Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Mun færri rafknúnir fólksbílar seldust í fyrra en árið áður. Þannig seldust 8.776 rafknúnir fólksbílar árið 2023 en 2.661 í fyrra. Það er um 70% samdráttur milli ára.
Tölfræði um söluna má sjá á grafi hér til hliðar. Upplýsingarnar eru sóttar á vef Samgöngustofu en vísað er til rafknúinna fólksbíla í flokki M1. Aðeins er miðað við nýja bíla.
Árið 2023 seldust 3.547 eintök af Tesla-rafbílum á Íslandi sem var um 40% af heildarsölu rafknúinna fólksbíla. Næst kom Toyota með 688 eintök og svo Volkswagen með 633 eintök.
Sölumetið slegið
Tesla Model Y var langsöluhæsta undirtegundin árið 2023 en þá seldust 3.255 eintök af bílnum sem var sölumet á Íslandi. Fyrra metið var sett árið 1988 þegar rúmlega 1.200 Toyota Corolla-bifreiðar voru skráðar. Toyota Yaris er skammt undan í þriðja sætinu en um 1.200 eintök voru skráð af þeirri tegund árið 2006. Toyota átti aðra söluhæstu undirtegundina af rafknúnum fólksbílum árið 2023 en 643 eintök seldust af BZ4X. Polestar 2 var í þriðja sæti en 277 eintök seldust af bílnum.
Tesla var líka söluhæsta rafbílategundin í fyrra en þá seldust 563 slíkir rafbílar á Íslandi. Næst kom Hyundai með 236 seld eintök og Volvo var í þriðja sæti með 202 eintök.
Tesla Model Y var, eins og árið 2023, söluhæsta undirtegundin en alls seldust 433 eintök af bílnum í fyrra. Það var um 16% heildarsölunnar. Næst kom Hyundai IONIQ 5 með 172 eintök og svo í þriðja sæti var Tesla Model 3 með 126 eintök.
Tesla hefur því komið sér vel fyrir á íslenska markaðnum sem birtist í því að fyrirtækið hyggst reisa nýjar höfuðstöðvar í Hafnarfirði eins og sagt var frá í Morgunblaðinu 28. desember sl.
Hefur neikvæð áhrif
Sérfræðingur í íslenska rafbílamarkaðnum sagði í samtali við Morgunblaðið að mikill ávinningur hefði náðst í innviðauppbyggingu á hleðslustöðvum á Íslandi á síðustu árum. Það væri mikil hætta á að samdráttur í sölu rafbíla myndi hafa neikvæð áhrif á þá uppbyggingu.
Þá benti hann á að breyttar ívilnanir vegna kaupa á rafbílum á Íslandi hefðu haft sitt að segja. Virðisaukaskattsívilnun hefði verið afnumin af hreinorkubifreiðum og beinir styrkir lagðir til í staðinn. Með því hefði útsöluverð bifreiðanna hækkað en styrkirnir væru greiddir eftir á, að hámarki 900 þús. fyrir fólksbifreið sem kostar undir 10 milljónum. Þá hefði umræða um kílómetragjald haft neikvæð áhrif á sölu rafbíla og sala á þeim til bílaleiga hrunið.