Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Magnús Halldórsson heyrði fregnir af sæstrengjum til og frá landinu og fælingarmætti NATO á meðan hann maulaði reyktan og vel saltaðan sauðabringukoll. „Kona mín var í ham á öðru sviði og flutti mér viðvaranir varðandi ofneyslu á söltu og reyktu, nefndi mér líka nokkur dæmi um afleiðingar,“ skrifar hann og bætir við:
Ef borða ég saltað sauðaspik,
þá syngur í bústýru hátt.
Hún segir það kalla á súran fnyk
og sérlegan fælingarmátt.
Vísnagáta liðinnar viku barst sem endranær frá Páli Jónassyni í Hlíð á Langanesi:
Margur hann í hljóði ber,
heiti á sveitabænum,
hangir kannski á hálsi þér,
heiðursmerki líka er.
Eins og vísnaáhugamenn þekkja felst merking lausnarorðsins í hverri línu vísnagátunnar. Helgi Einarsson rambar þegar á lausnina:
Kross er bóndabær.
Borinn kross í hljóði.
Helgum kross er kær.
Krossinn fær hinn góði.
Þá Úlfar Guðmundsson:
Sáran kross í brjósti ber.
bærinn Kross er setinn.
Fagur kross á hálsi hér.
Heiðurskross er metinn.
Guðrún Bjarnadóttir lætur ekki sitt eftir liggja:
Ber sinn kross í hljóði hún
til heimilis á bænum Krossi.
Um hálsinn kross og kætist brún,
því kannski er von á stórkrosshnossi.
Sjálfur ræður Páll gátuna þannig:
Margur beygður ber sinn kross,
bærinn þarna heitir Kross,
á hálsi þínum hangir kross,
hengdi Guðni á mig kross.
Þá er það vísnagáta Páls fyrir næstu viku:
Oft með fiski orðið sá,
uppnefni á feitum.
Brauð sem kemur Berlín frá
blönduð góðum stundum á,
einkum þó í afmæli og teitum.
Jón Gissurarson yrkir við áramót:
Sút og leiða burtu berið
bugast látið sérhvert væl.
Glöð í sinni getið verið
gamla árið kvatt með stæl.