Það er nauðsynlegt að gera nokkrar mjaðmalyftur í hverjum mánuði.
Það er nauðsynlegt að gera nokkrar mjaðmalyftur í hverjum mánuði. — Kateryna Hlinznitsova/Unsplash
Á þessum árstíma hefur það tíðkast að fólk endurskoði daglega rútínu og reyni að koma sér upp betri venjum. Hér á árum áður byrjaði fólk af miklum krafti í leikfimi ef það vildi minnka ummál sitt því það taldi að hreyfing ein gæti kallað fram ákveðna tegund af líkama

Á þessum árstíma hefur það tíðkast að fólk endurskoði daglega rútínu og reyni að koma sér upp betri venjum. Hér á árum áður byrjaði fólk af miklum krafti í leikfimi ef það vildi minnka ummál sitt því það taldi að hreyfing ein gæti kallað fram ákveðna tegund af líkama. Allir vildu vera spengilegir og á tímabili vildu líka allir þeir helstu vera vel sólbrúnir í framan. Einhverjum fannst brúnkan passa betur við vöðvana en fölur vanginn.

Eftir að þyngdarstjórnunarlyf komu á markað hefur fólk áttað sig betur á því að setningin „hreyfa sig meira og borða minna“ hefur lítið með holdafar almennt að gera. DNA-ið í fólki er misjafnt. Sumir eru í grunninn svengri en aðrir og hafa meiri löngun í mat sem eykur matarlyst á meðan aðrir geta nánast lifað á loftinu án þess að það trufli heilastarfsemina mikið.

Einu sinni taldist leikfimisæfing ekki fullgild nema fólk nánast skriði út úr leikfimissalnum með æluna uppi í koki. Sem betur fer hefur þessi ósiður að mestu lagst af. Í dag þykir meira móðins að hlusta á líkamann og reyna frekar að mæta líkamanum og huganum í mildi. Það er alveg hægt að lifa heilsusamlegu lífi og stunda reglulega hreyfingu án þess að vera í samfelldum sjálfspíningum og sjálfsniðurrifi.

Allt sem er auðvelt í framkvæmd er líklegra til árangurs.

Hvað þýðir það?

Jú, ef fólk getur sótt hreyfingu í nærumhverfinu er líklegra að fólk fari og hreyfi sig. Á síðasta ári ákvað ég að breyta um takt. Eftir að hafa átt líkamsræktarkort í mörgum líkamsræktarstöðvum á sama tíma sagði ég upp öllum helstu áskriftum og fór að æfa í sundlauginni í bæjarfélaginu sem ég bý í. Það gerði ég vegna þess að sundlaugin er opin til 22.00 á kvöldin, nema reyndar um helgar. Með því að skottast út í sundlaug á kvöldin, rífa í nokkur lóð og fara stöku sinnum í sund á eftir varð það gerlegt að mæta á æfingu án þess að auka streituna í daglega lífinu. Ég upplifi það sem mikinn streituvald að þurfa að vera mætt á ákveðnum tíma á ákveðna staði. Þetta á reyndar ekki bara við um leikfimi heldur bara mjög margt í lífinu sem ekki verður talið upp hér. Þegar tíminn á það til að hlaupa frá fólki, sérstaklega fólki eins og mér, þá þarf að finna aðra leið til þess að koma hreyfingu inn í rútínu.

Eitt af því sem skiptir miklu máli þegar leikfimisæfingar eru annars vegar er að hafa góðan æfingafélaga. Einhvern sem fer með þér á æfingar og hnippir í þig ef þú hefur þurft að hlusta of gaumgæfilega á líkamann með tilheyrandi fjarveru frá hnébeygjurekkanum. Þetta þurfa ekki að vera tveggja tíma boot-camp-æfingar með tilheyrandi svita og óþef. Stundum er nóg að gera bara örlítið eins og að hita létt upp, rífa í létt lóð og reyna að læra það í eitt skipti fyrir öll að fara í handahlaup.

Aðalmálið er að fá hjartað til að slá örlítið hraðar og hafa svolítið gaman um leið. Fólk gefst upp á öllu sem er leiðinlegt. Sagan segir það.