Sjónarhorn
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Það er ástæða til að óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum sínum. Það er kannski ekki mikil ástæða til að velta sér um of upp úr kynjatali en það skiptir samt máli að leiðtogar stjórnarinnar eru þrjár konur.
Þarna er Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar, sem er ætíð rökföst og mjög ákveðin og lætur engan eiga neitt inni hjá sér. Hún virðist hafa stáltaugar, sem mun örugglega reynast henni vel í átakamiklu embætti forsætisráðherra. Kristrún getur verið ósvífin og hörð, eins og opinberaðist mjög greinilega í framgöngu hennar gegn Degi B. Eggertssyni fyrrverandi borgarstjóra. Hún sá ekki ástæðu til að gera hann að ráðherra í ríkisstjórn sinni þótt hann hafi það á afrekaskrá sinni að hafa haldið Reykjavíkurborg frá Sjálfstæðisflokknum í háa herrans tíð. Sjálfstæðismenn leggja ógurlega fæð á Dag og sýna iðulega merkilega litla sjálfstjórn þegar kemur að eitruðum árásum á hann. Fyrir fram hefði verið rík ástæða til að ætla að Samfylkingin myndi þakka Degi fyrir vel unnin störf í þágu borgarbúa og sýna honum fullan sóma. Af einhverjum ástæðum er það ekki gert. Formaður flokksins lætur eins og tími Dags B. Eggertssonar sé liðinn. Kannski er ekki pláss fyrir tvær stjörnur í Samfylkingunni.
Það er gaman að sjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formann Viðreisnar í embætti utanríkisráðherra. Fáir stjórnmálamenn bera það jafn glöggt með sér að hafa yndi af starfi sínu í stjórnmálum og einmitt hún.
Þorgerður Katrín hefur fyrir venju að bera kross. Á tímum þegar trú þykir jafnvel feimnismál er notalegt að sjá opinbera persónu standa með trú sinni dag hvern og bera tákn hennar. Stjórnmálamenn láta yfirleitt eins og trú skipti þá engu máli. Nú mun Þorgerður, sem utanríkisráðherra, koma víða við utan landsteina og skilur þá krossinn vonandi ekki eftir heima.
Þorgerður er ákveðin, réttsýn og hjartahlý. Það síðastnefnda skiptir ekki síst máli. Stjórnmál sem byggjast eingöngu á kaldri rökhyggju eru ekki aðlaðandi. Hlýja og samúð með öðrum eiga þar ríkt erindi.
Inga Sæland er eiginlega eins langt frá því og hægt er að vera dæmigerður stjórnmálamaður. Hún er óhefluð, kjaftfor og orðheppin. Það er ekki til í henni snobb, sem hlýtur að flokkast sem mikill kostur. Hún þekkir og skilur líf venjulegs fólk sem er að berjast við að borga af húsnæðislánum eða borgar himinháa leigu í hverjum mánuði. Inga veit mætavel að á Íslandi er fólk sem býr við fátækt og hún hefur einlægan vilja til að bæta hag þessa hóps.
Inga er ólíkindatól, sem hlýtur að flokkast sem ókostur í stjórnmálum. Enginn efast um að hún vill vel en þar sem hún er tilfinningarík og hvatvís getur hún brugðist harkalega við og er jafnvel líkleg til að geta snúist gegn samstarfsflokkum sínum í einhverjum málum. Þeir sem segja þetta nýja stjórnarsamstarf nánast vonlaust vegna þátttöku Flokks fólksins eru því ekki einungis að tala út frá óskhyggju. Flokkur fólkins virðist fremur líklegur til upphlaupa. Vonandi verða þau þó fá og langt á milli þeirra.
Forystukonurnar þrjár munu þurfa að búa við grimma gagnrýni stjórnarandstöðu sem er í miklum ham. Sjálfstæðismenn eru sárreiðir og svekktir. Það er í eðli þeirra að líta svo á að þeir séu fæddir til forystu og þegar þjóðin áttar sig ekki á því þá breyta þeir sér í vígamenn. Þeir munu hvergi hlífa ríkisstjórninni og höggin eiga eftir að verða þung. Miðflokkurinn mun segja okkur hvað eftir annað að þessi ríkisstjórn sé gjörsamalega vonlaust fyrirbæri. Framsóknarflokkurinn, eða það sem eftir er af honum, mun einbeita sér að því að sleikja sár sín.
Ný ríkisstjórn boðar breytingar og hefur heitið því að vinna í þágu fólksins í landinu. Allar góðar óskir fylgja henni og hinum einbeittu forystukonum.