Samtök íþróttafréttamanna standa í kvöld að kjörinu á íþróttamanni ársins í 69. sinn eins og fram kemur hérna á opnunni. Fjórir frumkvöðlar í íþróttafréttamennsku, Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson, lögðu…

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Samtök íþróttafréttamanna standa í kvöld að kjörinu á íþróttamanni ársins í 69. sinn eins og fram kemur hérna á opnunni.

Fjórir frumkvöðlar í íþróttafréttamennsku, Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson, lögðu grunninn að stofnun samtakanna þegar þeir komu saman á fundi 14. febrúar 1956.

Í ársbyrjun 1957 kusu þeir Vilhjálm Einarsson, silfurverðlaunahafa í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne, fyrsta íþróttamann ársins og frá þeim tíma hafa samtökin staðið að þessu árlega kjöri.

Það er fyrir langalöngu búið að skipa sér veglegan sess meðal þeirra Íslendinga sem fylgjast með íþróttum, og í raun langt út fyrir raðir þeirra.

Fátt er meira rætt í þjóðfélaginu þegar kjörinu er lýst. Stundum er deilt hart um niðurstöðuna, stundum alls ekki, og þannig á þetta að vera. Kjörið skapar umræður um fremsta íþróttafólk okkar og eykur áhuga meðal almennings.

Hátindurinn á ferli fjölmargra íslenskra íþróttamanna hefur verið að veita verðlaunagripnum stóra viðtöku.

Af og til koma fram raddir um að einhverjir aðrir en íþróttafréttamenn eigi að velja íþróttamann ársins og sumir ganga svo langt að krefjast þess að kjörið sé sett í hendur annarra aðila.

Hvernig í ósköpunum það væri hægt er mér reyndar hulin ráðgáta.

Að sjálfsögðu er öllum frjálst að stofna til síns eigin kjörs hvar og hvenær sem er. Samtök íþróttafréttamanna munu halda áfram með sitt sögulega kjör svo lengi sem land byggist.

Til hamingju, öll þið sem tilnefnd eruð í kjörinu!