Sjávarútvegur Pétur, nú fyrrverandi framkvæmdastjóri Sólrúnar ehf.
Sjávarútvegur Pétur, nú fyrrverandi framkvæmdastjóri Sólrúnar ehf. — Morgunblaðið/Þorgeir
GPG Seafood á Húsavík gekk á fimmtudag frá kaupum á útgerðarfélaginu Sólrúnu ehf. á Árskógssandi í Eyjafirði. Kaupunum fylgja bátarnir Sólrún EA-151 og Særún EA-251 auk rúmlega 500 tonna kvóta, þar af um 370 tonn í þorski

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

GPG Seafood á Húsavík gekk á fimmtudag frá kaupum á útgerðarfélaginu Sólrúnu ehf. á Árskógssandi í Eyjafirði. Kaupunum fylgja bátarnir Sólrún EA-151 og Særún EA-251 auk rúmlega 500 tonna kvóta, þar af um 370 tonn í þorski. Með því er bundinn endi á 63 ára útgerðarsögu Sólrúnar.

Pétur Sigurðsson var framkvæmdastjóri og einn eigenda Sólrúnar. Hann segir rekstrarumhverfi smærri útgerða sem ekki reka landvinnslu fjandsamlegt og gagnrýnir stefnu nýrrar ríkisstjórnar sem hann segir vilja samþjöppun í sjávarútvegi svo hægt sé að skattleggja útgerðir enn meira.

Staðan hafi verið orðin þannig að ekki gæti talist fýsilegt að halda rekstrinum áfram. Bendir hann m.a. á hækkun veiðigjalda síðustu ár og boðaða hækkun þeirra, kvótaskerðingu síðustu ára, hugmyndir um að leggja af byggðakvóta og veita strandveiðum þær heimildir, aukna vaxtabyrði og skort á umbótum á höfninni á Árskógssandi síðustu 30 ár.

„Nú er búið að skrifa undir og ganga frá þessu, bátarnir tveir farnir héðan og búið að afhenda fyrirtækið til GPG á Húsavík,“ segir Pétur sem viðurkennir að um sé að ræða mikil kaflaskil fyrir hann sjálfan og meðeigendur fyrirtækisins sem allir eru bundnir fjölskylduböndum.

Lesa má ítarlegra viðtal við Pétur á mbl.is í dag.