Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Unnið hefur verið af fullum krafti að undirbúningi Sundabrautar hjá Vegagerðinni. Næsta lykilákvörðun sem taka þarf er sú hvort þvera skuli Kleppsvík á brú eða í göngum undir víkina.
Í nýútkomnum Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar er fjallað um stöðu Sundabrautarverkefnisins. „Við vonumst til þess að allar forsendur fyrir leiðavali og ákvarðanatöku liggi fyrir um mitt árið 2025. Í kjölfarið er hægt að hefja útboðsferli samvinnuverkefnis um Sundabraut með það fyrir augum að framkvæmdir geti hafist á árinu 2026 ef allt gengur upp,“ er haft eftir Helgu Jónu Jónasdóttur verkefnisstjóra Sundabrautar.
Sundabraut er nýr, u.þ.b. 11 km langur stofnvegur á höfuðborgarsvæðinu, frá Sæbraut að Kjalarnesi. Markmið verkefnisins er að bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta á norðurhluta höfuðborgarsvæðisins með því að stytta vegalengdir og ferðatíma, dreifa umferð á fleiri leiðir og létta þannig á umferðarþunga.
Sigurður Ingi Jóhannsson þáverandi samgönguráðherra og Dagur B. Eggertsson þáverandi borgarstjóri skrifuðu undir yfirlýsingu um lagningu Sundabrautar hinn 6. júlí 2021. Við það tækifæri sagði ráðherrann að hann reiknaði með að brautin yrði á brú yfir Kleppsvík frekar en í göngum undir hana.
Íbúarnir vilja frekar göng
Ekki er einhugur um brúarlausnina. Þegar óskað var eftir athugasemdum í Skipulagsgáttinni vegna kynningar á matsáætlun Sundabrautar höfnuðu íbúasamtök Laugardals alfarið brú yfir Kleppsvík enda myndi tilkoma hennar stórauka bílaumferð inn í hverfið. Samtökin vilja að brautin verði í jarðgöngum undir víkina.
Frá því að matsáætlun Sundabrautar var kynnt haustið 2023 hefur mikil vinna verið lögð í rannsóknir og greiningar vegna mats á umhverfisáhrifum, að því er fram kemur í Framkvæmdafréttum. Umfangsmiklar jarðtæknirannsóknir á landi og sjó hafa staðið yfir allt þetta ár og eru nú á lokametrunum. Unnið hefur verið að áframhaldandi útfærslu valkosta í frumdrögum en kostnaðarmat mannvirkja byggist m.a. á niðurstöðum jarðtæknirannsókna. Samhliða þessari vinnu hefur viðskiptaáætlun fyrir verkefnið verið að taka á sig mynd.
„Í grunninn stendur valið á milli þess að þvera Kleppsvík á brú eða í göngum. Fyrir brúarlausnina erum við síðan að skoða mismunandi útfærslur í hæð og lengd, auk gatnamóta og tenginga, bæði fyrir bíla, gangandi og hjólandi vegfarendur. Það tekur sinn tíma að frumhanna og rannsaka mismunandi leiðir svo að hægt sé að meta framkvæmdakostnað mannvirkja og gera grein fyrir umhverfisáhrifum þeirra. Að auki liggur hluti Sundabrautar um viðkvæm svæði sem þarf að greina og rannsaka vel áður en ákvörðun verður tekin um endanlega útfærslu mannvirkja,“ segir Helga Jóna.
Umhverfismatsskýrsla Sundabrautar verður tilbúin til kynningar með vorinu. Skýrslan mun verða öllum aðgengileg í skipulagsgáttinni og að auki stendur til að halda opna kynningarfundi um niðurstöður umhverfismatsins þegar þar að kemur.
Á sama tíma verða kynntar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna Sundabrautar.
Nýr samgönguráðherra, Eyjólfur Ármannsson, hefur lýst því yfir að Sundabraut verði forgangsmál hans sem ráðherra.
Árið 2022 flutti Eyjólfur ásamt öðrum þingmönnum Flokks fólksins þingsályktunartillögu um að gerð Sundabrautar, með brú milli Kleppsvíkur og Gufuness, yrði hraðað eftir fremsta megni og framkvæmdir hafnar hið fyrsta, eigi síðar en fyrir árslok 2023. Framkvæmdum yrði lokið fyrir árslok 2027 eða fyrr.
Ekki hægt að flýta verkinu
Það var mat Reykjavíkurborgar í umsögn um tillöguna að ekki væri raunhæft að flýta framkvæmdum við Sundabraut. Þær gætu ekki hafist fyrr en árið 2026, eins og áætlanir gerðu ráð fyrir.
Vegna framkvæmdarinnar þarf að fara í lögbundið og tímafrekt matsferli og veita andmælarétt. Þetta ferli gæti tekið allt að þrjú ár. Þá má reikna með að útboðsferli slíkrar stórframkvæmdar taki drjúgan tíma.
Áætlanir gera ráð fyrir að Sundabraut verði tilbúin til notkunar árið 2031. Það á eftir að koma í ljós hvort sú áætlun stenst. Hún er að flestra mati í bjartsýnasta lagi.
Sundabraut á að fjármagna með gjaldtöku af umferð og gert er ráð fyrir að einkaaðilar annist fjármögnun í samræmi við lög um samvinnuverkefni.