[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Luke Littler varð í gærkvöldi yngsti heimsmeistari í sögu pílukasts þegar hann vann Michael van Gerwen örugglega, 7:3, í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Alexandra Palace í Lundúnum

Luke Littler varð í gærkvöldi yngsti heimsmeistari í sögu pílukasts þegar hann vann Michael van Gerwen örugglega, 7:3, í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Alexandra Palace í Lundúnum. Littler er aðeins 17 ára gamall en van Gerwen var áður yngsti heimsmeistarinn eftir að hafa unnið fyrsta heimsmeistaratitil sinn af þremur 24 ára gamall.

Bikarmeistarar KA í knattspyrnu hafa samið við Guðjón Erni Hrafnkelsson um að leika með liðinu næstu þrjú árin, út tímabilið 2027. Kemur hann á frjálsri sölu frá ÍBV. Guðjón er 23 ára gamall bakvörður sem hefur verið í stóru hlutverki hjá ÍBV undanfarin fimm tímabil. Meistaraflokksferilinn hóf hann hins vegar ungur að árum með uppeldisfélagi sínu Hetti.

Southampton, botnlið ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla, hefur samið við brasilíska varnarmanninn Welington. Kemur hann á frjálsri sölu frá Sao Paulo í heimalandinu. Welington er 23 ára vinstri bakvörður sem hefur verið lykilmaður hjá Sao Paulo undanfarin ár.

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur nýtt sér ákvæði í samningi miðvarðarins Harry Maguire um að framlengja hann um eitt ár. Samningur Maguires átti að renna út í sumar en rennur nú út sumarið 2026.

Liðsfélagi Maguires, Marcus Rashford, verður ekki með Man. United þegar liðið heimsækir erkifjendurna í Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Knattspyrnustjórinn Rúben Amorim greindi frá því á fréttamannafundi í gær að Rashford væri að glíma við veikindi. Hann hefur ekki spilað fyrir Man. United síðan 12. desember.