Bjarni Þjóðleifsson, fv. yfirlæknir og prófessor, lést 30. desember á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, 85 ára að aldri.
Bjarni fæddist á Akranesi 29. janúar 1939 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Guðrún Bjarnadóttir, kaupakona og húsfreyja, og Þjóðleifur Gunnlaugsson, rafstöðvarstjóri og kaupmaður.
Bjarni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1959, settist í læknadeild HÍ um haustið og útskrifaðist þaðan í febrúar 1966. Þá tók við kandídats- og síðar aðstoðarlæknisvinna á ýmsum deildum sjúkrahúsanna í Reykjavík, námsdvöl í Aberdeen og aðstoðarlæknisstaða á Sauðárkróki.
Bjarni stundaði framhaldsnám í almennum lyflækningum og meltingarsjúkdómum í Dundee í Skotlandi frá október 1970. Hann lauk sérfræðiprófi í lyflækningum (Member of the Royal College of Physicians, M.R.C. Phys.) í Glasgow í janúar 1973 og svo PhD. frá University of Dundee 5. desember 1975. Einnig starfaði hann á Royal Free í London í eitt ár til að öðlast meiri þekkingu á lifrarsjúkdómum.
Við heimkomu hóf Bjarni störf á Landspítalanum og varð yfirlæknir meltingarsjúkdómadeildar 2002. Varð dósent við Háskóla Íslands í almennri lyflæknisfræði 1976 og frá 1983 var hann prófessor.
Bjarni kynntist skvassi á námsárum sínum í Bretlandi og var með þeim fyrstu sem stunduðu íþróttina hér á landi. Hann spilaði golf og stundaði laxveiði. Í seinni tíð jókst svo áhugi á útivist og gönguferðum. Á menntaskólaárunum varð hann góður skákmaður og alla tíð síðan tefldi hann þegar tækifæri gáfust.
Fyrri eiginkona Bjarna var Ingigerður Þórey Guðnadóttir handavinnukennari, f. 1940, d. 1982. Eftirlifandi eiginkona Bjarna er Sigríður Sigtryggsdóttir bókasafnsfræðingur, f. 1953.
Börn Bjarna og Ingigerðar eru: 1) Guðrún, f. 1969, náttúrufræðingur og eigandi Hespuhússins í Árbæjarhverfi við Selfoss. 2) Gerður, f. 1969, kjóla- og klæðskerameistari og kennari við Tækniskólann. 3) Hildur, f. 1969, myndlistarmaður og prófessor við Listaháskóla Íslands, en Guðrún, Gerður og Hildur eru þríburar. 4) Brjánn Guðni, f. 1980, fjármálaverkfræðingur. Barnabörnin eru fimm.