshitunarkostnaður er ekki hár, þakið lekur ekki og loftgæðin eru góð enda þótt hér sé ekki fullkomið loftræstikerfi.

Niður í smæstu smáatriði

Nú væri hins vegar óheimilt að byggja þetta hús. Það má ekki byggja svona þriggja hæða hús án lyftu. Litlu og sjarmerandi svalirnar sem gefa byggingunni karakter myndu ekki uppfylla núverandi reglur. Nú stýrir reglugjafinn öllu ferlinu í smæstu smáatriðum, hann mun yfirfara teikningarnar og biðja þig um að breyta leturgerðinni á textaskýringum. Þetta flókna kerfi kann að reynast stóru verktökunum vel, þeim sem hafa efni á að rata um það, en það gerir hvorki byggingarnar né borgina betri.“

Engin töfralausn

Gæti meiri áhersla á samkeppnir meðal arkitekta orðið hluti af lausninni?

„Arkitektasamkeppnir eru að mínu mati stórkostleg sóun á vitsmunum og skapandi hæfileikum. Í viðtali við arkitektatímaritið Metropolis kallaði [hollenski arkitektinn og Harvard-prófessorinn] Rem Koolhass þær „birtingarmynd pyntinga“. „Engin önnur starfsstétt myndi sætta sig við slíka niðurlægingu þar sem einhver getur sagt við þig: „Ég ber mikla virðingu fyrir þér, held að þú sért framúrskarandi manneskja og því máttu eiga í samstarfi við 19 aðra arkitekta sem eru álíka frábærir?“ í verkefni þar sem eru aðeins 5% líkur á að fá verkefnið.“

Ef eitthvað er ættu samkeppnir aðeins að eiga við um opinberar byggingar. Við þurfum ekki á því að halda að bæta við enn einu flækjustiginu og kostnaði við uppbyggingu íbúðarbygginga. Í stað þess að sóa orku í samkeppnir ættu fleiri arkitektar að taka af skarið og hefja sín eigin smærri þróunarverkefni, nýta þannig skapandi hæfileika sína til að þétta byggð eða gera breytingar á eldri byggingum.

Í stað þess að ýta undir samkeppnir ætti Reykjavíkurborg að skapa umhverfi sem hvetur til slíks frumkvæðis. Fjarlægja hindranir skrifræðisins, einfalda leyfisveitingaferlið og bjóða upp á styrki eða skattalega hvata svo að arkitektar eða bókstaflega hver sem er geti komið að mótun borgarlandslagsins í Reykjavík,“ segir Rafael sem telur að niðurstaðan yrði fjölbreyttari húsnæðismarkaður og hönnun sem félli betur að umhverfinu.

Verði aftur einstök

„Reykjavík hefur tækifæri til að sameina sína ríku hefð og hugvitssemi nútímans og skapa þannig borg sem er í senn einstök á sinn íslenska hátt og mikilsmetin á alþjóðlegum vettvangi. Með því að takast á við nokkrar af áskorununum í regluverkinu og greiða götu minni verkefna sem samfélagið tekur þátt í að móta getum við skapað meira lifandi, inngildandi og fallegra borgarlandslag fyrir komandi kynslóðir.“