Hér er Hélène í „Fireman“, sem er grunnstaða á súlunni, fyrir klifur og snúning.
Hér er Hélène í „Fireman“, sem er grunnstaða á súlunni, fyrir klifur og snúning. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Tónlistin og dansinn kveikja í mér. Þetta er bara svo gaman. Ég er líka á þeim aldri að nú er mér alveg sama hvað fólki finnst.“

Hélène Magnússon er 55 ára og fædd í hrútsmerkinu. Hún er fransk-íslenskur prjónahönnuður, útskrifaðist úr fatahönnunardeild Listaháskóla Íslands 2005 og stofnaði prjónahönnunarstúdíó sitt 2010. Hélène, sem áður var starfandi lögfræðingur í París, hefur verið búsett á Íslandi í þrjátíu ár. Milli annasamra tíma finnur hún flæðið og friðinn í súludansi.

Fann sig aftur í súludansi

Sem lítil stúlka segist Hélène hafa verið algjör „strákastelpa í kjól“. Móður hennar langaði svo til þess að gera úr henni ballerínu en Hélène vildi ekkert af því sjá né heyra. Segist hún sjálf miklu heldur hafa viljað fótbolta – sem vissulega færri stúlkur æfðu á þeim tíma – en hún ekki náð leikni í boltanum. „Og reyndar var ég ömurleg í öllum boltaíþróttum,“ segir hún kímin.

Þegar hún var níu ára dró vinkona hennar hana með sér á ballettæfingu fyrir byrjendur og segist Hélène hafa orðið ástfangin af dansinum. Hún æfði ballett stíft í þrjú ár, hafði nokkurs konar þráhyggju fyrir íþróttinni, en þegar hún varð tólf ára þurfti hún að taka stóra ákvörðun, jafnvel of stóra fyrir barn að taka.

„Ég þurfti að ákveða hvort ég ætlaði í inntökupróf í Opéra de Paris,“ og útskýrir Hélène að á þessum tíma hafi skólinn ekki verið með innbyggðan heimavistarskóla né kennsluskipulag sem gerði nemendum kleift að halda áfram námi fram að stúdentsprófi.

„Hefði ég komist inn þá hefði ég þurft að fara frá foreldrum mínum og búa ein í París á einhvers konar heimavist og ekki getað stundað skólann eins og ég þyrfti.“

Hélène segir foreldra sína hafa sett ákvarðanatökuna í hennar hendur en hún vissi að þau væru mótfallin því að hún veldi eitthvað sem hefði áhrif á námsgöngu hennar. Þess vegna ákvað Hélène að gefa upp drauminn um að verða ballerína .

„Þetta var stór ákvörðun sem ég sá eftir í mörg ár.“ Nokkrum árum síðar hætti hún alfarið að æfa ballett, þá sautján ára.

Það tók Hélène langan tíma að finna sig í annarri íþrótt eftir að hún kvaddi ballettinn og það var ekki fyrr en þrjátíu árum seinna sem hún fann ástríðuna á ný, í súludansi og súlufitness, þá 45 ára gömul.

„Ég er algjörlega háð þessu“

Hélène lýsir því þegar hún fór á fyrstu æfinguna hjá Eríal Pole og þeim sársauka sem hún fann þegar hún þurfti að krækja hnésbótina í kalt stálið til að æfa snúning á súlunni. Þá kviknaði ný ást og hefur hún æft íþróttina æ síðan.

„Ég er algjörlega háð þessu.“

Hún hafði lesið eitthvað um súludans á netinu sem vakti hjá henni áhuga. Sjálfri leið henni ekkert vel á þessum tíma og sá hún þarna leið til að finna sjálfa sig aftur og kvenlegu hliðina innra með sér.

„Svo snýst súlan! Jibbí, það var svo skemmtilegt!“ segir Hélène og hlær á meðan hún lýsir upplifuninni sem sé eins og að vera úti á róluvelli.

Súlufitness og dans hefur verið flokkað sem jaðarsport hérlendis og þótt íþróttin hafi stækkað og þróast mikið er hún mun stærri erlendis. Eitthvað hefur borið á fordómum gagnvart íþróttinni, sem á uppruna sinn í erótískum dansi og nektarstöðum, en Hélène segir þá vera hverfandi.

Þegar hún byrjaði var ekki gerð mikil skilgreining á milli fitness-hlutans og danshlutans. Í dag er því öðruvísi farið því það eru sérstakir danstímar á gólfi og á súlu og sérstakir tímar fyrir fitness-hlutann. Það helst þó allt í hendur og er nánast ómissandi fyrir þá sem æfa að fá a.m.k. nasaþefinn af þessu hvoru tveggja, ásamt því að æfa liðleikann og styrkinn.

Ýmislegt fleira er í boði í Eríal Pole þar sem Hélène æfir, eins og hammok og silkitímar, lyra (loftfimleikahringir) og aerial-jóga.

Hélène segist ekki finna mikla tengingu á milli súludansins og ballettsins og hún segir að í raun krefjist súludansinn mun meiri styrks í efri hluta líkamans en ballettinn.

Engir fordómar innan Eríal

Spurð um hvað íþróttin geri fyrir hana svarar Hélène því að hún hafi kennt henni meiri líkamsmeðvitund og það að æfa litlu vöðvana og aktívar teygjur hjálpi til með ýmislegt. Svo ekki sé talað um andlegu hliðina. „Allt í einu er ég farin að skilja hvernig ég á að beita mér,“ segir Hélène og að þar hafi íþróttin hjálpað mikið til.

„Ég er alveg liðug, en ég er einnig „hypermobile“ [ofurhreyfanleg] í liðum, sem er ekki gott. Það getur haft áhrif á jafnvægið hjá mér og að ég fari oftar úr lið en aðrir. Ég var oft að meiða mig þegar ég var yngri og fór gjarnan úr lið sem orsakaði meiðsl. Í þrjátíu ár, eftir að ég hætti í ballett, æfði ég aldrei liðleikann því ég var einfaldlega að reyna að halda líkamanum saman,“ segir Hélène og bætir við að hún sé einnig greind með einhverfu og að það virðist vera tengsl þar á milli.

„Nýjustu rannsóknir sýna að einhverfurófsröskun og ofhreyfanleiki í liðum deila fjölda klínískra einkenna, sem mér finnst alveg heillandi,“ segir hún.

Frá maí fram til lok október ár hvert þarf Hélène að taka pásu frá æfingunum, eða getur a.m.k ekki æft eins mikið og hún vildi. Á þessu tímabili fer hún í prjóna- og gönguferðir hérlendis með konum alls staðar að úr heiminum.

Styrkurinn sem hún hefur nú þegar öðlast í súlufitness er alltaf til staðar og tiltölulega fljótur að koma til baka eftir hlé.

„Mér er alveg sama hvað fólki finnst“

Andrúmsloftið á æfingum er alltaf gott, að sögn Hélène, og stúdíóið laust við alla fordóma. „Það er mikilvægt fyrir mig að æfa í stúdíói þar sem öll eru velkomin.“ Hélène er nokkuð virk í Samtökunum ‘78 þar sem hún leiðir stuðningshópinn Betra seint en aldrei fyrir konur sem telja sig hafa komið seint út í lífinu eins og hún, auk þess sem hún stofnaði nýlega hinsegin prjónaklúbb.

Fólk þarf oft að vera fáklætt á æfingu til að ná gripi á súlunni með líkamanum og það sé ekki eitthvað sem nokkur manneskja inni í stúdíóinu spái í.

„Fólk er alls konar og öllum er nokk sama um hvernig næsti maður lítur út.“

Hélène segist ekki finna fyrir neinni samkeppni heldur einungis hvatningu og hún sé örugglega elst þeirra sem æfi í Eríal Pole. „Þarna eru allskonar líkamar. Fyrir mig er þetta bara gott og ég sé bara hvernig þetta eykur sjálfstraustið hjá þeim sem byrja að æfa.“

Hélène segir það mjög frelsandi að geta leyft sér að vera kynþokkafull, í háum hælum og dansa með munúðarfullum hreyfingum. Það geti verið mjög skemmtilegt fyrir konur sem eru aðeins eldri – komnar á breytingaskeiðið eða búnar með það – ekki síður en fyrir þær yngri.

„Þetta er „safe place“. Í stúdíóinu dansa ég öðruvísi en ég myndi gera til dæmis á skemmtistað,“ segir Hélène. „Mörg eru inni í sér og þora ekki, finnst þau vera jafnvel of gömul og of seint að byrja að æfa en auðvitað er það ekki þannig. Hugmyndin er ekki að vera best. Öll erum við með mismunandi styrkleika og spurningin er bara að nýta það sem við höfum.“

Nokkuð ljóst er að Hélène kýs að vera ekki inni í ramma heldur hefur hún fundið frelsi til að fylgja hjartanu. Allt sem hún gerir í dag á þátt í andlegu jafnvægi og leikur þar súludansinn stórt hlutverk.

„Þá kemst ég í burtu frá daglegu amstri, fæ að fara inn í tónlistina og hreyfa mig í flæði. Tónlistin og dansinn kveikja í mér. Þetta er bara svo gaman. Ég er líka á þeim aldri að nú er mér alveg sama hvað fólki finnst.“

Höf.: Guðrún S. Sæmundsen /