Hvað verður fegra fundið? / What can be more perfect? er bók sem geymir úrval kveðskapar eftir séra Hallgrím Pétursson. Ritstjóri er Margrét Eggertsdóttir. Tilefni útgáfu bókarinnar er að 350 ár eru liðin frá fæðingu Hallgríms.
„Frumkvæðið kemur frá sóknarnefnd Hallgrímskirkju. Fjöldi erlendra ferðamanna, auk annarra, kemur í kirkjuna á hverjum einasta degi og margir vita ekkert um Hallgrím Pétursson. Hugmyndin var að búa til fallega bók sem gæfi hugmynd um hvernig skáld Hallgrímur var. Ákveðið var að hafa þetta úrval á íslensku og ensku,“ segir Margrét. „Við vildum hafa bæði trúarlegan og veraldlegan skáldskap Hallgríms, ekki sýna einungis trúarskáldið Hallgrím.“
Passíusálmarnir hafa fimm sinnum verið þýddir á ensku þannig að hægt var að ganga að þeim þýðingum og velja á milli en lítið hefur verið þýtt á ensku af veraldlegum kveðskap Hallgríms.
Mikið verk og erfitt
Margrét skrifaði á sínum tíma doktorsritgerð um Hallgrím sem nefnist Barokkmeistarinn. List og lærdómur í verkum Hallgríms Péturssonar. „Ritgerðin var seinna þýdd á ensku [Icelandic Baroque. Poetic Art and Erudition in the Works of Hallgrímur Pétursson 2014] af afar mætum manni sem heitir Andrew Wawn. Hann var lengi prófessor í enskum og íslenskum bókmenntum í Leeds. Í ritgerðinni eru tilfærð mörg dæmi úr kveðskap Hallgríms sem Andrew þýddi. Það var hægt að nýta sumt af því og síðan þýddi Andrew það sem upp á vantaði. Það var bæði mikið verk og erfitt, meðal annars vegna þess að margt í kveðskap sautjándu aldar skálda skilur varla nokkur Íslendingur í dag. Ég spái því jafnvel að þýðingar Andrews muni í sumum tilfellum ljúka kvæðunum upp fyrir þeim sem hafa íslensku að móðurmáli,“ segir Margrét og bætir við: „Það er merkilegt að Andrew er fæddur 1944 á dánardegi Hallgríms 27. október og varð áttræður á þeim degi 2024 þegar við héldum upp á 350 ára ártíð Hallgríms.“
Fjórar konur völdu efnið
Auk Margrétar völdu sálma og kvæði í bókina þær Irma Sjöfn Óskarsdóttir sóknarprestur í Hallgrímskirkju, Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur og Svanhildur Óskarsdóttir rannsóknarprófessor sem unnið hefur ásamt Margréti og öðrum að fræðilegri heildarútgáfu á verkum skáldsins. Þær skrifa einnig formála bókarinnar.
„Steinunn stakk upp á því að fá fjórar konur til að velja efnið. Þá var hún að hugsa til þess að þegar Hallgrímur lauk við Passíusálmana sendi hann fjórum konum eintak af þeim. Þær voru tengdar háttsettum embættismönnum velviljuðum Hallgrími. Þetta voru Ragnhildur Árnadóttir, dóttir Árna Gíslasonar sem hafði reynst Hallgrími afar vel, mágkonurnar Helga Árnadóttir og Kristín Jónsdóttir fengu hvor sitt handritið, og svo Ragnheiður Brynjólfsdóttir, dóttir Brynjólfs Sveinssonar biskups. Hallgrímur skrifaði til mágkvennanna að hann hefði þurft að finna þessu litla verki sínu hæli og samastað, „hvar því yrði ekki undir bekk varpað og glatað eður týnt, og ef nokkrir illviljaðir lasta vildu, væri nokkurs forsvars von“ hjá þessum heiðurskvinnum.
Við fjórar settumst niður og gerðum lista yfir það sem við vorum sammála um að yrði að vera í bókinni, eins og til dæmis Allt eins og blómstrið eina. Eftir það komum við með okkar óskir og það sem fór í bókina er það sem allar urðu sammála um að ætti að vera þar.
Við erum með þekkt vers úr Passíusálmunum eins og Vertu guð faðir faðir minn en líka kveðskap sem er minna þekktur eins og Leppalúðakvæði sem Hallgrímur orti fyrir krakkana sína. Einnig stutt dæmi úr íhugunarritum í lausu máli sem Hallgrímur samdi og fáir þekkja.“
Enn í fullu gildi
„Titill bókarinnar: Hvað verður fegra fundið? er upphafið á kvæði eftir Hallgrím sem við völdum að hafa fremst í bókinni okkar,“ segir Margrét. „Þegar við völdum þetta heiti var hugmyndin auðvitað sú að varla yrði neitt fegra fundið en textarnir sem bókin hefur að geyma – og við vonum sannarlega að lesendur verði okkur sammála um það. Engu að síður má ekki gleyma því að það var ekki það sem Hallgrímur átti við. Í kvæðinu kemur fram að það fegursta sem hann taldi lífið hafa upp á að bjóða var: innri friður, glaðværð, góð samviska og ástvinir. Hann kemur líka með nokkur góð ráð eins og að forðast illmælgi og róg, og hafa ekki of miklar áhyggjur af veraldarláni. Þetta er ótrúlega fallegt og innihaldsríkt kvæði sem fjallar einfaldlega um hvað sé mikilvægast í lífinu, eins konar kennsluleiðbeiningar í lífsleikni – og enn í fullu gildi eins og svo margt sem Hallgrímur Pétursson orti.“
Helga Gerður Magnúsdóttir sá um hönnun og útlit bókarinnar sem er mjög falleg. Þar eru meðal annars myndskreytingar sem Helga hefur gert eftir teikningum Sölva Helgasonar sem varðveittar eru á Þjóðminjasafni.
Bókin byggist að vissu leyti á verkinu Hallgrímskver sem kom út hjá Forlaginu árið 2014. Vísað er í þá bók fyrir þá sem vilja fá heildartexta, skýringar og nánari upplýsingar um versin og erindin sem eru birt í bókinni.