Heildarorkukostnaður heimila samkvæmt nýjum samanburði, þ.e.a.s. bæði raforku- og húshitunarkostnaður viðmiðunareignar, var hæstur í Grímsey á síðasta ári eða 427 þús. kr. en hann var lægstur á landinu á Flúðum, 195 þús

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Heildarorkukostnaður heimila samkvæmt nýjum samanburði, þ.e.a.s. bæði raforku- og húshitunarkostnaður viðmiðunareignar, var hæstur í Grímsey á síðasta ári eða 427 þús. kr. en hann var lægstur á landinu á Flúðum, 195 þús. kr., og þarnæst í Laugarási, 200 þús. kr. Í Grímsey er rafmagn framleitt með dísilrafstöð og húsin kynt með olíu.

Þetta kemur fram í skýrslu um orkukostnað heimila í 92 byggðakjörnum um allt land þar sem tekið er mið af gjaldskrám 1. september 2024. Byggðastofnun birtir skýrsluna sem byggð er á árlegum útreikningum Orkustofnunar á kostnaði við raforkunotkun og húshitun á sambærilegum fasteignum á flestum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli en viðmiðunareignin er 140 fermetra einbýlishús.

Lægsta mögulega raforkuverð fyrir viðmiðunareignina, að meðtöldum flutnings- og dreifingarkostnaði, fæst hjá Veitum á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi, um 99 þús. kr. Í skilgreindu þéttbýli var hæsta gjald fyrir raforku um 119 þús. kr. hjá Orkubúi Vestfjarða en raforkuverð er hærra í dreifbýli, hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða, eða um 136-141 þús. kr. á ári fyrir viðmiðunareignina.

„Bilið milli raforkuverðs í þéttbýli og dreifbýli minnkaði mikið árið 2021 vegna aukins dreifbýlisframlags en árið 2024 jókst það aftur nokkuð. Árið 2024 hækkaði raforkuverð fyrir viðmiðunareign í þéttbýli um 4,5-7,8%, nema hjá HS Veitum þar sem raforkuverð lækkaði um 2,5%. Í dreifbýli hækkaði raforkuverð viðmiðunareignar hins vegar meira, eða um 7,7% hjá RARIK og 14,9% hjá Orkubúi Vestfjarða,“ segir í samantekt Byggðastofnunar.

Eins og í fyrri samanburði á orkukostnaði heimilanna var munurinn á húshitunarkostnaði milli svæða mun meiri en á raforkuverði. Lægsti mögulegi kostnaður þar sem húshitun er dýrust er um þrefalt hærri en þar sem húshitunin er ódýrust. Allt til ársins 2021 var kostnaðurinn hæstur þar sem notuð er bein rafhitun en breyting hefur orðið á því. Lægsta verð fyrir húshitun með rafmagni hefur lækkað talsvert síðustu ár, m.a. vegna niðurgreiðslna á dreifi- og flutningskostnaði. „Sú þróun hefur gert það að verkum að lægsti mögulegi kostnaður fyrir beina rafhitun er nú orðinn lægri en þar sem eru dýrar hitaveitur,“ segir í umfjölluninni.

Sé litið á einstök byggðarlög kemur í ljós að lægsti kostnaður heimila við húshitun var í Brautarholti á Skeiðum, eða 75 þús. kr., og á Flúðum, 83 þús. kr. Hæstur er hann í Grímsey, eða 281 þús. kr., og svo á Grenivík ,252 þús. kr., og á Höfn og í Nesjahverfi í Hornafirði, 243 þús. kr.

Heildarorkukostnaður á höfuðborgarsvæðinu er hæstur í Hafnarfirði og vesturhluta Garðabæjar, 246 þús. kr., en næsthæstur í Reykjavík, Kópavogi og austurhluta Garðabæjar, 242 þús. kr. á viðmiðunarheimili.

„Í Grundarhverfi á Kjalarnesi er heildarorkukostnaður 222 þ.kr. Lægsti heildarkostnaður á höfuðborgarsvæðinu er í Mosfellsbæ 202 þ.kr., en hann hefur lækkað nokkuð frá árinu 2014, eða um 10,1%. Heildarorkukostnaður viðmiðunareignar á höfuðborgarsvæðinu er svo næstlægstur á Seltjarnarnesi 203 þ.kr. þar sem hann hefur hækkað um 9,0% síðan 2014,“ segir í skýrslunni.

Á Suðurnesjum er orkukostnaður víðast hvar svipaður, á Vesturlandi er heildarorkukostnaður hæstur 330 þús. kr. á stöðum þar sem kynt er með rafmagni, þ.e. í Ólafsvík, Grundarfirði, á Hellissandi og Rifi, og hefur hann lækkað um 20,0% frá 2014 á þessum stöðum. Á Vestfjörðum er heildarorkukostnaður hæstur í Súðavík, 359 þús. kr. Á Seyðisfirði, þar sem er kynt hitaveita, er heildarorkukostnaður 298 þús. kr. og hefur lækkað um 28,3% á sl. tíu árum svo að dæmi séu tekin.